9.9.04

Ken Park

Ég fór að sjá Ken Park á Indí dögum í Háskólabíói á laugardaginn. Þórarinn Þórarinsson skrifaði um myndina í Fréttablaðinu í dag og ég var bara nokkuð sammála kauða þannig að ég ætla að leyfa honum að fjalla um þessa mynd. Leikstjórinn Larry Clark gekk fram af mörgum siðapostulanum með mynd sinni Kids árið 1995. Þar fjallaði hann um tilvistarkreppu amerískra unglinga þar sem kynlíf og eyðnismit komu mikið við sögu. Hann er á svipuðum nótum í Ken Park en gengur þó enn lengra í bersöglinni og hikar ekki við að flagga getnaðarlimum og sýna sáðlát í nærmynd. Þetta er sem sagt mynd sem ætlað er að stuða.

Hér fylgir Clark nokkrum ungmennum eftir og gerir hvílubrögðum þeirra ítarleg skil. Það er margt áhugavert í sögum krakkanna og myndin er því vel til þess fallin að vekja fólk til umhugsunar þó ég átti mig ekki alveg á því um hvað það ætti helst að vera. Það má þó lesa hvassa þjóðfélagsádeilu út úr myndinni en það dregur töluvert úr kraftinum að fjölskylduaðstæður allra aðalpersónanna eru svo kolbrenglaðar að það hvarflar aldrei að manni að hér sé verið að veita innsýn inn í líf hins dæmigerða unglings í Bandaríkjunum. Þá er vandséð að opinská kynlífsatriðin í myndinni þjóni öðrum tilgangi en að ganga fr m af fólki og vekja umtal og salurinn átti það til að skella upp úr yfir kláminu, sem gefur sterklega til kynna að það missi marks. Klám er í sjálfu sér merkingarlaust og því vandmeðfarið eigi það að undirstrika eitthvað í dramatískum tilgangi. Miðað við Ken Park eiga Bandaríkjamenn enn margt ólært af Frökkum í þessum fræðum en yfirgengileg kynlífsatriði og ofbeldi í myndum Baise-Moi og Irreversible þjónuðu til dæmis sannarlega tilgangi sögunnar og höfðu mikilvægu hlutverki að gegna. Ken Park er samt skemmtileg pæling en bersöglin er klámhögg.

Mér fannst bara helvíti gaman af þessari mynd, eins og Þórarinn segir þá voru sum atriðin bara til að hneyksla og sum atriðin voru hreint út sagt drep fyndin.
Ken Park fær 3 Örlish!

Engin ummæli: