23.7.11

Laugavegurinn 2011

Þá var loksins komið að því, Laugavegurinn 2011, 55km af brekkum, snjó, ám, giljum, sandi og skóg. Búinn að undirbúa mig vel í einhverjum mesta ógeðis vetri sem ég man eftir bæði til að ná sæmilegum maraþon tíma og aðalega til að reyna að gera góða hluti í Laugaveginum.

Planið var að reyna að fara undir 5 klst en gekk með þann draum í maganum að komast á pall, þó ég hafi ekki sagt mörgum frá því. Var búinn að ákveða að fara hægt að stað upp í Hraftinnusker, bæði að taka því rólega upp og einnig niður mestu brekkurnar. Reyndi að fara eftir áætluðum meðalhraða og hlaupa vel sléttu kaflana. Fara mjög rólega niður Jökultungurnar og auga hraðann eftir það og gefa svo vel í eftir Hvanngilið. Hlaupa sandana á góðum hraða og svo reyna að klára seinasta leggin eins vel og maður gæti. Hérna er áætlunin sem ég ætlaði að fara eftir og var með skrifaða á handlegginn.
Tími Pace
1:05:00 - 6:34 - Hrafntinnusker
1:05:00 - 5:55 - Álftavatn
1:20:00 - 5:02 - Emstrur
1:30:00 - 5:53 - Húsadalur
5:00:00
Fór eftir þeim vegalengdum sem Garmin gaf mér frá hlaupinu í fyrra, þær vegalengdir stóðust vel nema ég áætlaði að seinasti leggurinn væri 15 km, ekki 16,3 eins og hann reyndist vera.

Þá var ég búinn að vera veikur vikuna á undan og vissi ekki alveg hvaða áhrif það myndi hafa á þessi áform mín. Lá í einhverri kvefpest og var nokkurnveginn búinn að ná mér á föstudeginum þó svo einhver drulla væri ennþá í lungum/hálsi og nefi. Ætlaði að reyna að halda áætlun þrátt fyrir slappleikann og taka bara á því eins og ég gæti og sjá hvað það myndi skila.


Lagði af stað um 18:30 úr bænum með Geira, Sigga Sveins og Hrafnkeli félaga þeirra. Fékk mér smá pasta með kjúklingi áður en ég lagði af stað. Vorum komnir upp í mörk um kl. 22, fór þá að tjalda og fékk mér að borða afganginn að pastanu. Fór stuttu eftir það að sofa og reyna að hvíla mig fyrir morgundaginn. Fann ennþá aðeins fyrir kvefinu í tjaldinu, enda köld gola sem blés aðeins inn í tjaldið.
Vaknaði klukkan um 5:30 um hálftíma áður en ég hafði ætlað. Fór út að pissa og tók því svo rólega í dúnpokanum. Um 6 fékk ég mér svo tvær samlokur, eina með kjúklingaskinku, osti og sultu og hina með hnetusmjöri, drakk um 500ml af Powerade með. Tók því svo rólega þangað til klukkan var orðinn rétt yfir sjö, það var kalt um morguninn og því gott að liggja aðeins lengur. Þá fór ég að taka mig til fyrir hlaupið og sinna nauðsynlegum þörfum. Pakkaði tjaldinu saman og fór svo að koma mér í hlaupagallann. Smyrja nauðsynlega líkamsparta, teipaði báðar stórutærnar (fékk blöðru á aðra þeirra í fyrra) og gerði hlaupabeltið tilbúið.
Fékk mér svo einn banana kl. 8 og drakk eitthvað af vatni áður en ég fór af stað. Prófaði aðeins að skokka um og breytti aðeins til í beltinu þannig að pokinn sem var með gelin myndi ekki sveiflast eins mikið. Tók með mér 9 gel, 4 orkubita (sem Anna hafði gert fyrir mig), nokkrar döðlur og svo íbófen og salttöflur til öryggis.
Var að vesenast með hvernig ég ætti að vera klæddur. Var klæddur í stuttbuxur (hlaupa / þröngar) með CEP kálfahlífar sem ég hafði keypt tveimur dögum fyrr. Var að vesenast hvort ég ætti að vera í stuttermabol eða langerma eða bæði. Það var það kalt um morguninn að ég var á því að fara í langermabol og stuttermabol undir en svo þegar 5 mín voru í startið þá kom sólin og byrjaði að hitna. Ég náði að losa mig við langermabolinn og hljóp því bara á stuttermabol, sá ekki eftir því.
Var búinn að ákveða fyrir löngu að hlaupa í Asics Sky Speed skónum sem ég hljóp vormaraþonið í. Þegar við komum á föstudeginum upp í Landmannalaugar og maður sá allan snjóinn þá fór ég að efast um að þetta hafi verið rétt skó val hjá mér. Fór engu að síður í skónum enda Anna búin að sauma sokka á þá til að vera einskonar legghlífar og hindra að steinar, snjór og sandur færi ofan í skóna.


Landmannalaugar-Hrafntinnusker 1:03:37 (1:05) 
Kom mér í röðina og plantaði mér í næst fremstu röð enda alltaf áætlunin að taka því nokkuð rólega fram að Álfavatni. Flautan gall og menn skokkuðu yfirvegað af stað. Öndunin var smá stirð í byrjun enda ennþá með smá leifar af kvefinu, en var fljót að komast í rétt ástand. Rúllaði í og við Sigurjón í ca. 5-8 sæti eftir því hvað menn hlupu hratt. Reyndi að hlaupa vel sléttu kaflana og taka því rólega bæði upp og einnig niður bröttustu brekkurnar. Maður sá fljótlega að það var miklu meiri snjór á þessum kafla en hann var nokkuð þéttur til að byrja með og hafði því ekki teljandi áhrif. Þegar ofar dró fór snjórinn að þyngjast og einnig voru krapa pyttir fyrir framan og aftan stærstu skaflana þar sem maður sökk upp af kálfum og blotnuðu því skórnir snemma þetta árið. Leið samt vel á þessum kafla og frábært að hlaupa í svona góðu veðri á svona fallegum stað. Ég var nr 5. í Hrafntinnusker á 1:03:37, ca. 1:30 mín á undan áætlun. Á undan mér voru Vuistiner, Óskar, Margeir og Sigurjón. Fékk mér banana og fyllti á brúsana og rúllaði af stað. Var búinn að fá mér eitt gel eftir 30 mín hlaup.


Hrafntinnusker-Álftavatn 1:01:38 (1:05)
Ég og Sigurjón fórum nánast saman af stað úr Skerinu ásamt þriðja hlaupara sem ætlaði á ca. 5:30. Hlupum nokkra km saman og spjölluðum saman en ég sleit mig fljótlega frá þeim og fór aðeins hraðar yfir aflíðandi kaflana. Þessi hluti leiðarinnar er mjög fallegur og skemmtilegur. Snjórinn var þungur og blautur á þessum kafla og miklu meiri í ár en í fyrra en aftur á móti slapp maður við nokkur lítil gil sem voru full af snjó. Í stærsta gilinu fyrir Jökultungurnar kom svo Paul Sadjak (sá sem varð í 3. sæti) framúr mér á fleygi ferð og þegar ég sá að hann var með grænt númer spyr ég hann hvort að hann hafi startað 10 mínútum á eftir mér, fékk til baka “já 10 mínútur” og hélt að þetta væri Íslendingur. Var nú ekki viss um að hann myndi halda þetta út (svona fyrst ég vissi ekki hver þetta var) en svo kom í ljós að hann kann íslensku eftir að hafa verið skiptinemi hérna ‘96. Þannig að aftur varð ég orðinn fimmti. Fékk mér aftur gel eftir ca. 30 mín hlaup. Fór mjög rólega niður Jökultungurnar og sá að það var einhver að nálgast mig en eftir það fór ég að gefa nokkuð í og keyrði vel sléttu kaflana alla leið út í Álftavatn. Á þessum tímapunkti sá ég lítið í næsta mann en sá stundum glitta í Margeir. Rúllaði inn í Álftavatn og fékk mér eitt gel áður en ég kom að vatnsstöðinni, fyllti á brúsana sem voru ennþá hálf fullir, fékk mér smá að drekka og tók banana með mér áður en ég lagði aftur af stað.


Álftavatn-Emstur 1:19:42 (1:20) 
Fór aftur rólega úr Áltavatni og tók bæði brekkur upp og brekkur niður rólega. Þegar fór að styttast í Hvanngil þá fór landslegið að vera betra til hlaups og ég gaf þá aðeins í. Góð móttöku nefnd tók svo á móti mér í Hvanngili gaf mér mikið. Styrmir og Ragnheiður ásamt Önnu Guðný frænku og öðru Hjálparsveitaliði. Kom mér á óvart að sjá þau þarna og mjög gaman að hitta þau (þó stutt hafi verið).



Þarna var ég kominn á mjög góða siglingu og orkustigið frábært og fann ekki neitt fyrir neinu. Tók svo framúr Margeiri ca. 100m fyrir Bláfjallakvíslina, stoppaði ekki þar og hélt áfram að keyra hratt yfir sandana. Sá fljótlega í Óskar og Paul og vann á þá hægt og rólega. Tók fyrst framúr Paul og hann kallaði á eftir mér “Did you get new legs” slík var ferðin á mér. Þá hugsaði ég að taktíkin væri að ganga upp. Þegar kom svo að vatnsstöðinni þar sem slóðin fer af veginum þá náði ég Óskari og vorum við þar þrír ég, Óskar og Paul. Gaman að hitta Óskar og óska honum góðs gengis. Ég fór svo fyrstu af vatnsstöðinni og hélt áfram að hlaupa af krafti. Gaman að koma að fyrstu brekkunni eftir sandana með næga orku og ennþá ferskar lappir því í fyrra var það mjög erfiður kafli hjá mér, í krampa veseni og í andlegri lægð. Eftir að ég fór frá Óskari og Paul þá sá ég aldrei Vuistiner, Óskar sagði mér að þetta væri Svisslendingur og væri eitthvað á undan mér. Þegar maður nálgaðist svo Emstrur fékk að vita að hann væri svona ca. 7 mínútum á undan mér. Ég ákvað samt að hlaupa bara mitt hlaup og eftir mínu plani og sjá hvað það myndi skila mér. Var mjög gott að sjá Emstru skálann og þennan legg hljóp ég á 1:19:42 og var kominn upp í 2. sæti. Vissi samt að Paul átti 10 mínútur á mig og ég mætti því ekki slóra mikið. Fékk mér aftur banana og fyllti á brúsana. Fékk mér líklegast tvö gel á þessum kafla.


Emstrur-Húsadalur 1:39:28 (1:30) 
Hljóp úr Emstrum ennþá nokkuð ferskur en alveg farinn að þreytast smá, maginn var einnig farinn að verða eitthvað leiðinlegur og þurfti maður stundum að pína sig í að fá sér að drekka og taka gel. Á þessum kafla var maður mikið einn, sá engann hvorki fyrir framan né aftan mig. Hitinn var svo orðinn hálf óbærilegur á kafla og maður alveg að sálast úr hita, ekki beint þyrstur heldur frekar heitt. Það kom mér á óvart hversu margar brekkur og gil voru á þessum kafla, var því ekki alveg að halda áætlun en lappirnar ennþá nokkuð góðar en maginn eitthvað leiðinlegur. Fékk mikinn stuðning í og við Bjór- og Slippugil frá gönguhópum sem þar voru, sérstaklega þegar fólk áttuðu sig á að ég var Íslendingur. Sögðu mér að það væru svona 1km - 5mínútur í “útlendinginn” og ég yrði að ná honum. Þegar ég fór að nálgast Ljósána var ég alveg að sálast úr hita og það var farið að hafa áhrif á mann. Var líka eitthvað búinn að misreikna mig hvað væri langt í stöðina. Sá einhvern ofan á Kápunni þegar ég nálgast en var ekki viss hvort að þetta væri göngumaður eða hlaupari, hefur líklegast verið Vuistiner enda var ég að minnka bilið smá saman. Hann sagði allavega eftir hlaupið hafa vitað af mér fyrir aftan sig og séð mig. Þegar ég kom að vatnsstöðinni beygði ég mig strax niður og náði í vatnsglas til að sturta yfir mig, fékk þá strax smá seiðing aftan í læri. Fyllti á brúsana (sem voru allir tómir), skvetti tveimur glösum í viðbót yfir mig og rúllaði af stað. Þá tók við Kápan góða og þá fékk ég góða krampa í innanver lærin, labbaði því upp alla Kápuna og reyndi að losna við krampana. Fyndið hvaða sama flugan flaug í gegnum hausinn á mér í ár eins og í fyrra þegar ég sá Kápuna “Hvað djöfulsins hvað þessi brekka er löng”. Var ágætt að taka smá labb og hvíla sig smá, tókst bærilega að losna við krampana og svo var bara ekkert annað að gera en að hlaupa áfram. Niðurhlaupið af Kápunni tók vel í lærin en ég gat rúllaði niður ágætlega og lærin mun betri en í fyrra.

Fór yfir Þröngána og þá vissi ég að það var farið að styttast. Kom mér svo aftur mikið á óvart hvað þessi kafli er í raun langur og þar áttaði ég endanlega á því að undir 5 klst markmiðið væri líklegast farið en alls ekki ósáttur þar sem ég var í ennþá í öðru sæti og fyrstur Íslendinga. Þorði ekki að keyra mjög hratt útaf það var stutt í krampana og mikið um þröngastíga og upp og niður á þessum loka kafla leiðarinnar. Erfitt að lýsa því þegar maður tekur seinustu beygjuna og sér markið. Hugsaði bara um að þarna væri fjölskyldan saman komin að taka á móti mér og ég væri að ná öðru sætinu. Hljóp því sæll og glaður í markið eftir 55km á 5:02:22 og annað sætið í hús (eða kannski ekki). Faðmaði fjölskylduna og tók á móti hamingju óskum, brosaði allan hringinn og var ekkert smá ánægður með árangurinn. Ekkert smá gaman að klára og hafa fjölskylduna til að taka á móti sér.


Húsadalur 5:02:22 (<5:00) 
Fór fljótlega inn að fá mér að borða og drekka. Fór svo í fótakælingu en hefði vilja koma lærunum í kælingu en ekki komast ég ofan í karið eða þorði ekki að troða mér í það á eiga hættu að fá krampa og ekki komast upp úr því aftur. Svo beið maður bara til að sjá hvort að Paul myndi koma á næstu 10 mínútum og hvort ég væri í 2. eða 3. sæti. Fagnaði því þegar 5:12:22 voru á klukkunni og ég því búinn að landa 2. sætinu.
Var svo alveg frábært að rölta um svæðið og spjalla við fólkið, gott veður og allir glaðir. Bæði þá sem voru að klára og einnig þá sem komu til að horfa á. Gaman að sjá að allir fá mikinn stuðning þegar þeir koma í mark. Verið mikil og góð stemning við markið í bæði skiptin sem ég hef hlaupið. Fór svo fljótlega í sturtu og fékk mér að borða og beið svo kannski full lengi eftir verðlaunaafhendingunni. Gaman að vera á palli bæði í einstaklings keppninni og einnig í fyrsta sæti í liðakeppninni með Óskari Jakobs og Kristni Jóhanns. Pabbi kom svo að sækja mig og við fórum yfir í Bása í fjölskylduútilegu og smá veislu til að fagna áfanganum.


Frábært hlaup í allastaði og ég ekkert smá ánægður hvað hlaupið gekk vel upp. Náði að halda orkustiginu nokkuð góðu allan tímann þó svo að hitinn hafi sett smá strik í reikninginn seinustu 10 km. Enginn lægð (runner low) sem hægt er að tala um, engir verkir í liðamótum, engar blöðrur, bara smá þreyttur í löppunum og þá aðalega í lærunum. Endaði með að borða einn orkubita, taka 7 gel og drekka mikið af bæði Powerade og vatni. Maginn var eitthvað til vandræða og veit ég ekki hvað átti sök á því. Var nausynlegt að drekka powerade til að fá söltin sem líkamanum vantaði og einnig vatn á kafla hreinlega til að kæla sig.


Núna viku eftir hlaupið finn ég sama sem ekkert fyrir hlaupinu og því vill ég meina að æfingar og allur undirbúningur hafi gengið nánast fullkomlega upp. Geng því mjög sáttur frá þessu hlaupi og stoltur af því að hafa verið fyrstur Íslendinga í hlaupinu. Tími minn var 20. besti tími frá upphafi og 12. besti tími Íslendings, get verið stoltur af því (sjá mbl.is).
Ekki kominn með neinn hlaupa leiða og hlakka til að takast á við næstu hlaup, hver sem þau verða.