Sýnir færslur með efnisorðinu Hlaup. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hlaup. Sýna allar færslur

15.7.19

Laugavegurinn 2019 - 2. sæti á 4:44:39 klst

Skrítin tilfinning að vera mættur aftur á ráslínu í Laugaveginum. Mér fannst smá pressa vera á mér þar sem Tobbi var búinn að hlaupa frá Þórsmörk eitt stykki öfugan Laugaveg áður en hlaupið sjálft byrjaði. Ég búinn að vera valinn í landsliðið og með þannig pressu á að maður þarf að skila sæmilega góðu hlaupi bara útaf því. Þá var Hlynur einnig í svakalegu formi og einnig aðrir öflugir eins og Birgir Már og Snorri Björns sem mér datt í hug að gætu verið öflugir ásamt Gunnari Atla. Planið var samt alltaf að hlaupa mitt eigið hlaup og ekki láta Tobba eða einhverja útlendinga ráða hraðanum. Ég vissi ekki alveg hvernig ég væri stemmdur enda var stóra markmiðið HM í Portúgal fyrir 5 vikum og æfingar í millitíðinni ekki verið góðar. Setti samt upp smá plan en meira sem viðmið þegar ég fór í gegnum drykkjastöðvar en ekki eitthvað sem ég var að fylgjast með á milli stöðva. Planið var 1:00 klst upp í Hrafntinnusker - 0:55 (1:55) klst í Álftavatn - 1:17 (3:12) klst í Emstrur og svo 1:25 (4:37) í Þórsmörk. Þetta var meira drauma markmið en eitthvað fast og því var ég mjög rólegur að ná þessum tíma.

Landmannalaugar - Hrafntinnusker
Allir líklegir voru mættir í startið og fljótlega var hlaupið ræst og allir æddu af stað. Ég var orðinn fremstur eftir 20 m og var var því fyrstur upp hraunkantinn og þá var Tobbi strax kominn upp að mér. Við rúlluðum að Brennisteinsöldu og þar kom USA maðurinn framúr og fljótlega Suður Kóreu gaurinn líka, eftir smá stund var svo Hlynur kominn upp að mér. Rúlluðum brekkurnar vel en líklega aðeins og ákafir því ég var ca. 5 slögum of hár í brekknum en náði mér aðeins á flötu köflunum. Tobbi og USA gaurinn mynduðu fljótt sæmilegt forskot og ekki datt mér í hug að elta þá. Var frekar að vona að Tobbi myndi eitthvað dala eftir því sem leið á hlaupið og hafði svo sem trú á að ná USA gaurnum seinna á söndunum. Náðum Suður Kóreu gaurnum eftir ca. 8 km og skyldum hann strax eftir. Mjög lítill snjór og gekk vel að komast upp í Hrafntinnusker. Mjög fínt að vera með Hlyni á þessum tímapunkti og bara gott spjall okkar á milli. Fórum saman í gegnum Hrafntinnusker á 59:53 klst og ég 155 í púls (aðeins of hátt). Ekkert stopp og hlaupið beint framhjá drykkjarstöðinni. Tók eitt GU gel eftir 45 mín og drekk ca. 500 ml. af vatni.
 
Hrafntinnusker - Álftavatn
Þarna sáum við alltaf í USA og Tobba en vorum ekkert að pressa, náði púlsinum strax í miklu betra lag og fannst mjög þægilegt að hlaupa þennan legg. Lítill snjór í kringum Hrafntinnusker en aftur á móti flest gil tóm en það telur lítið miðað við að losna við mesta snjóinn. Áfram þægilegt spjall hjá okkur Hlyn og við greinilega mjög svipað strekir eins og ég átti von á fyrir hlaup. Eitt fallegasta útsýni landsins áður en vð fórum niður Jökultungurnar. Fórum sæmilega varlega niður Jökultungurnar og byrjuðum að rúlla vel eftir það að Álftavatni. Þegar Hlynur var fyrir framan mig fannst mér hann pressa aðeins meira en ég vildi en samt allt innan eðlilegra marka. Vorum sömuleiðis samferða í gegnum Álftavatn á tímanum 1:57:22 klst (57:52 klst) og þarna var púlsinn kominn í miklu betra stand eða meðalpúls uppá 147. Leið þarna mjög vel og var smá dónalegur við eina konu sem var að rífa miðann af númerinu mínu og var eitthvað lengi að því (bið hana hér með afsökunar). Tók tvö gel á þessum legg, eitt eftir 1:15 klst og annað eftir 1:45 klst og kláraði næstum því GU drykkinn sem ég var líka með í 500 ml flösku í Camelbak vestinu mínu. Fyllti vatn á einn búsa og Powerade í annan brúsa og rauk af stað með Hlyni. 

Álftavatn - Emstur
Við Hlynur héldum áfram saman útaf drykkjarstöðinni en svo yfir fyrsta hálsinn eftir Álftavatn fann ég að Hlynur var aðeins að dragast aftur úr, brunaði svo yfir Bratthálskvísl og þá var stutt í Hlyn þannig að ég hélt að hann væri ennþá með allt í góðu og ég ákvað samt að halda mínu striki án þess að pressa útaf honum eða heldur að bíða eftir honum. Þegar við komum svo niður í Hvanngil sá ég að það var farið að styttast mikið í USA gaurinn og sömuleiðis komið smá bil á milli míns á Hlyns (kannski 40 m). Þarna datt ég í svakalega gott stand og fór að hlaupa mjög vel án þess að streða, púlsinn í góðum málum og ég að hlaupa mjög vel. Náði svo USA strax eftir Bláfjallakvísl og skyldi hann strax eftir. Þarna og eftir þetta var ég ekkert að spá í hvað væri að gerast fyrir aftan mig og lifði í voninni að ég færi að sjá í Tobba sem ég hélt að myndi kannski gefa eitthvað eftir kominn með þetta marga km í sig. Rúllaði sandana mjög vel og svo áfram frá veginum og í gegnum Útigönguhöfða skarðið. Eftir það fór ég aðeins að vera þreyttur og finna fyrir þreytu í löppunum og komu smá áhyggjur að ég væri að fara fá krampa eins og ég lenti í úti í Portúgal. Hélt samt áfram og gekk vel, reyndi að hugsa bara um næsta km og vera jákvæður. Var alveg farið að lengja eftir að sjá Emstrur en sömuleiðis farinn að þekkja leiðina vel, en var engu að síður mjög gott að sjá Emstru skálann. Fékk mjög óvænt smá tak í hægra hné niður að skálanum en ekkert mjög alvarlegt á þessu pkt. Kom þar í gegn á tímanum 3:15:16 klst (1:17:54) sem var um 3 mín á eftir markmiði mínu og var ég bara mjög sáttur við tímann, púlsinn í mjög góðum málum í 148 slögum. Tók GU gel á 30 mín fresti og tók 3 gel á þessum legg og kláraði næstum báðar flöskurnar mínar. Fyllti aftur vatn og Powerade á flöskurnar, fékk mér smá Mars bita og hljóp strax út. Hitti Kjartan sem sagði að það væri ekkert mjög langt í Tobba.

Emstrur - Þórsmörk
Fór út og gat áfram hlaupið sæmilega en fann að þreytan var farin að segja til sín. Hljóp niður að Fremri Emstruá og þá fann ég aftur fyrir hnénu yfir ánna og svo niður í gilið þar fyrir neðan. Orðinn þreyttur þarna og hálf orkulaus og tók fljótlega gel og drakk vel af Powerade, datt aðeins í betri gír en fann samt að ég var ekki að fara slá nein met á þessum legg. Var mikið að hugsa um hvernig mér leið þegar ég vann Laugaveginn 2013 og hljóp með Guðna og í minningunni var ég svaka hress á þessum stað þó svo að það sé klárlega ekki alveg rétt minning. En þarna var hausaleikfimi, sá aldrei Tobba og heldur ekki neinn fyrir aftan mig, reyndi bara að einbeita mér að hlaupa þegar ég gat og halda áfram að drekka. Einn km í einu nálgaðist maður hægt og rólega endamarkið. Kláraði báða brúsana fljótlega og var orðinn vatnslaus eftir Bjór- og Slyppugil og ennþá alltof langt í Ljósá, sömuleiðis hnéð farið að valda mér vandræðum. Mjög ánægður að koma að Ljósá og fá tvö kókglös og fylla 500 ml af vatni, tók svo gel einhverstaðar á þessum tímapunkti en man ekki alveg hvar. Gott að komast að Kápunni og þá var ég búinn að missa alla von um að ná Tobba. Rosalega vont að hlaupa niður Kápuna með hnéð ekki í góðu standi. En bara gnísta tönnum og halda áfram. Virkilega gott að komast á Þröngá og fá smá kælingu á hnéð og sjá Friðleif hvetja mann áfram. Sömuleiðs orðið mjög stutt eftir þarna, fékk smá Powerade og einn mars bita og fór svo áfram upp moldarslóðann og gekk alveg sæmilega en auðvitað orðinn mjög þreyttur. Þegar ég var svo loksins kominn upp ásinn og ætlaði að fara rúlla í mark fékk ég rosalega magakrampa sem ég hef ekki lent í áður. Þá bara 2 km í mark og leið hræðilega að hlapua niður brekkuna að drepast í maganum og hnéð að öskra á mig. Var betra að komast á jafnsléttu og þá var ég virkilega farinn að hlakka til að sjá fjölskylduna sem ég vissi af í markinu. Tilfinningin að heyra svo í endamarkinu og áhorfendum er alveg ólýsanleg. Rúllaði bara í nokkuð góðu standi í mark og náði að bæta mig þrátt fyrir frekar erfiða síðustu 16 km. Endaði hlaupið á 4:44:39 sem er bæting um ca. 2 mín. Fór síðasta legginn á 1:29:23 klst sem er ca. 3 mín lélegra en 2013 og 2014. Púlsinn var 142 sem er of lár og vísbending um að það vantaði eitthvað aðeins uppá formið eða að ég hafi farið aðeins of hratt í byrjun. Líklega blanda af hvoru tveggja. 

Endaði í öðru sæti á eftir Tobba vélmenni sem kláraði á 4:32 klst. Magnað eintak af manneskju. En uppskeran var allavega 2. sæti og fyrsta sæti í nýja aldursflokknum mínum 40 - 49 ára. Einnig unnuð við Hlynur, Búi Steinn og Þorleifur liðakeppnina. Mjög sáttur við daginn en hnéð var strax eftir keppni mjög slæmt og sömuleiðis maginn sem datt í lag eftir nokkra stund.

Búnaður:
Skór: Nike Terra Kiger 4
Bolur: Inov-8
Stuttbuxur: 2XU
Sokkar: CEP
Vesti: Camelbak Nano með 2x 500ml brúsum
Næring: GU gel, 1 fyrir hlaup og svo fyrsta eftir 45 mín og svo á 30 mín fresti. Endað á að taka 9 gel og var yfirleitt með einn íþróttadrykk (GU/Powerade) á móti einum vatnsbrúsa. 
Úr: Suunto Spartan Run

Þakka H-verslun fyrir Camelbak vestið og Sport 24 Reykjavík fyrir GU næringu. Sömuleiðis fær fjölskyldan óendanlegar þakkir fyrir að koma að styðja mig á marklínu og sömuleiðis að hjálpa með og þola allar æfingarnar.

2.5.19

Vormaraþon FM 2019 - 1 & 2 sætið

Var mættur hjá Rafstöðinni í Elliðaárdal kl. 7:40 á laugardagsmorgun. Fáir hlauparar mættir og stemningin afslöppuð. Spjallaði aðeins við mannskapinn áður en ég hitaði smá upp og fór svo að gera mig til. Veðurspáin var ágæt, átti að vera smá rok úr austri um morguninn og svo lægja eftir því sem leið á daginn, það var samt nokkuð meira rok nærri höfuðborgarsvæðinu og því var maður með varann á. Það var ekki mikill vindur við startið sem plataði mann nokkuð en hafði skoðað veðurstöð við Reykjavíkurflugvöll sem sagði 3 m/s kl 7 og 7,5°C, sem sagt allt í toppmálum.
Ég ákvað að vera í compression stuttbuxum og háum sokkum, í þunnum langermabol og venjulegum bol yfir langerma. Fékk hælsæri af Adidas maraþon skónum mínum á æfingu fyrir mánuði og hafði því ekkert hlaupi í þeim, ákvað því að vera í Nike Pegasus skóm sem mér finnst mjög góðir. Fékk mér 1 GU gel ca. 10 mín fyrir start og var búinn að drekka ca. 500 ml af GU blönduðum orkudrykk.

Var búinn að taka mikið af gæða æfingum á bretti og þegar nær dróg hlaupi þá fannst mér ég ekki alveg vera í formi til að hlaupa á 3:55 pace-i sem er maraþon tími uppá ca. 2:45. Setti því miðið frekar á ca. 4:00 pace sem gefur maraþon tíma undir 2:50. Ætlaði samt ekki að festa mig á neinum hraða heldur frekar vinna eftir púls og tilfinningu svipað og ég gerði 2016. Þessi hlaupaleið er nokkuð berskjölduð fyrir vindi og oft mjög mikill vindur í kringum flugvöllinn og því erfitt að hlaupa á jöfnum hraða. Sigurjón Ernir var með svipaðar pælingar með tíma og ákváðum við að rúlla saman af stað og sjá hvernig þetta myndi þróast.

Við startið (mynd Félag maraþonhlaupara)
0 km - 5 km (Rafstöð-HR)
Um 35 hlaupara voru mættir á startlínuna. Búið var að breyta byrjuninni á hlaupinu aðeins, startið og endamarkið var komið hjá nýju brúnni sunnan við Rafstöðvarhúsið. Fín breyting, maður byrjar 200m frá markinu þannig að km merkingar virka réttar. Við förum svo af stað kl. 8:00, ég og Sigurjón tókum strax forustu, Birgir Már ætlaði undir 3 klst ásamt nokkrum öðrum sprækum hlaupurum sem komu í kjölfarið. Fyrstu km voru frekar auðveldir í meðvindi og ég og Sigurjón vorum smá á spjallinu og fannst mér eðlilegt að hlaupa aðeins hraðar í meðvindi til að eiga fyrir hægari km á bakaleiðinni í mótvindi. Tilfinningin var líka góð og púlsinn í góðum málum. Vissi að ég væri í lagi ef ég myndi halda mér í kringum 150 - 155 í púls. Fengum mér 1 vatnglas við drykkjarstöðina við HR.
km -  tími  - púls
1 km - 3:51 - 152
2 km - 3:56 - 155
3 km - 3:51 - 154
4 km - 3:53 - 153
5 km - 3:56 - 155
Fórum í gegnum 5 km 19:27 (3:53 min/km)

5 km - 10 km (HR-Ægissíða)
Héldum áfram og allt frekar þægilegt, smá spjall og tilfinning áfram mjög góð. Oft furðulega mikill munur á að hlaupa á ca. 150 púls á æfingum og í keppnum. Eitthvað sem maður telur vera erfið æfing á 150 í púls finnst manni þægilegt í keppni þegar maður hefur náð að hvíla smá og í keppnis umhverfi. Maður fann þegar við vorum að kára 7 km og við tókum smá lúppu við Nauthólsvík að það væri nú meiri vindur en við höfðum gert okkur grein fyrir, tilfinning var að það væri logn úti en líklega var það útaf því að við vorum í meðvindi. Héldum svo áfram út fyrir flugvöll og áfram út að Ægissíðu.
km -  tími  - púls
6 km - 4:00 - 153
7 km - 3:56 - 153
8 km - 3:54 - 150
9 km - 3:58 - 150
10 km - 3:58 - 150
Fórum í gegnum 10 km á 39:23 eða 5 km á 19:46 (3:57 min/km)

10 km - 15 km (Ægissíða-snú-Nauthólsvegur)
Fékk mér 1 GU gel fyrir snúningspunktinn og sömuleiðis 1 vatnsglas að drekka. Snérum svo við þegar við vorum komnir á enda Ægissíðu eftir ca. 10,7 km og þá fann maður að mótvindurinn var heldur meiri en maður vildi en héldum ágætlega hraða þrátt fyrir það. Þegar við vorum að nálgast flugvöllinn þá fórum við að skiptast á að leiða í gegnum vindinn sem hjálpaði talsvert en hraðinn datt niður í mesta mótvindinum við flugbrautarendann og var því gott að beygja frá Nauthólsvík í átt að Loftleiðum til að fá frí frá mótvindi.
km -  tími  - púls
11 km - 4:02 - 150
12 km - 3:57 - 154
13 km - 4:02 - 152
14 km - 4:09 - 147
15 km - 4:02 - 152
Fórum í gegnum 15 km á 59:40 eða 5 km á 20:12 (4:02 min/km), hraðinn búinn að detta niður í mótindinum eins og við var búist eins og pace í 13, 14 og 15 km sýna. Vindurinn var 6 m/s og fór upp í 11 m/s í hviðum.

15 km - 20 km (Nauthólsvegur-Fossvogsskóli)
Héldum áfram að rúlla vel og náðum hraðanum aftur upp framhjá HR og að Fossvogi. Fékk mér vatn og powerade á drykkjarstöðinni við HR. Duttum aftur í mótvind þegar við komum framhjá kirkjugarðinum og sömuleiðis var leiðinlega mikill vindur í Fossvogi, en við vorum ekkert að streða of mikið í mótvindinum og rúlluðum þetta bara vel þó svo maður missti aðeins hraðann niður.
km -  tími  - púls
16 km - 4:00 - 153
17 km - 3:57 - 152
18 km - 3:59 - 153
19 km - 4:01 - 153
20 km - 4:03 - 153

20 km - 25 km (Fossvogsskóli-snú-Kirkjugarður)
Hraðinn aukinn að snúningspunk, fékk mér 1 gel fyrir snúningspunkt og smá vatn og powerade. Hraðinn datt þá aðeins niður bæði við snúning og einnig er smá uppímóti upp í Fossvoginn. En þá tóku við mjög fínir 3km að Kirkjugarðinum með meðvind í bakið og rúllað auðveldlega með púls í fínu standi.
km -  tími  - púls
21 km - 3:54 - 152
22 km - 4:04 - 152
23 km - 3:54 - 152
24 km - 3:52 - 151
25 km - 3:53 - 150
Fórum í gegnum 25 km á 1:39:27 eða 5 km á 19:37 ( 3:55 min/km). Gekk mjög vel á þessum hluta.

25 km - 30 km (Kirkjugarður-Skerjafjörður)
Áfram héldum við góðum hraða og sömuleiðis var púlsinn mjög rólegur og því "leyfilegt" að fara aðeins hraðar. Vatn og powerade við HR þó svo maður drekki mikið úr þessum glösum þá telur þetta að fá smá vökva í sig, hægði svo aðeins á mér þar sem Sigurjón fékk sér smá meira að drekka á drykkjarstöðvunum. Þegar við komum aftur að Nauthólsvík þá fann maður að vindurinn var frekar að bæta í frekar en að lægja eins og veðurspáin gaf til kynna fyrst.
km -  tími  - púls
26 km - 3:59 - 151
27 km - 3:55 - 151
28 km - 3:57 - 150
29 km - 3:52 - 149
30 km - 3:56 - 149
Fórum í gegnum 30 km á 1:59:11 eða 5 km á 19:39 (3:55 min/km) síðustu km mjög jafnir.

30 km -35 km ( Skerjafjörður-snú-Nauthólsvík)
Tók annað gel rétt fyrir snúningspunkt, snérum við í ca. 31,7 km og þá fengum við vindinn beint á móti okkur og það tók strax meira á en við héldum samt hraða sæmilega. Voru því rúmlega 3 km af mótvindi, mesti vindurinn var svo við dælustöðina og flugbrautarendann að Nauthólsvík. Strax við snúningspunkt fórum við að mæta öðrum maraþon hlaupurum, þá sá maður að Birgir Már var kominn í 3 sætið og svo Freyr í 4 sætinu. Alltaf gaman að mæta öðrum hlaupurum í keppninni og hvetja og fá hvatningu. Þessa þrjá km tóku við svo aftur samvinnu með að brjóta vindinn.
km -  tími  - púls

31 km - 3:54 - 150
32 km - 4:02 - 149
33 km - 4:01 - 151
34 km - 4:05 - 153
35 km - 4:02 - 151
Fórum í gegnum 35 km á 2:19:20 eða 5 km á 20:04 (4:00 min/km)

Stuttu eftir snúning í ca. 32 km (mynd Geir Ómarsson)

35 km - 40 km (Nauthólsvík-Fossvogur)
Gott að fá frí frá vindum og klára 35-36 km og enginn veggur ennþá, allt mjög jákvætt og þarna datt maður í gærinn og fór að rúlla vel þegar við fórum að mæta öllum í hálfu maraþon-i, mikil hvatning frá öllum sem við vorum að mæta frá Nauthólsvík að HR og að Kirkjugarðinum, þá tók aftur við mótvindur 39 km og 40 km. Tók líka 1 gel fyrir síðustu drykkjarstöðina við HR og fékk mér svo vatn og powerade. Mjög jákvætt að vera bara smá stífur en orkan var mjög góð og því engar áhyggjur að rúlla í mark þegar maður var kominn þetta langt.
km -  tími  - púls
36 km - 4:01 - 152
37 km - 3:56 - 152
38 km - 3:56 - 152
39 km - 4:04 - 151
40 km - 4:01 - 153
Kláruðum 40 km á 2:39:23 og þá sá maður að við værum alltaf að fara undir 2:50 eins og markmiðið var, þó svo að ef eitthvað smávægilegt kæmi uppá. Kláruðum þarna 5 km á 19:58 (3:59 km/klst)

40 km - 42,2 km (Fossvogur-Rafstöð)
Vorum þarna komnir inn í Fossvog og ennþá að rúlla vel, fyrst við vorum þarna ennþá saman þá spyr ég Sigurjón hvort við eigum ekki bara að rúlla saman alla leið. Vorum báðir meira að horfa á þetta sem æfingu frekar en kepnni og erum sömuleiðis að fara keppa saman eftir 6 vikur og því var ekki stemning í því að fara í einhverja dauða keyrslu í lokin. En Þarna var nú meiri mótvindur en maður hefði viljað en líka mjög lítið eftir og því bara gaman að rúlla þarna og hægt að rólega eftir því sem var nær í markið juku við hraðann.
km -  tími  - púls
41 km - 4:01 - 156
42 km - 3:49 - 156
42,2 km - 1:17 - 159
Komum í mark á tímanum 2:48:36 og leiddumst í mark þannig að það færi ekkert á milli mála að við værum saman í 1. og 2. sæti.
Ég og Sigurjón Ernir að koma saman í mark (mynd Simona Vareikaitė)

Sigurjón Ernir og ég í 1. og 2. sæti og svo Birgir Már í 3. sæti (mynd Félag maraþonhlaupara)
Var bara mjög góður eftir að ég kom í mark, þegar maður fór að kólna var maður svo fljótur að fara og skipta um föt. Gaman að vera í marki þegar fólkið fór svo að tínast í mark. Flott hjá Bigga að fara undir 3 klst og vera í 3. sæti. Eftir að hafa komð smá næringu í kroppinn var svo brunað heim og svo á hendboltamót á Selfossi með miðjuna mína.

Búnaður:
Skór: Nike Pegasus 34
Sokkar: CW-X compression sokkar
Buxur: CW-X compression buxur
Peysa: CW-X léttur hlaupa langerma bolur
Bolur: Inov-8 hlaupa bolur

Næring:
5 GU energy gel. 1 fyrir hlaup og svo 4 í hlaupinu.
Drakk á hverri vatnsstöð vatn og orku þar sem það var í boði.

Þakkir:
Félagar maraþonhlaupara fá bestu þakkir fyrir að halda úti þessari hlaupa seríu, frábært að það sé í boði að hlaupa alvöru maraþon bæði að vori og að hausti á Íslandi. Þá var einnig brautarvarsla og merkingar alveg til fyrirmyndar fannst mér og sömuleiðis góðar drykkjastöðvar, ekki hægt að biðja um meir.
Sömuleiðis fær fjölskyldan mín ævinlega þakkir fyrir að þola æfingar í tíma og ótíma.

23.4.16

Vormaraþonið FM - 1. sæti á 2:45:40

Vaknaði kl. 5:45 og fékk mér minn hefðbundna morgunmat. Harfragrautur, með chia, döðlum, bláberjum og banana. Vatn og smá GU drykkur.


Var mættur niður við Stokkinn um 30 mín fyrir hlaup. Rok og rigning lýsa aðstæðum þennan morguninn best eins og veðurspáin var búin að gera ráð fyrir, en það er alltaf erfiðara að mæta og staðinn og upplifa veðrið. Ætlaði upphaflega að vera í stuttbuxum og háum sokkum en eftir upphitun (í auka fötum) þá skipti ég úr stuttbuxum í CWX hlaupa buxurnar mínar, þar sem ég var með áhyggjur af kuldanum og þá sérstaklega í mótvindi út á nes.  Var svo í þunnum CWX langermabol og einum bol yfir það og með buff. Tók stutta upphitun en náði aðeins að koma púlsinum af stað og smá liðleika í lappirnar. Eins og oft áður þá fannst manni lítið að þessu veðri þegar maður var komin út og búinn að hita upp.

Brautin er sett upp þannig að hún byrjar við Rafveituhúsið í Elliðaárdal og svo fer maður eins og leið liggur í gegnum Fossvoginn alveg útá Ægissíðu með lúppu frá HR að Loftleiðum og svo veginn tilbaka niður að Nauthól. Úti á Ægissíðu er svo snúningspunktur og þaðan er svo hlaupin sama leið tilbaka. Þessi "hringur" er svo farinn tvisvar í heilu maraþoni og einu sinni í hálfu maraþoni.

Maraþon hlauparar leggja af stað við Rafveituhúsið
Um 20 hlauparar voru mættir á start línuna þennan morguninn. Spáin var búin að gera ráð fyrir um 7-10 m/s úr vestri og rigningu á köflum. Það var því mótvindur Fossvoginn og út á Ægissíðu og svo meðvindur tilbaka. Það er mjög erfitt að hlaupa á jöfnum hraða við þessar aðstæður og því ákvað ég að ekki vera spá of mikið í hraðann heldur að reyna að einbeita mér að því að vera með púslinn í lagi og reyna að láta mér líða vel í brautinni. Búinn að reyna að taka æfingar á einhverjum jöfnum ákveðnum hraða í miklum vindi og er það mjög erfitt.

0 km  - 5 km (Stokkur-HR)
Talið niður og hópurinn lagði svo af stað á slaginu 8. Gekk fínt að rúlla í byrjun út að Víkingsheimilinu en þá fór púlsinn eitthvað af stað, brautin aðeins  upp á við og svo mótvindur og hægði því á mér reyndi svo að rúlla þetta sæmilega áfram. Leið vel og var að passa að halda púlsinum niðri. Tók 1 vatnsglas hjá HR og reyndi að drekka aðeins. 
 1 km split og púls voru:
3:50 - 155
4:04 - 160
3:57 - 158
3:55 - 157
4:00 - 158
Kláraði fyrstu 5 km á 19:46

 5 km - 10 km (HR - Ægissíða)
Hélt áfram að rúlla sæmilega og púlsinn hélst niðri, ef ég fór yfir160 í púsl þá fannst mér ég vera að erfiða of mikið og var því kannski meira að hlaupa eftir tilfinningu. Var sæmilegur mótvindur í skóginum fyrir ofan HR en svo fékk maður meðvind niður í áttina að Nauthólsvík, fínt að breyta aðeins um takt og hlaupa hraðar og fá smá hvíld frá mótvindi. Eftir það voru svo erfiðir rúmir 3 km að snúningspunkti úti á Ægissíðu. Líðan góð þrátt fyrir mótvind og rigningu.
3:57    157
3:49    155
3:51    156
4:01    158
3:59    158
Kláraði næstu 5 km á 19:37 og 10 km á 39:23

10 km - 15 km (Ægissíða - Loftleiðir)
Snúningspunkturinn var svo í tæplega 11 km, tók eitt gel rétt áður en ég kom að snúningspunktinum og greip tvö glas og reyndi að koma niður smá vökva. Eftir þetta kom meðvindur og maður rúllaði vel af stað, þá fór hraðinn úr tæplega 4 mín pace niður í 3:50, fann mig mjög vel á þessum kafla en vildi samt ekki fara of hratt því það var svo mikið eftir af hlaupinu. Þarna byrjaði maður að mæta öðrum maraþon hlaupurum sem var gaman og ekki eins einmannalegt. Ég var með forustu um að giska 500m - 700m á næsta mann. Kom svo mótvindur frá Nauthólsvík að Loftleiðum.
3:58    157
3:48    156
3:50    153
3:53    152
3:57    156
5 km á 19:26 og 15 km á 58:49

15 km - 20 km (Loftleiðir - Víkinsheimilið)
Auðvelt að rúlla þennan kafla allan í meðvindi og púlsinn mjög lár á þessum tíma. Var samt farinn að stífna í kálfum. Var að rúlla á 3:53-3:55 og púls aðeins 151-155 slög. Eftir á hefði maður hugsanlega geta nýtt sér meðvindinn eitthvað betur á þessum kafla en þarna fann ég aðeins fyrir kálfum og sömuleiðis nóg eftir. Reyndi að drekka á vatnsstöðinni við HR.
3:55    155
3:53    151
3:55    154
3:53    154
3:53    153
5 km á 19:29 og 20 km á 1:18:18

20 km - 25 km (Víkinsheimilið - Stokkur - Kirkjugarður)
Fór í gegnum hálft maraþon á tímanum 1:23:00 og leið bara mjög vel. Fékk mér 1 gel áður en ég kom að snúningspunktinum og greip svo tvö glös að drekka og reyndi að koma einhverjum vökva niður. Guðni fylgdi mér svo ca. 1 km að Víkinsheimilinu í sinni upphitun. Hann var allan tímann fyrir aftan mig og ég passaði mig á að láta hann alls ekki taka vind eða hjálpa til á neinn hátt. Var ennþá með góða orku og rúllaði þennan kafla bara mjög vel, gaman að mæta aftur maraþonhlaupurunum í Fossvoginum.
3:48    153
3:56    155
3:56    157
3:54    157
3:55    154
5 km á 19:29 og 25 km á 1:37:47

25 km - 30 km (Kirkjugaður - Skerjafjörður)
Mótvindur áfram og leið vel. Fékk mér vökva við HR. Rúllaði vel frá Loftleiðum og út fyrir endabraut en þá tók mótvindurinn aftur í. Orkan fín og lappirnar góðar þrátt fyrir stífa kálfa.
4:06    156
4:01    154
3:55    152
3:52    153
4:07    155
5 km á 20:01 og 30 km á 1:57:48

30 km - 35 km (Ægissíða - Nauthólsvík)
Fann fyrir þreytu í mótvindinum úti á nesi og tók fljótt gel til að reyna að ná orkunni upp, fannst það nauðsynlegt þrátt fyrir að fá ekki að drekka strax eins og er best. Var samt áfram rólegur og ekkert að streða of mikið í mótvindinum. Gott að snúa svo við og vera á leiðinni tilbaka. Bæði andlega og svo einnig í meðvindi. Fékk mér sömuleiðs að drekka á vatnsstöðinni. Sá að ég var kominn með góða forustu á 2 sætið og þyrfti líklega ekki að hafa áhyggjur að hann myndi ná mér, nema ef eitthvað kæmi uppá. Gaman að mæta aftur öllum maraþon hlaupurunum.
4:06    154
4:04    154
3:50    153
3:51    154
3:52    153
5 km á 19:43 og 35 km  á 2:17:31

35 km - 40 km (Nauthólsvík - Fossvogur)
Búinn með 39 km að koma inn í Fossvoginn
Stutt eftir, um 3 km eftir
 Fékk svo aftur mótvind frá Nauthólsvík að Loftleiðum en þarna var minna eftir og maður þorði meira að reyna að sig, var farið að styttast í þetta og gekk bara mjög vel á þessum kafla. Mætti svo fyrstu hálfmaraþon hlaupurunum fljótlega og restinni sem var mjög gaman. Datt svo aðeins niður hraðinn og orkustigið frá Kirkjugarðinum inn í Fossvoginn  en náði svo aftur að koma mér af stað því það var stutt eftir.
3:55    158
3:53    157
3:55    154
3:59    153
3:52    156
5 km á 19:34 og 40 km á 2:37:05

40 km - 42,2 km (Fossvogur - Stokkur)
Mjög stutt eftir, meðvindur og aðeins niður á við og því gekk þessi kafli mjög vel en auðvitað var maðurinn farinn að erfiða aðeins. Lappirnar voru ótrúlega góðar og fannst ég ráða vel við hraðann. Skipti þarna í fyrsta skipti yfir á heildar tímann og sá að ég gæti fræðilega bætt PB mitt frá því í Berlín í haust. Áttaði mig ekki alveg á hvað langt væri eftir en að það yrði líklega erfitt. Gaf samt vel í en áttaði mig svo á því þegar ég kom inn í Elliðaárdal að þetta væri líklega ekki að nást (þeas að bæta PB tímann minn). Var samt ótrúlega ánægður á hvaða tíma ég væri að klára á miðað við að væntingar fyrir hlaup voru ekki miklar. Gaman sömuleiðis að vita að Anna væri í markinu með strákana. Óttar og Kári komu svo hlaupandi með mér í lokin og var það mjög gaman. Kom svo í mark á tímanum 2:45:40 og í fyrsta sæti.
3:53    157
3:35    159
1:07    163
2,2 km á 8:36 og 42,2 km á 2:45:40

Nýkominn í mark
 Var ótrúlega góður eftir að ég kom í mark. Tók því rólega og reyndi að koma einhverri næringu í mig. Svo var maður lengi að spjalla við aðra hlaupara og bíða eftir verðlaunaafhendingu.  Ólafur Austmann Þorbjörnsson lenti í öðru sæti og náði undir 3 klst og svo var Daníel Reynisson í 3 sæti og náði sínu besta maraþoni.

Ólafur Austmann Þorbjörnsson í 2 sætði, Örvar Steingrímsson í 1 sæti og Daníel Reynisson í 3 sæti.
Búnaður:
Skór: Adidas Adios Boost 2
Sokkar: CW-X compression sokkar
Buxur: CW-X compression buxur
Peysa: CW-X léttur hlaupa langerma bolur
Bolur: Nike hlaupa bolur

Næring:
5 GU energy gel. 1 fyrir hlaup og svo 4 í hlaupinu.
Drakk á hverri vatnsstöð vatn og orku þar sem það var í boði.

Þakkir:
Félag maraþonhlaupara fær frábærar þakkir fyrir vel útfært hlaup og sömuleiðis allir sjálfboðaliðarnir sem hjálpuðu til. Ekkert smá gott að geta boðið uppá Vor- og haustmaraþon til að þurfa ekki að fara alltaf til útlanda til að hlaupa á þessum árstíma.
Anna og fjölskyldan fær sömuleiðis þakki fyrir að leyfa mér að stunda þetta sport eins mikið og ég get. Óendanlega þakklátur fyrir það.
 T-mark fyrir stuðninginn við næringu og búnað. Var að drekka salt og steinefna blöndu dagana fyrir hlaup til að halda næringu og vökva málum í lagi. Hef verið að nota GU energy gel sem eru bæði bragðgóð og fara mjög vel í magann. CW-X fatnaðurinn sem styðja mjög vel við alla vöðvahópa og veita góðan stuðning í svona þrekraun.

Strava:

16.4.16

Hamarshlaup #1 - 2. sæti

Ég og Guðni eftir hlaup
Ég og Guðni fórum saman til Hveragerðis að keppa í fyrsta Hamarshlaupi ársins. 19 km utanvegahlaup með hækkun upp alla Kambana.
Fékk einhverja kvef drullu í mig í lok vikunnar og var að spá í gærkvöldi og nótt hvort ég ætti ekki bara að hætta við þetta hlaup. Ákvað samt að prufa og sjá hvernig myndi ganga. Hefðbundinn hafragrauts morgunmatur og tók svo GU drykkjarblöndu með mér í bílinn til að fá mér á leiðinni.

Tókum 3 km í upphitun og fannst mér öndunin eitthvað aðeins off en annars kvefið mest fyrir ofan háls sem er sæmilega jákvætt. Fékk mér eitt gel um 10 mín. fyrir start.Rigning og rok voru aðstæður dagsins en um ca. 50 manns voru mætt til að taka þátt. Guðni fór fyrstu af stað og ég svona rétt á eftir, hann jók svo bilið hægt og rólega. Fyrsti hlutinn var erfiðari en ég hélt með rúllandi hæðum áður en maður kom að snúningspunktinum rétt hjá Sogni. Sló aðeins af eftir það og gekk betur með öndun eftir það. Fékk mér eitt gel áður en ég kom að byrjunarpunktinn sem var sömuleiðis vatnsstöð.

Rúllaði svo sæmilega að Kömbunum en var smá að spara mig fyrir klifur upp ca. 250m. Nokkuð erfiður halli, of "sléttur" til að labba en alveg krefjandi að hlaupa allan tímann þarna upp, gekk samt vel að halda takt og púlsinum nokkuð jöfnum þarna upp. Eftir mestu hækkunina kom smá sléttur kafli eða með minni upphækkun og svo smá rúllandi hæðir í lokin áður en maður snéri við. Fínt að hafa Guðna í augnsýn upp Kambana til að fá stærðar hlutföllin á brekkunni rétt og eitthvað til að keppa við annað en tímann. Rúllaði svo hratt niður og reyndi að passa að misstíga mig ekki og stíga illa á grjót. Gaman að fara mæta öllum hlaupurunum sem voru á uppleið. Gekk vel að halda hraða niður Kambana en svo skrítið að þurfa að byrja að hlaupa aftur sléttan kaflann þegar maður var kominn niður. Tók svo annað gel fyrir síðustu 2 km til að geta haft orkustigið hátt allan tímann. Rúllaði vel í lokin meðfram ánni og kom svo í mark á 2 maður á tímanum 1:18:50 mín eða um 2:30 á eftir Guðna.
Létt niðurskokk og svo brunað heim.
Flott keppni hjá Hamarsfólkinu og vil ég þakka þeim fyrir mjög flott og skemmtilegt hlaup. Kjörið hlaup fyrir þá sem ætla eitthvað af stærri utanvega hlaupum sumarsins.



11.2.16

Powerade #5 - 4. sæti

Mynd af undir 40 mín hópnum. Frá vinstri. Hilmar, Sindri, xx, Biggi, Benoit, Örvar, Þórólfur og Ívar
(mynd. Powerade Vetrarhlaup)
Vikan búin að ganga vel og sömuleiðis æfingar undanfarið. Tók interval á mánudag og rólegt bæði á þriðjudag og miðvikudag. Ætlaði því að mæta sæmilega sprækur til leiks í Powerade. Ekki búinn að vera nægilega ánægður með framistöðuna í síðustu 2-3 Powerade hlaupum og langaði að gera betur núna. Var reyndar eitthvað stífur í ökklanum á miðvikudaginn og fann aðeins áfram fyrir því. Líklega létt tognun í frostinu.
Var sæmilega sprækur í upphitun og rúllaði vel og fannst ökklinn strax betri eftir 1-2 km. Frost og stilla úti og aðstæður sæmilegar. Frostinn snjór og klaki á stígum en aðeins laus sumstaðar.

Kári, Þórólfur, Valur fóru fyrstir af stað og Benoit þar rétt fyrir aftan. Ég kom svo en enginn virtist hafa elt mig og ég því einn frá byrjun. Passaði mig á því að fara ekkert of hratt af stað og var því ekkert að reyna að hanga í fremsta hóp, var alltaf með sjónir á Benoit en varð aldrei var við neinn fyrir aftan mig. Tók því rólega upp Brekkuna upp í Bakka og reyndi svo að gefa aðeins í eftir það. Loksins fannst mér ég vera að rúlla vel og ekki sprunginn eftir 3-5 km. Benoit var svona 2 ljósastaurum á undan mér og eftir því sem við komum neðar í Elliðarárdalinn því meiri nálgaðist ég hann. Átti von á því að Sindri yrði nálægt mér en heyrði aldrei í honum en hann var um 1 mín fyrir aftan mig. Þegar við vorum búnir með stokkinn og um 2,5 km eftir var ég ennþá nærri Benoit. Hélt svo áfram að reyna að minnka bilið eitthvað en gekk hægt. Fórum í gegnum undirgöngin og með um 1 km eftir var þetta komið niður í einhverja 20-30m, tók þá þetta í nokkrum áhlaupum og náði að minnka bilið. Gaf mér styrk að hafa loksins einhvern til að keppa við síðustu km í hlaupinu. Þegar um 300-400m voru eftir tók ég svo góðan sprett og náði að fara framúr og skilja Benoit eftir. Hljóp svo þétt í mark án þess að Benoit reyndi að elta. Kom í mark á 37:27 sem er meira en mínútu hraðar en í síðasta mánuði. 4 sætið og ég mjög sáttur við hlaupið. Benoit hafði svo verið að drepast úr hlaupasting sem var að valda honum óþægindum.
Tókum svo nokkrir saman niðurskokk.

Samanburður á milli jan og feb

29.1.16

Atlantsolíuhlaup FH #1 - 3. sæti

Fyrsta hlaupið í hlauparöð Atlantsolíu og FH. Í fyrsta skipti síðan 2011 sem ég mæti í þetta hlaup. Langar að vera duglegri að mæta í þessi styttri hlaup og þetta var liður í því.

Það var frekar kalt úti, um -4°C en lítill vindur. Skokkaði aðeins brautina í upphitun og sá að nagla skórnir myndu líklega ekki duga og fór því í LaSportiva Helios utanvega skónum mínum. Léttir og þægilegir með gott grip í snjónum. Snjórinn var þétt pakkaður en nokkuð laus til hliðanna og á nokkrum köflum.
Sæmilega þétt samkeppni í þessu hlaupi og vissi að það yrði barátta að komast í topp 3. Þórólfur var fljótur að taka forustuna og var fljótur að stinga af. Á eftir honum komu 4-5 keppendur. Ég, Ingvar Hjartar, Sindri, Bjarni Ármann (ungur frjálsíþrótta strákur) og líklega Ívar Trausti. Ég var í öðru sæti ca. fyrstu 1,5 km en þá kom Ingvar framúr mér og hinir tveir skammt á eftir. Þegar við beygðum frá standlengjunni og upp í átt að Hrafnistu þá kom sæmileg brekka sem var nú aðeins brattari og lengri en ég hélt. Ég náði þó að hanga í Ingvari og svo kom mjög erfiður kafli á götunni áður en var snúið við. Laus saltaður snjór og erfitt að gefa einhvern kraft í skrefin. Þórólfur var kominn einhverja 200m fyrir framan okkur við snúningspunkt en ég alveg aftan í Ingvari og 1-2 skammt á eftir mér. Þetta var nokkuð þétta upp í 3km en þá náði Ingvar ca. 10m á mig og ég sömuleiðis hætti að heyra í þeim fyrir aftan mig.
Síðustu 2 km voru erfiðir og ég vissi að ég mætti ekkert gefa eftir því þá væri menn fljótir að ná manni, Ingvar hélt sömuleiðis aðeins að breikka bilið. Röðin á mönnum hélst nokkurnveginn svona þangað til í lokin. Hefði verið gaman að komast nær Ingvari í endasprettinum en ég var orðinn vel þreyttur í snjónum. Kom 3 í mark á 18:17 mín um 10 sek á eftir Ingvari, Þórólfur vann á 17:04, mjög öflugt hlaup hjá honum. Frjálsíþrótta strákurinn kom í 4 og Sindri í 5 sæti. Hélt að þetta væri Sindri allan tímann fyrir aftan mig en svo var víst ekki.
Ég, Þórólfur og Ingvar í verðlauna afhendingu. (Mynd: Þórólfur)
Skemmtilegt hlaup og alltaf gaman að vera úti í kuldanum að keppa og reyna á sig. Frábært að sjá hvað margir voru mættir. Gaman að komast á pall og mjög sáttur við 3 sætið.

14.1.16

Powerade #4 - 7. sæti

Powerade hlaup #4 í vetur og það þriðja sem ég mæti í. Var ekki nægilega sáttur með hvernig gekk í desember en er búinn að æfa vel síðan þá. Vildi ekki vera að hvíla mig neitt of mikið fyrir þetta hlaup og tók því góða æfingu í gær og endaði svo óvænt á skíðum í 2 klst í gærkvöldi. Kannski ekki besti undirbúningur í heimi en fínt að nota þetta sem góða æfingu í staðinn.

Alveg rosalega kalt úti en nánast logn, þegar ég var að keyra niðureftir stóð -12°C á bílnum og ég gæti alveg trúað að það var nærri lagi. Tók upphitun sem gerði lítið að hita mann upp, aðstæður sæmilegar miðað við janúar hlaup, stígar með smá snjó á en sæmilegt grip.
Kári Steinn, Guðni, Valur og Þórólfur fóru af stað í fyrsta hóp en í þeim næsta voru Benoit, Sindri og ég. Eftir 2km lét ég Benoit fara enda hann búinn að vera að vinna mig undanfarið ég og Sindri hlupum saman upp í Fellin en hann var talsvert ferskari og fór á undan mér, síðan fjarlægðust þeir tvær hægt og rólega en sá lengst af í Sindra. Fannst kuldinn hafa talsverð áhrif og svo fann ég fyrir þreytu í löppunum frekar fljótlega, eftir Indjánagils brekkuna fór ég aðeins að finna fyrir í kálfanum og hægði þá aðeins á mér. Vegurinn hjá Rafstöðinni var hræðilegur og ekkert grip þar, Rafstöðvarbrekkan var þó sæmileg. Þreyttur í lærunum eftir hana og rúllaði í mark sæmilega þétt, enginn til að ná og enginn að fara ná mér og var því nokkuð rólegur.

Hefði viljað komast hraðar en kannski ekki við öðru að búast þegar maður hvílir ekki markvisst fyrir keppni, en góð æfing og ekkert að stressa mig á tímanum. Nú er bara halda áfram að hafa smá stöðuleika í æfingum og þá kemur þetta allt saman á endanum.

Endaði á 38:30 og í 7. sæti. Kári Steinn í fyrsta, Guðni í öðru, Þórólfur í þriðja, Valur í fjórða, Benoit í fimmta og Sindri í sjötta. Ívar Trausta kom svo á eftir mér í mark.
Alltaf gaman að taka þátt og hitta hlaupafélaga. Þarf að vera duglegri að keppa oftar í ár.


31.12.15

Gamlárshlaup ÍR - 6. sæti

 Skráði mig á síðustu stundu og mætti um kl. 11:20 niður í Hörpu að ná í gögnin. Tók létta upphitun og var ekki alveg að finna mig, kalt og smá vindur. Ákvað að vera í negldum skóm þrátt fyrir að flestar götur væru auðar, aðalega smá slabb á Sæbrautinni.
Hitti Michael Wardian í startinu og fannst það mjög gaman. Mjög frægur ultra hlaupari sem keppir alveg fáranlega oft.
Var í frekar stórum hóp í startinu á eftir fyrstu 3 (Guðni, Wardian og Daníel sem vann hlaupið). Rúllaði með Benoit og Þórólfi og svo slatta af öðrum hlaupurum. Eftir um 4 km fór Benoit að slíta sig frá hópnum, þegar við beygðum niður í Vatnagarða þá tók Þórólfur á rás á eftir Benoit og var fljótur að nálgast hann. Slitnaði þá fljótt á milli manna fyrir aftan mig en það náði einn að hanga í mér og gerði það alveg næstu 3-4km upp í 8km þegar ég gaf aðeins í og náði að stinga hann af (það reyndist vera Pétur, sem vann rvk maraþonið fyrir einhverjum árum). En náði að halda sæmilega haus og keyra vel síðustu 2-3km og var virkilega ánægður með það. Sæmilega vel útfært hlaup og náði að halda orkustiginu nokkuð jöfnu allan tímann.
Endaði á 36:13 sem er líklega mitt 3 besta 10 km hlaup og í 6. sæti. Sáttur við það miðað við að hafa misst aðeins dampinn í meiðslum í haust.
Frábær endir á alveg frábæru hlaupa ári

Úrslitin eru hérna: Hlaup.is
 

10.12.15

Powerade #3 í 7. sæti - Kaldur raunveruleiki í kuldanum

Sindri, Sigurjón, Guðni, Benoit og Örvar (Ljósmynd Powerade Vetrarhlaup)
Þriðja Powerade hlaup vetrarins var á dagskrá í kvöld. Frábært veður, kalt og mikil kyrrð. Aðstæður sæmilegar miðað við desember, klaki og smá snjór. Komst ekki í seinasta hlaup þar sem ég var í veseni með kálfann á mér. En gott að mæta og taka smá stöðutékk. Hef ekki náð nægilega góðum æfingakafla eftir Berlin því ég meiddist akkúrat þegar ég ætlaði að fara keyra upp magnið.

Tók létta upphitun og hitnaði nú ekki mikið við það. Fjöldinn allur mættur og góð stemning í þessu aðventu hlaupi. Kári, Guðni og Valur fóru fyrstir af stað í næstu grúbbu voru svo Ég, Benoit, Sigurjón, Sindri og Ívar. Vorum allir saman að brúnni og þá slitnaði aðeins í sundur og ég og Benoit vorum saman næsta 1-2 km en þó fór ég að gefa eftir og Sigurjón og Sindri náðu mér og rúlluðu hægt og rólega fram úr mér. Missti aðeins hausinn og gaf því aðeins eftir. Var sannfærður að nú gæti ég bara tekið því "rólega" og var ekki að nenna þessu. Eftir 6-7 km fer ég svo að heyra í einhverjum öðrum nálgast mig (sem var Ívar) og þá reyndi ég aðeins að sparka í rassinn á mér og gaf aðeins í, vildi ekki fá fleiri framúr mér. Rúllaði þetta svo nokkuð jafnt þaðan og í mark. Kom í mark á 38:11 sem er allt í lagi en finnst leiðinlegt að hafa ekki náð að halda forminu síðan í haust.
Púlsinn var sæmilegur allan tímann en fannst þetta frekar vera tengt hvað ég hef hlaupið lítið undanfarið og því einhverskonar vöðva þreyta frekar.

En gott að vera mættur aftur og vonandi nær maður sæmilega góðu æfingartímabili á næstu mánuðum.

Strava gögn:

8.10.15

Powerade vetrarhlaup #1

Fyrsta Powerade hlaup vetrarins var í kvöld. Frábært veður, hiti um 1-3°C og nánast logn. Tók létta upphitun í myrkrinu og mætti svo á startlínuna. Svo virðist sem að nánast allir bestu hlauparar landsins voru mættir í kvöld í að ég myndi halda eitt mest "competitive" hlaup ársins í 10km. Kári Steinn, Sæmi, Guðni, Valur, Bjössi Margeirs, Benoit, Þórólfur, Sigurjón, Reynir og margir fleiri sem eiga tíma undir og í kringum 35 mín.

Fór hratt af stað með fremsta hóp. Kári, Sæmi, Guðni og Valur á undan mér, eftir um 1 km sló ég aðeins af og þegar verið fórum yfir brúna við Breiðholtsbraut þá voru Hugi og Benoit komnir við mig. Hélt þeim fyrir aftan mig upp að Suðurfelli en svo komu þeir framúr mér og náði ekki að halda í við þá. Þeir fóru því hægt og rólega framúr en ég hélt sæmilega dampi. Var nokkuð hár í púls og því lítið að hægt að gera en að halda áfram. Heyrði svo aldrei eða varð var við neinn fyrir aftan mig alla leið niður að stokkinum. Þegar við erum komnir hjá gamla Boot Camp þá sá ég einhverja fyrir aftan mig, sýndist ég sjá Sigurjón og átti sömuleiðis von á að Þórólfur væri ekki langt frá. Reyndi að minnka forskotið á Benoit og Huga upp rafstöðvarbrekkuna en það tóks ekki og bilið hélt alveg þar til í lokin. Kom því í mark á mínum öðrum besta tíma í Poweradehlaupi 36:25.

Er í mínu besta formi og því svekkjandi að ná ekki betri tíma en þetta. En þar sem það er langt síðan að maður tók hraðaæfingar og tæplega 2 vikur frá maraþoni þá er það kannski skiljanlegt. Október verður svo tekinn rólega til að ná góðri hvíld fyrir næsta tímabil. En gaman að taka þátt í Powerade og stefnan tekin á að reyna að mæta í þessi hlaup í vetur.


27.9.15

Berlin marathon - PB 2:44:30

Við Anna flugum út til Berlínar með góðum vinahópi snemma á föstudagsmorgni. Vorum komin upp á hótel rétt fyrir kl. 2 og fórum svo fljótlega af stað út marathon expo-ið sem var í Berliner Luftbrucke (sem er sögufrægur flugvöllur). Allt troðið af fólki og mikið um að vera. Fórum og náðum í númerin okkar og náðum bæði að láta færa okkur í rétt hólf, ég í 2:40-2:50 og Anna í 3:50-4:15. Smá léttir en eftirá óþarfi þar sem lítið eftirlit var með hólfunum. Við röltum svo um svæðið aðeins áður en við fórum upp á hótel. Pizza um kvöldið og snemma í háttinn enda þreytt eftir að hafa vaknað um kl. 3 á íslenskum tíma. Á laugardeginum reyndum við að taka því mjög rólega. Kíkt á eitt safn um DDR og svo aðeins skoðað svæðið um kring. Pössuðum okkur að taka því rólega og dugleg að sitja og liggja, enda frábært veður og því kjörið að liggja í grasinu og slappa af. Hópurinn fór svo í pasta hleðslu um kvöldið og sömuleiðis reynt að fara snemma að sofa. Gekk fínt að sofna og svaf nokkuð vel miðað við oft áður.

 
Við vöknuðum svo kl. 6 og fórum niður í morgunmat. Hafragrauturinn klikkaði eitthvað smá og ég fékk mér því rúnstykki með osti og sultu, vatn og smá djús. Fórum aftur upp og gerðum okkur tilbúin, farið í hlaupagallann og líkamspartar smurðir. Um 15-20 mín rölt með hópnum niður í startið og þar var maður aðeins að drekka GU steinefna blöndu og fékk mér einn banana.

Kristinn, Gummi, Anna og Stebbi á leið í startið
Vorum komin inná svæðið um 70 mín fyrir start. Hópurinn tvístraðist svo til að komast á dolluna og setja bakpokana með auka dóti á sinn stað. Kvaddi Önnu ef ég myndi ekki hitta hana aftur fyrir startið. Fór í röðina á dolluna og átti eftir að gera lítið annað en að bíða þar. Fannst mjög miklar klósett raðir miðað við td Boston. Var í röð í ca. 50 mín og þurfti að hafa fyrir því að halda ró minni. Fólk var mis heppið með klósett röð en virðist hafa valið illa. Þegar ég var búinn að fara með pokann minn á sinn stað voru um 20 mín í start. Tók mjög litla upphitun og ákvað svo að koma mér á minn stað í hólfi B. Fannst mjög leiðinlegt að ná ekki að hitta neinn aftur og sérstaklega að geta ekki verið með Önnu. Fór fyrst í vitlaust hólf (síðasta hólfið) og tók svo sinn tíma að komast í rétt hólf (B). Náði að finna hólfið og troða mér yfir girðinguna um 3 mín fyrir start. Náði svo að koma hausinum í réttan gír fyrir startið.

Markmiðið hjá mér var C: Að bæta tímann minn frá mínu öðru maraþoni sem er 2:55:13 (tími frá 2011) - B: Komast undir 2:50 (helst 2:48:48 sem er 4:00 mín/km hraði) og svo A: Að komast undir 2:45, sem var draumamarkmiðið. Var búinn að taka nokkrar maraþon æfingar á 3:55 pace-i (lokatími 2:45:17) og alveg niður í 3:52. Var búinn að því vegna þess að mér finnst oftast vera munur á GPS og raunverulegri mældri vegalengd í keppnum. Finnst þessi munur oft vera um 2-3 sek per km, sem eru um 2 mínútur yfir maraþon vegalengdina. Það var því markmið að fara út á 2:55 en vera með það hugfast að fara yfir á ca. 2:52 ef hlutirnir gengju vel. Annað var að vera í kringum 160 í púls.

 0-5 km


Var vel pakkaður inn í start hóp B þegar skotið reið af og hópurinn lagði af stað.  Ótrúlega gaman að leggja af stað í öllu þessu mannhafi, blöðrurnar yfir manni og fólkið æddi áfram niður Str. des 17. juni. Var um 1 mín að koma mér yfir marklínu og náði að hlaupa strax eftir að maður var kominn yfir línuna en hópurinn var þéttur og mikið af fólki að fara hægar af stað. Grunar að all margir hafi svindlað sér í hærra start hóp.
Fyrstu 5km liðu ansi hratt og var ég að passa mig að fara ekki of hratt af stað en samt að reyna að vera undir 3:55. Úrið var með meðalhraða undir 3:50 en í raun var meðal hraðinn á þessum kafla 3:53 og púlsinn 160 slög. Aðeins of hraður en samt gengu hlutirnir vel fyrir sig. Nokkuð mikið að hreyfa mig sikk sakk til að sviga framhjá fólki og svo hægðist í fyrstu alvöru begjunni eftir um 2,5km. Fór í gegnum 5km á 19:26 eða um 9 sek hraði en ég ætlaði en "close enough".
5 km: 19:26 (00:19:26) - 00:03:53 - 160 

 5-10 km


Áfram hélt maður að reyna að halda hraða og þurfti töluvert að sviga til að gera það. Þegar ég nálgaðist hótelið okkar fór ég hægra megin í brautina til að ná að hitta stuðningshópinn. Ótrúlega fjör að sjá allt fólkið sem var að styðja. Eftir þetta þegar maður beygði inná Torstrasse fór að verða auðveldara að hlaupa beint og á réttum hraða. Flestir vitleysingar sem fóru alltof hratt af stað eða byrjuðu of framarlega frá og fór að verða auðveldara. Var aftur kannski aðeins of hraður skv. gps en á fínum raunhraða. Fór í gegnum 10km á 38:51 mín. Áætlun var uppá 39:10 og ég því um 20 sek á undan áætlun. Fannst mér líða vel og ráða vel við hraðann, rúllaði gekk vel og brautin alveg mar flöt, aldrei neitt streð við mishalla á götunum.
10 km: 38:51 (00:19:25) - 00:03:53 - 160
  
10-15 km


Fór að detta betur og betur inn í hópa sem voru að hlaupa á svipuðum hraða og ég þá hægðist kannski aðeins á manni, var líka með pínu áhyggjur að ég var oft yfir 160 í púls. Sló því aðeins af vitandi að maraþon er mjög löng vegalengd og mikið sem getur klikkað ef maður hleypur of hratt í byrjun. Fékk mér mitt fyrsta gel eftir 45 mín og var duglegur að grípa vatn og orkudrykk á vantsstöðum sem voru oft á um 3km fresti. Maður drekkur lítið í einu og hélst maginn því góður allan tímann. Heildartími í gegnum 15km var 58:36 en áætltun 58:45 (ennþá 9 sek inni, þó svo ég hafi ekki vitað millitímann þarna).  Skv gps var meðalhraði um 3:53 en 3:57 í raun. Hægði kannski full mikið á mér á þessum kafla, aftur á móti var púlsinn lægri sem var betra.
15 km: 58:36 (00:19:45) - 00:03:57 - 158

 15-20  km


Hélt áfram svipuðum hraða og púlsinn ennþá í góðum málum undir 160 slögum. Þarna fór brautin svo úr stórstrætum yfir í venjulegar úthverfa húsagötur. Ennþá var stuðnignurinn frábær og göturnar þétt settnar af fólki sem var að styðja. Fann aðeins meira fyrir hlutunum þarna og fann að hraðinn var eitthvað að minnka hjá manni. í kringum 18 km fannst ég allt í einu heyra nafnið mitt, lít aftur og sé Söru og Sólveigu á harða sprett á eftir mér. Fékk fréttir af Önnu sem var rosalega gott og hjálpaði mér mikið. Vitandi að hún hafi komist í gegnum kraðakið í byrjun hlaups og væri á góðu rúlli.
Þarna var kominn mikill munur á gps og brautinni og munaði strax einhverjum 400-500 m  sem mér fannst fullmikið. Fór í gegnum 20 km á 1:18:21 og sá að ég var alveg á áætlun og það gaf manni sjálfstraust þrátt fyrir að gps-ið væri ónákvæmt. Ennþá var púlsinn í góðum málum. Tók svo annað gel eftir 1:15 klst eða um 30 mín frá síðasta geli.
20 km: 1:18:21 (00:19:45) - 00:03:57 - 157

20-25 km

Gott rúll í ágætum hóp, var farinn að elta einn þjóðverja sem var greinilega heimamaður og mikið að gefa fimmur og virkaði mjög sprækur. Fór í gegnum hálf maraþon á 1:22:40 sem er alveg spot on á áætlun og var ánægður með það.  Fannst ég eiga fullt inni og orkan og lappir ennþá í lagi. Enná í úthverfum og skemmtileg stemning í brautinni. Það var svo í kringum 25 km sem ég allt í einu varð "léttur" í hausnum og fékk léttvægan svima, varð nokkuð hræddur að hlaupið væri að fara misheppnast á þessum tímapunkti. Sló því aðeins af hraðanum og lét þjóðverjann fara. Tók stöðu tékk og fannst einnig lappirnar vera eitthvað þreyttar. Fékk mér að drekka og náði aftur að komast í gírinn. Tók þessa 5 km á 19:38 og fór í gegnum 25 km á 1:37:59 eða um 4 sek á eftir áætlun (var reyndar ekki með 25 km splitt skrifuð og vissi því ekki hvað ég átti að vera á)
25 km: 1:37:59 (00:19:38) - 00:03:56 - 160

25-30 km

Fljótlega eftir þetta hræðslu kast kom svo einn hlaupari sem virtist vera að hlaupa mjög vel. Ég hengdi mig á hann sem átti eftir að reynast vel. Lappirnar voru góðar og ég hætti að fylgjast mikið með hraðanum og fór bara að elta gaurinn fyrir framan mig. Fannst effort-ið vera fínt og ég náði að halda vel í við hann. Þarna fór maður svo að byrja að taka fram úr fólki sem veitti manni sjálfstraust. Kílómetrarnir héldu áfram að tikka og allt gekk vel. Hélt áfram að drekka vatn og orkudrykk þar sem það var í boði og reyndi yfirleitt að fá mér eitthvað á hverri drykkjarstöð. Hitinn var bara góður og hafði ekki mikil áhrif. Fór í gegnum 30 km á 1:57:33 og áætlun var 1:57:30 þarna sá ég að hlaupið var að ganga vel og ég var á góðu rólu sama þótt að gps-ið væri komið aðeins lengra í km. Púlsinn farinn að skríða aðeins upp enda kominn á aðeins meira efford.
30 km: 1:57:33 (00:19:34) - 00:03:55 - 161

30-35 km

Við félagarnir héldum áfram að síga framúr fólki sem gaf manni gott sjálfstraust, ekkert að fylgjast með klukkunni og rúllaði þetta vel. Einn belgi kom svo inn í hópinn og við vorum því þrír sem héldum hópinn. Alltaf gott að km var farið að fækka en samt nóg eftir. Lappirnar voru ennþá góðar og allt gekk vel. Fórum úr úthverfunum yfir í meiri miðbæ. Allt í einu fannst ég mér sjá Reyni félaga minn en hélt að hann væri fyrir aftan mig. Við höfðum ætlað að hlaupa fyrri hlutann saman en höfuðum ekki fundið hvorn annan í startinu. Vorum hægt og rólega að éta fólk upp og sá þegar nær dróg að þetta var Reynir. Fórum svo eiginlega saman í gegnum 35 km hliðið og hann sagði mér að hann hefði ælt í 30km og var farið að slá aðeins af honum. Ég sagði honum að reyna að hanga í þessum hóp því við vorum á góðu rúlli.
Síðustu 5km á 19:22 (hraðasti kaflinn hingað til) og heildar tími 2:16:55, vissi ekki á hvaða tíma ég átti að vera en hefði litlar áhyggjur því við vorum á flottu róli.
35 km: 2:16:55 (00:19:22) - 00:03:52 - 161

35-40 km

Sá fljótt að Reynir var ekki að ná að fylgja okkur og skömmu síðar datt beglinn líka úr hópnum. Vorum á þessum punkti að fara framúr mjög mörgum og vorum aldrei í neinum hóp því við fórum hratt framúr þeim. Tók mitt síðasta gel í um 37 km þrátt fyrir að það var stutt síðan að ég hefði tekið gel. Þarna var maður farin að reyna aðeins meira á sig og hraðinn var sömuleiðis meiri. Lappirnar héldu vel en fór að verða lengra og lengra milli km í haustnum á manni. Frábært að keyra í gegnum 40 km á góðu rólu og ennþá enginn veggur og ekkert að manni. Hafði skrifað eitthvað vitlaust á höndina á mér og vissi því ekki alveg hvað ég átti inni en gat reiknað gróflega að ég væri í séns á sub 2:45. Síðustu 5km á 19:27 og í heildina 2:36:22.
40 km: 2:36:22 (00:19:27) - 00:03:53 - 163

40-42,2 km

Þarna fór maður svo að gefa í og reyna enn meira á sig, frábært að eiga nægilega mikið inni á þessum kafla til að pressa og ekki verra að vera rúlla  framúr fólki. Heyrði aftur stuðningsliðið og í þetta skipti voru það Katrín, Hrafnildur, Silla og Stella. Ruglaðist aðeins og fannst ég sjá Brandenborgarhliðið þegar ég var kominn í 41,6 á gps og fór að gefa hressilega í en sá svo að ég hefði ruglast og sló aðeins af, þó ekki mikið. Mjög gaman að taka síðustu beygjuna og sjá loks Brandenborgarhliðið og markið nálgast óðfluga. Hljóp mjög vel og gaf vel í síðustu metrana. Sá að ég var að komast undir 2:45 klst sem var mitt drauma markmið. Rúllaði svo í gegnum markið á 2:44:30 og var gríðarlega sáttur með mitt hlaup, þakkaði vini mínum sem hefði leitt mig áfram frá kílómetra 25. Tók smá geðkast í markinu og alveg frábær tilfinning að drauma markmiðið var náð.
Reynir om fljótlega í markið og sömuleiðis frábært hlaup hjá honum.
Fór síðustu 2,2km á 8:08 sem gerir meðalhraða uppá 3:42 (rétt yfir besta hálfamaraþon tímanum mínum). Tók seinni helminginn á 1:21:51 sem gerir negatíft splitt uppá 50 sek.
42,2km: 2:44:30 (00:08:08) - 00:03:42 - 166

Official úrslit með tímanum mínum
 
Lokatími skv. flögu var því 2:44:30 sem er meðalhraði uppá 3:53 min/km eða 15,39 km/klst. Ég endaði í 459 sæti í heildina og í 123 sæti í aldursflokki M35.

Ánægð hjón eftir hlaup, Anna að klára sitt fyrsta maraþon
 Eftir hlaup vorum við svo lokaðir inni í markinu útaf einhverjum öryggisástæðum og lostnuðum fljótlega. Frábært að hitta aðra íslendinga og svo komast í símann sinn og geta farið að fylgjast með öðrum hlaupurum í gegnum appið og heyra hvernig Önnu var að ganga. Biðum svo með öllum íslendingunum sen týndust einn af öðrum í mark. Allir skiluðu sér og var ég ótrúlega stoltur og glaður þegar ég hitti Önnu sem var að klára sitt fyrsta maraþon og gerði það með stæl. Frábær dagur með alveg frábæru fólki og mitt drauma hlaup.

Hópurinn eftir hlaup, frá vinstri: Reynir, Kristinn, Stebbi, Örvar, Anna og Gummi
Brautin:
Brautin var frábær í alla staði, smá óskipulegt í byrjun með start hópana en yfirleitt var brautin breið og góð og ekkert vesen að  halda hraða. Get ekki ímyndað mér flatari braut því manni fannst yfirleitt maður vera hlaupa niður brekku fyrir utan einstaka mislæg gatnamót eða árþverun sem vegurinn lyftist eitthvað aðeins.

Búnaður:
Skór: Adidas Adios Boost 2
Sokkar: Þunnir hlaupa sokkar (eitthvað noname merki)
Kálfahlífar: CW-X compression hlífar
Stuttbuxur: CW-X compression buxur
Bolur: Léttur Nike ermalaus bolur (Liðsbúningur Kaldbakur Running)

Næring:
6 GU energy gel. 1 fyrir hlaup og svo 5 í hlaupinu.
Drakk á hverri vatnsstöð vatn og orku þar sem það var í boði.

Þakkir:
 T-mark fyrir stuðninginn. Erum með frábærar vörur, allt frá næringu og drykkjar búnaði upp í mjög góðan compression fatnað. GU energy gelið er frábært og það besta sem ég hef smakkað, óendanlega margar bragðtegundir og mjög gott í maga. CW-X fatnaður sem virkar mjög vel og ég er sannfærður um að compression fatnaður hjálpi til við að minnka vöðva þreytu í svona löngum hlaupum.
Að öðru vil ég þakka fólkinu í kringum mig fyrir að þola þessi endalausu hlaup. Anna og strákarnir fyrst og fremst, frábært að hafa Önnu með í svona undirbúningi og ganga í gegnum þetta saman. Auðvitað fá ömmurnar og afarnir líka miklar þakkir fyrir að vera mjög dugleg að passa strákana svo maður komist út að hlaupa í tíma og ótíma.

Strava info:


Takk fyrir mig
Örvar

27.8.15

Fossvogshlaupið 3 sæti - PB á 35:03

Mynd: Vikingur.is
Sæmilega ferskur þegar ég mætti í Fossvoginn, líklega ennþá smá þreyta eftir hálft á laugardaginn og svo tók ég einnig sæmilega þétta æfingu á þriðjudaginn.
Tók létta upphitun og drillur og var tilbúinn að reyna undir 35 mín, eða í versta falli á ná nýju PB. Gamla PB-ið var alltof gamalt eða frá áramótum 2011/2012 sem var 35:51.

Arnar Péturs, Guðni voru í 10km og svo Valur, Sigurjón og Ívar Trausta í 5km. Fór af stað með þessum hóp og rúlluðum 1 km aðeins of hratt var fyrstu 500m á ca. 3:06 pace-i og fyrsta km á 3:14. Komst samt fljótt á minn hraða sem var nálægt 3:30. Arnar fyrstur, svo Guðni, svo Valur og Sigurjón sem voru að fara í 5km. Ég þar rétt fyrir aftan. Fann fyrir nokkurri þreytu í fyrsta hring og brekkan upp hjá Skógræktarsvæðinu í lokin á fyrsta hring var fjandi erfið. Fór í gegnum 5km á 17:19 sem er nýtt PB í 5km.

Náði að rúlla sæmilega eftir það þangað til snúningspunkturinn í hinum endanum sem var erfiður og fannst "heimleiðin" nokkuð erfið og farið að hægja full mikið á mér. 8 og 9 km voru hægastir hjá mér og í kjölfarið kom aftur síðasta brekkan, erfitt en maður þraukaði og svo var gott rúll niður að Víkingsheimilinu þar sem maður gaf vel í. Var einhvernveginn búinn að ákveða að ég væri ekki að fara undir 35 mín en var öruggur að fara í gegn á nýju PB. Gleymdi einfaldleg að horfa á heildarklukkuna en þegar um 50m voru í markið kallaði Ívar Trausti á mig að ná undir 35 mín, þá tók ég alvöru endasprett en dugði ekki til því ég kom í mark 35:03. Grátlega nærri því að komast undir 35 mín en maður má ekki taka of stór stökk með metin sín.

Bætti mig um 48 sek sem er bara ansi gott. Seinni 5km voru á 17:44 eða um 5 sek hægari hvern km á þeim hring.
3 sæti og nýtt PB og allir sáttir. Þarf að reyna að nota formið og ná undir 35 mín fljótlega.

Frábært hlaup hjá Víkingum, skemmtileg stemning og allt til fyrirmyndar. Góð hvatning í brautinni, vel merkt og nægar veitingar. Fullt hús hjá Fossvogshlaupinu.

Strava info:

31.5.15

IAU World Trail Championship 2015

Hlaupaleiðin í kringum Annecy vatnið
Hérna kemur nokkuð ítarleg samantekt af ferðinni okkar út í IAU World Trail Championship sem er heimsmeistaramót í utanvegahlaupi, haldið í Annecy í Frakklandi. Þetta var bæði liða og einstaklingskeppni og þurfti 3 aðila til að keppa í liðakeppninni. Ég, Guðni Páll Pálsson og Þorbergur Ingi Jónsson kepptum fyrir Íslands hönd. Hlaupaleiðin er 85km löng í fjöllunum í kringum Annecy vatnið og er heildar hækkun 5300m.
Hæðarprófíll fyrir hlaupaleiðina, 85 km og 5300 í hækkun og lækkun
Við flugum til Genf í gegnum London miðvikudaginn 27. maí, svo var um 45 mín keyrsla yfir til Annecy sem er nálægt Svissnesku og Ítölsku landamærunum. Strax þegar við komum á hótelið, sem var með útsýni yfir stærstan hluta brautarinn, sáum við hvurslags fjöll þetta voru sem við vorum að fara hlaupa í. Ótrúlega fallegt umhverfi en sömuleiðis allt annar skali en við erum vanir frá Íslandi, allt miklu stærra og brattara en litla fallega Ísland. Tókum léttan skokk túr aðeins til að kanna nánasta umhverfi hótelsins en svo var það kvöldmatur og fljótlega í háttinn þar sem við ætluðum að reyna að snúa sólhringnum eins mikið okkur í hag eins og við gátum.
Örvar, Guðni, Sævar og Tobbi með Mt. Baron og Roc Lancrenaz í baksýn.
Fimmtudagurinn byrjaði með sól í heiði og um 20°C hita. Eftir morgunmat var Tobbi svo kallaður í blóðprufu, en um 80 hlaupara voru prófaðir í það heila. Fór svo fljótlega að skoða brautina, var á dagskrá að ná að keyra allan hringinn og ná þeim stöðum þar sem vegir krossuðu brautina. Gekk vel til að byrja með en tók lengri tíma en við áætluðum, þurftum því að snúa heim þegar við vorum komnir á 53 km og náðum því ekki að skoða seinustu 30 km í brautinni. Náðum aðeins að hlaupa smá kafla af brautinni en það hjálpaði að sjá hversu tæknilegir stígarnir voru og mikill bratti. Fórum uppá hótel og svo keyrt á setningarathöfn keppninnar. Skrúðganga og setningarathöfnin fólst mest í bið og að standa í skrúðgönguröð fyrir utan sjálfa setningarathöfnina. Enduðum svo með að yfirgefa franskar ræður og stangastökk sýningu og fá okkur eitthvað að borða til að komast sem fyrst í háttinn. Smá labb um kvöldið í gamla bænum í Annecy og pizza á Little Italy var mjög skemmtileg.
Föstudagurinn hófst svo á tæknifundi þar sem kom í ljós nokkrar breytingar á reglum. Gátum sleppt því að vera með síma eins og fyrir fram stóð í reglunum en þurftum að vera með flautu og taka einnig með vindheldan jakka. Seinni parturinn fór því að útvega þessa hluti og klára að raða í töskurnar sem Sævar myndi vera með á drykkjarstöðvunum. Aftur fórum við svo í mat til Annecy til að vera aðeins fyrr á ferðinni en hótelið. Lasagna í gamla bænum var carbo hleðsla dagsins og var kominn nokkur spenna í mannskapinn enda aðeins örfáir tímar í hlaup. Fórum svo í háttinn um kl. 20 og náðum svo að sofa til kl. 23 þegar við heyrðum í þrumuveðri og rigningu (eins og spáin gerði ráð fyrir). Eitthvað dormað til kl. 00:30 en þarna var hausinn kominn á flug og við Guðni fórum því í morgunmat. Kom með minn eigin hafragraut, fékk mér svo te og smá brauð. Klæddum okkur og fórum í startið um kl. 02:30. Það var búið að vera nokkuð stress á manni daga á undan en strax þegar maður kom í startið varð þetta meira spenna og stressið fjaraði út og tilhlökkun tók við. Mjög gaman að hitta á nokkrar hetjur úr USA liðinu á meðan við vorum að bíða eftir að komast á kamrana.
Tobbi, Örvar og Guðni við startið

Annecy - Semnoz 
Ég og Guðni komum okkur fyrir nokkuð aftarlega í hópnum. Startið var mjög flott, hlaupið var í gegnum haf af blysum í myrkrinu. Rúlluðum vel fyrstu 3 km sem voru meðfram vatninu og út úr bænum, tókum strax framúr mörgum og gaman að sjá að allar gerðir af fólki var að taka þátt. Nokkrar eftirlegu kindur voru ennþá í miðbænum og var góður stuðningur í þeim. Pössuðum okkur í brekkunum í byrjun og furðuðum okkur á ákvefðinni í nokkrum keppendum sem voru móðir og másandi í fyrstu brekkunum. Var skemmtilegt að komast svo út á skógarstíginn sem lá í um 15 km brekku upp á Semnoz í 1650m hæð. Voru rúllandi brekkur til að byrja með og nokkuð um að stöðubreytingar eftir halla. Tókum því rólega upp brekkur og misstum þá nokkra á undan okkur, svo fór smá vinna í að taka framúr á sléttu köflunum þar sem við vorum hraði en fólkið í kringum okkur. Nokkuð um tæknilega erfiða kafla en einnig mikið um þægilega og auðvelda. Svipað og í Laugarveginum 2013 voru við félagarnir í skemmtilegum hlaupatúr og mikið um spjall um líðan og upplifun okkar. Gaman að komast uppfyrir trjálínu og sjá að sólin var að koma upp. Ég og Guðni komum svo samferða inná fyrstu drykkjarstöðina. Fylltum á vatn og gel, tók 3 gel á þessum kafla og kláraði báða brúsana mína (2x500ml). Var með vatn í einum og powerade í hinum, fyllti þá báða. Fórum útaf fyrstu stöðinni á 2:09 og í 105 sæti, búnir með 18km af 85km. Vorum strax talstvert á eftir áætlun en höfðum skotið gróft á að vera á fyrstu stöð á 1:50-2:00. Vorum samt alveg slakir yfir þessu enda að passa að fara ekki of geyst af stað enda nóg eftir af hlaupinu. Þetta var klárlega auðveldasti kaflinn í brautinni þrátt fyrir um 1400m hækkun og 200m lækkun.

Semnoz - Doussard
Eftir drykkjarstöðina tók við mjög þægilegt hlaup niður aflíðandi brekku, það var þó aðeins í 1-2 km og eftir það tók við mjög brattur kræklóttur skógar stígur með rótum, drullu og nóg af grjóti sem endaði í smá sveitarþorp í lokin eftir í um 9 km af niðurhlaupi, tæpir 1000m. Fyllti þar á einn vatnsbrúsa. Þarna var strax farið að hitna og maður fann að maður var að svitna mikið. Smá rúll áður en ein brattasta brekkan tók við upp á Col del la Cochetta. Mjög mikil drulla og stundum var auðveldara að vera fyrir utan stíginn. Líðan var góð og allt eins og það átti að vera. Vorum að byrjaðir að taka gal á 30 mín fresti og passa að drekka nóg. Gaman að hitta nokkra úr danska liðinu og spjalla aðeins við þá. Fann mig mjög vel upp brekkurnar og það gekk vel upp þær án þess að maður væri að streða of mikið. Komumst uppá topp á Cochetta hryggnum kl. 7:20 eftir 3:50 klst og í 95 sæti. Við tók svo mjög tæknilegt hlaup niður af hryggnum. Ennþá gekk vel og vorum við að fara nokkuð rólega niður enda tæknilega erfitt. Gaman að hitta vin minn úr USA liðinu Yassine Diboun og gaf það manni smá auka orku, hann kom þó fljótlega aftur framúr okkur og mikilli siglingu. Eftir seinni vatnsstöðina (36,5km) kom nokkuð rúllandi kafli, þó með nokkrum góðum brekkum. Þarna fór allt í einu að draga af Guðna og hægðum við því aðeins ferðina. Kom svo gott bratt niðurhlaup þar sem við gátum rúllað sæmilega og svo 2km rúll á malbiki þangað til að við duttum inná drykkjarstöð nr. 2 í Doussard. Þarna var ég farinn að finna til svengdar enda með garnagaul. Var smá kaos inná stöðinni því Sævar mátti ekki taka neitt af því sem var í boði á drykkjarstöðinni yfir á borðið okkar. Ég þurfti því að hlaupa tilbaka og fylla á Gatorade, grípa mér snakk og pizzusneið og smá banana til að fylla magann. Þarna var líðan góð, fyllti á vatn og gatorade og tók ný gel. Tók á þessum kafla líklega um 5 gel. Fórum svo samferða útaf stöðinni 5:00 klst og í 97 sæti. Í Doussard var maður hálfnaður, 43,5km af 85km. Leggurinn milli drykkjarstöðvana tveggja var 9 km með um 800m í hækkun og lækkun. Svo kom 6 km kafli með 200m hækkun og 400m lækkun.

Doussard - Menthon-St-Bernard
Við vorum búnir að skipuleggja að fara af þessari stöð með stafi enda gríðarlegt klifur á þessum kafla, um 1500m hækkun uppá Roc Lancrenaz á um 14km kafli. Það var um 1km sléttur kafli að Col de la Forclaz brekkunni. Fór hægt af stað í byrjun til að slíta ekki Guðna af mér en það dugði ekki og hann var greinilega kominn í einhvern erfiðleika. Misstum eitthvað af liði framúr okkur í byrjun brekkunar en svo hægt og rólega missti ég sjónir af Guðna og ákvað eftir smá tíma að hlaupa bara mitt eigið hlaup. Ég gæti sömuleiðis lent í vandræðum og þá myndi hann bara ná mér aftur. Klifrið upp Col de la Forclaz (um 700m hækkun) gekk vel og eftir það tók svo við um 1,5km niðurhlaup.
Að hlaupa niður frá Col de la Forclaz  - Mynd: Claude Eyraud
 Þarna var maður kominn út úr skóginum og sólin var að steikja mann. Reyndi að kæla mig með vatni á drykkjarstöðinni og fyllti á alla brúsa og drakk vel. Þarna var vel heitt í næsta klifri og engin tré til að skýla manni. Á þessum kafla fór ég framúr 4-5 manns og fannst ég öflugur í brekkunum, mjög þægilegt að klifra með stafina. Frábært að koma uppá Roc Lancrenaz og klára mjög bratt klifur þar upp umkringdur fjallageitum. Aðstæður sem ég gleymi aldrei og frábær upplifun.
Eftir þetta tók svo við mjög svo erfiður kafli, um 6,5km niðurhlaup þar sem var hlaupið niður grófan slóða með um 1.000m lækkun. Fann fljótt að maginn var fullur af vatni og skoppaði til þegar maður byrjaði að hlaupa niður brekkuna. Þessi brekka ætlaði aldrei að hætta og náði því miður ekki að rúlla þetta eins vel og ég vildi. Hitinn fór fljótlega að hafa áhrif eftir því sem maður lækkaði sig í hæð og maginn farin að vera til vandræða. Þurfti að pína mig í að taka gel. Var orðinn alveg vatnslaus á kafla en kom að læk þar sem ég gat kælt mig og fyllt vatnið. Stuttu seinna kom svo vatnsstöðin. Næsti kafli hélt ég sömuleiðis að yrði auðveldari. Vorum sannfærðir að þetta væri rúllandi hæðir sem maður gæti hlaupið. Brekkurnar voru brattar upp og var mikið um sikk sakk, upp og niður. Var frekar erfitt andlega að hlaupa niður í St-Bernard vitandi að maður þyrfti að fara strax upp aftur úr þorpinu. En gríðarlega ánægður að komast á drykkjarstöðina og heyra í Sævari kalla og hvetja mann áfram. Fékk mér Coke sem bjargaði algjörlega deginum og helstu mistökin mín voru að fara ekki af stað með coke og meira vatn. Maginn orðinn frekar erfiður þarna og hitinn var alveg að fara með mig. Kældi mig vel fyrir utan drykkjarstöðina, fyllti á allt og rúllaði af stað. Þarna var maður búinn með 70 km af 85 km og tíminn var 8:37 og ég var í 99 sæti.

Menthon-St-Bernard - Annecy
Fyrsta brekkar upp að kastalanum gekk vel og sömuleiðis rúllið að fjallinu, hitinn hafði áhrif en ég var ennþá að virka. Hitti þarna einn gamlingja frá Suður Afríku, einn Portúgala og hvort að það var ekki líka einn Belgi. Ég nýi vinur minn Graeme McCallum spjölluðum nokkuð saman, sem fólst mest í því að bölva þessari brjáluðu braut og brekkunni sem við vorum að reyna að drösla okkur upp ásamt auðvitað að dásama landslagið. Hægt og rólega kláraði ég vatnið og á sama tíma kom ég engu ofan í mig. Þegar ég hélt að ég væri að koma upp frétti ég frá starfsmanni að við værum um 2 km frá aflíðandi kafla fyrir síðasta klifrið og því aðeins um hálfnaðir upp brekkuna. Náði að koma ofan í mig 2 gúmmi köllum sem eru tæplega eitt gel og hélt áfram. Mikið orkuleysi í gangi og ég búinn með vatnið. Missti svo þessa vini mína framúr mér og sá á eftir þeim upp síðasta klifrið sem var snar bratt. Frábært að komast uppá Mont Baron með rugl útsýni yfir vatnið og Annecy. Hélt ég væri að fara hlaupa strax niður en við tók um 1,5 km langur tæknilega mjög erfiður kafli “alveg” uppá topp á fjallinu. Spurðu um vatn uppá topp en hefði þurft að taka á mig 15 mín tíma refsingu ef ég hefði fengið vatn, vildi það ekki og hélt þvi áfram. Niðurleiðin var tæknilega mjög erfið og var maður einhvern veginn að staulast þarna niður en gekk ágætlega þar sem lappirnar virkuðu alveg. Tók framúr einni stelpu og um svipað leiti dó úrið mitt, nýlega búinn að hlaupa framhjá skilti þar sem stóð 5 km í mark. Ég fer eitthvað að reyna að fikta með að kveikja aftur á því en gefst fljótlega upp. Held áfram en allt í einu fjarar stígurinn út sem ég var á....fokkk. Það sem flaug ekki í gegnum hausinn á mér þarna. Gat ekki hugsað mér að klifra aftur upp þessa brekku og tek því mjög svo vitlausa ákvörðun í panic kasti að halda áfram niður og finn stíginn þannig. Þetta endaði þannig að ég var hlaupandi fram og tilbaka í hlíðum fjallsins að reyna að ákvað hvort ég ætti að fara til hægri eða vinstri, vatnslaus og farinn að hræðast það að eitthvað kæmi fyrir mig sökum þreytu, hita og þorsta. Kom svo að lokum að stíg þar sem ég þurfti að velja vinstri eða hægri...tók vinstri beygju og stígurinn fór að klifra upp fjallið, var ekki alveg viss með það en ákvað að halda mig við þennan stíg. Get ekki lýst því þegar ég sá gulan lokunarborða sem lokaði inngöngu inná þennan stíg. Smeigði mér því aftur inná brautina og hélt þessari skemmtilegu niðurferð áfram. Reiknast til að ég hafi misst um 10-15 mín á þessum kalfa og um 6-10 sæti. Kom svo loksins niður þessa 800m snarbröttu brekku og gat því rúllað síðustu km örugglega í mark, algjörlega að drepast úr þorsta. Mjög gaman að rúlla síðustu km og gaman að hitta strákana og frétt að Tobbi hafi klárað hlaupið með engri smá framistöðu. Kom svo loksins í mark á tímanum 11:04:58 og í 104 sæti í heildina. Hljóp beint að vatninu og sturtaði í mig vökva. Frábært að vera loksins kominn í mark.

Eftir hlaupið vorum við svo að koma í okkur vökva og einhverjum mat ásamt því að taka kælingu í vatninu. Mjög gaman að vera við markið og spjalla við fólkið og slappa af.  Þurfti svo að labba slatta langt í bílinn til að ná í símann minn og hringja heim í Önnu. Biðum svo spenntir eftir Guðna og var frábært að sjá hann skila sér í mark þrátt fyrir mjög erfitt hlaup þar sem hann lenti í miklum vandræðum með krampa. Var mikið að hugsa um gengi strákana á meðan hlaupinu stóð og það skipti mig mjög miklu máli að við kæmum allir í mark. Það var ein helsta ástæðan að ég var alveg að missa það þegar ég var týndur í skóginum, hafði áhyggjur af því að ég myndi DNF-a og Ísland myndi ekki komast á blað í liða keppninni.

Það sem ég lærði af þessu er að maður getur fært mörkin á því hvað maður telur að líkami manns getur gert. Maður var kominn í mikið orkuleysi, mikla þreytu og maginn á hliðinni en samt hélt maður áfram. Það kom aldrei inn í myndina að hætta keppni og ótrúlegt hvað ég tók við mér þegar ég var týndur í skóginum. Maður skipti leiðinni upp í litla hluta og setti fókusinn í að klára eitt verkefni af öðru og smám saman komst maður í gegnum þetta. Hitinn hafði að ég tel mikil áhrif á mig í keppninni. Við vorum aðalega búnir að æfa í -5°C til 5°C og vökva inntaka er allt öðru vísi við þær aðstæður en við 25°C hita og sól. Maginn var því ekki vanur öllum þessum vökva og fór því að ég tel á hliðina.

Búnaður:
Skór: Lasportiva Helios - Léttir utanvegaskór með frábæru gripi, virkuðu fullkomnlega.
Sokkar:og stuttbuxur: CW-X  - Sokkarnir hæfalega þykkir til að verja yljarnar og úr léttu efni og héldu vel við kálfa.
Stuttbuxur: CW-X - Buxurnar héldu vel við mjaðmir og læri. Mjög þægilegt og virkar hiklaust. Vorum búnir að æfa mikið í síðbuxum sem hjálpuðu greinilega við erfiðar æfingar.
Bolur: Keppnisbolur frá 66 norður - Léttur og þægilegur bolur.
Vesti: Camelbak Circuit  - Létt hlaupavesti með 2x500ml brúsum. Hefði þurft að vera með 1,5 ml blöðruna á bakinu og 500ml brúsa að framan. Of lítill vöxvi hjá mér og greinilega vanáætlað í þessum hita. Vestið virkaði mjög vel, situr vel á manni og er sömuleiðis létt, gott aðgengi í vasa framan á því til að geyma næringu.
Stafir: Black Diamond stafir frá Fjallakofanum. Z-fold stafir um 500gr. Virkuðu mjög vel.
Gleraugu: Rudy Project gleraugu. Létt hlaupagleraugu með frábærum útskiftanlegum glerjum.
Úr: Suunto Ambit3 Run úr - Frábært hlaupa úr í svona langa túra, hægt að stilla það og fá rosalega mikið af nothæfum upplýsingum. Klikkaði á því að stilla það á aðeins lakara GPS merki sem hefði gefið mér lengra batterýs líf.

Næring:
GU Energy og Clif bar gel. Næringar áætlunin gekk útá að taka gel á 30 mín fresti fyrir utan fyrstu tvö með 45 mín á milli. Tók einnig eitt um 15 mín fyrir hlaup. Var með vatn í einum brúsa og orkudrykk í öðrum. Byrjaði að taka Koffínlaus gel en á 4-5 geli fór ég að taka koffín gelin. Voru með fullt af bragðtegundum til að velja úr og fínt að ná að velja sér aðeins hvaða bragð manni langaði í. Tók svo í lokin 2 Clif bar hlaupkalla en hefði þurft að pína mig í að taka meiri okru á síðasta leggnum, sömuleiðis á seinni hlutanum á legg 3. Búnir að æfa vel með þessum gelum og þau gjörsamlega nauðsynleg í svona löngum æfingum og hlaupum. GU gelin hafa einnig reynst mér ótrúlega vel í Laugaveginum og á æfingum.

Þetta var í alla staði alveg ótrúleg lífsreynsla. Bara það að fara út í keppni fyrir Íslands hönd var óendanlegur heiður og eitthvað sem ég hafð aldrei áður dottið í hug að ég myndi gera. Maður æfði meira en áður og það var mjög svo auðvelt að halda aga í erfiðustu aðstæðum því maður vissi að þetta tækifæri er eitthvað sem kemur ekki oft á ævinni. Stuðningurinn sem ég fékk heimafyrir var alveg frábær. Anna studdi mig alveg ótrúlega vel, hjálpað mikið að vita að maður var með fjölskylduna 100% á bakvið sig í þessu öllu. Mamma og pabbi og tengdó voru svo mjög dugleg að passa strákana svo maður kæmist í allar þessar æfingar og var sá stuðningur einnig óendanlega góður. Vil svo einnig þakka strákunum fyrir frábæra ferð. Sævar stóð sig eins og hetja sem liðsstjóri og alveg ómetanlegt að hafa hann í brautinni að hjálpa til. Sömuleiðis voru Guðni og Tobbi frábærir félagar og heiður að fá að hlaupa með þeim.

Hérna er svo hlaupið í Strava:


Takk fyrir mig
Örvar