15.7.19

Laugavegurinn 2019 - 2. sæti á 4:44:39 klst

Skrítin tilfinning að vera mættur aftur á ráslínu í Laugaveginum. Mér fannst smá pressa vera á mér þar sem Tobbi var búinn að hlaupa frá Þórsmörk eitt stykki öfugan Laugaveg áður en hlaupið sjálft byrjaði. Ég búinn að vera valinn í landsliðið og með þannig pressu á að maður þarf að skila sæmilega góðu hlaupi bara útaf því. Þá var Hlynur einnig í svakalegu formi og einnig aðrir öflugir eins og Birgir Már og Snorri Björns sem mér datt í hug að gætu verið öflugir ásamt Gunnari Atla. Planið var samt alltaf að hlaupa mitt eigið hlaup og ekki láta Tobba eða einhverja útlendinga ráða hraðanum. Ég vissi ekki alveg hvernig ég væri stemmdur enda var stóra markmiðið HM í Portúgal fyrir 5 vikum og æfingar í millitíðinni ekki verið góðar. Setti samt upp smá plan en meira sem viðmið þegar ég fór í gegnum drykkjastöðvar en ekki eitthvað sem ég var að fylgjast með á milli stöðva. Planið var 1:00 klst upp í Hrafntinnusker - 0:55 (1:55) klst í Álftavatn - 1:17 (3:12) klst í Emstrur og svo 1:25 (4:37) í Þórsmörk. Þetta var meira drauma markmið en eitthvað fast og því var ég mjög rólegur að ná þessum tíma.

Landmannalaugar - Hrafntinnusker
Allir líklegir voru mættir í startið og fljótlega var hlaupið ræst og allir æddu af stað. Ég var orðinn fremstur eftir 20 m og var var því fyrstur upp hraunkantinn og þá var Tobbi strax kominn upp að mér. Við rúlluðum að Brennisteinsöldu og þar kom USA maðurinn framúr og fljótlega Suður Kóreu gaurinn líka, eftir smá stund var svo Hlynur kominn upp að mér. Rúlluðum brekkurnar vel en líklega aðeins og ákafir því ég var ca. 5 slögum of hár í brekknum en náði mér aðeins á flötu köflunum. Tobbi og USA gaurinn mynduðu fljótt sæmilegt forskot og ekki datt mér í hug að elta þá. Var frekar að vona að Tobbi myndi eitthvað dala eftir því sem leið á hlaupið og hafði svo sem trú á að ná USA gaurnum seinna á söndunum. Náðum Suður Kóreu gaurnum eftir ca. 8 km og skyldum hann strax eftir. Mjög lítill snjór og gekk vel að komast upp í Hrafntinnusker. Mjög fínt að vera með Hlyni á þessum tímapunkti og bara gott spjall okkar á milli. Fórum saman í gegnum Hrafntinnusker á 59:53 klst og ég 155 í púls (aðeins of hátt). Ekkert stopp og hlaupið beint framhjá drykkjarstöðinni. Tók eitt GU gel eftir 45 mín og drekk ca. 500 ml. af vatni.
 
Hrafntinnusker - Álftavatn
Þarna sáum við alltaf í USA og Tobba en vorum ekkert að pressa, náði púlsinum strax í miklu betra lag og fannst mjög þægilegt að hlaupa þennan legg. Lítill snjór í kringum Hrafntinnusker en aftur á móti flest gil tóm en það telur lítið miðað við að losna við mesta snjóinn. Áfram þægilegt spjall hjá okkur Hlyn og við greinilega mjög svipað strekir eins og ég átti von á fyrir hlaup. Eitt fallegasta útsýni landsins áður en vð fórum niður Jökultungurnar. Fórum sæmilega varlega niður Jökultungurnar og byrjuðum að rúlla vel eftir það að Álftavatni. Þegar Hlynur var fyrir framan mig fannst mér hann pressa aðeins meira en ég vildi en samt allt innan eðlilegra marka. Vorum sömuleiðis samferða í gegnum Álftavatn á tímanum 1:57:22 klst (57:52 klst) og þarna var púlsinn kominn í miklu betra stand eða meðalpúls uppá 147. Leið þarna mjög vel og var smá dónalegur við eina konu sem var að rífa miðann af númerinu mínu og var eitthvað lengi að því (bið hana hér með afsökunar). Tók tvö gel á þessum legg, eitt eftir 1:15 klst og annað eftir 1:45 klst og kláraði næstum því GU drykkinn sem ég var líka með í 500 ml flösku í Camelbak vestinu mínu. Fyllti vatn á einn búsa og Powerade í annan brúsa og rauk af stað með Hlyni. 

Álftavatn - Emstur
Við Hlynur héldum áfram saman útaf drykkjarstöðinni en svo yfir fyrsta hálsinn eftir Álftavatn fann ég að Hlynur var aðeins að dragast aftur úr, brunaði svo yfir Bratthálskvísl og þá var stutt í Hlyn þannig að ég hélt að hann væri ennþá með allt í góðu og ég ákvað samt að halda mínu striki án þess að pressa útaf honum eða heldur að bíða eftir honum. Þegar við komum svo niður í Hvanngil sá ég að það var farið að styttast mikið í USA gaurinn og sömuleiðis komið smá bil á milli míns á Hlyns (kannski 40 m). Þarna datt ég í svakalega gott stand og fór að hlaupa mjög vel án þess að streða, púlsinn í góðum málum og ég að hlaupa mjög vel. Náði svo USA strax eftir Bláfjallakvísl og skyldi hann strax eftir. Þarna og eftir þetta var ég ekkert að spá í hvað væri að gerast fyrir aftan mig og lifði í voninni að ég færi að sjá í Tobba sem ég hélt að myndi kannski gefa eitthvað eftir kominn með þetta marga km í sig. Rúllaði sandana mjög vel og svo áfram frá veginum og í gegnum Útigönguhöfða skarðið. Eftir það fór ég aðeins að vera þreyttur og finna fyrir þreytu í löppunum og komu smá áhyggjur að ég væri að fara fá krampa eins og ég lenti í úti í Portúgal. Hélt samt áfram og gekk vel, reyndi að hugsa bara um næsta km og vera jákvæður. Var alveg farið að lengja eftir að sjá Emstrur en sömuleiðis farinn að þekkja leiðina vel, en var engu að síður mjög gott að sjá Emstru skálann. Fékk mjög óvænt smá tak í hægra hné niður að skálanum en ekkert mjög alvarlegt á þessu pkt. Kom þar í gegn á tímanum 3:15:16 klst (1:17:54) sem var um 3 mín á eftir markmiði mínu og var ég bara mjög sáttur við tímann, púlsinn í mjög góðum málum í 148 slögum. Tók GU gel á 30 mín fresti og tók 3 gel á þessum legg og kláraði næstum báðar flöskurnar mínar. Fyllti aftur vatn og Powerade á flöskurnar, fékk mér smá Mars bita og hljóp strax út. Hitti Kjartan sem sagði að það væri ekkert mjög langt í Tobba.

Emstrur - Þórsmörk
Fór út og gat áfram hlaupið sæmilega en fann að þreytan var farin að segja til sín. Hljóp niður að Fremri Emstruá og þá fann ég aftur fyrir hnénu yfir ánna og svo niður í gilið þar fyrir neðan. Orðinn þreyttur þarna og hálf orkulaus og tók fljótlega gel og drakk vel af Powerade, datt aðeins í betri gír en fann samt að ég var ekki að fara slá nein met á þessum legg. Var mikið að hugsa um hvernig mér leið þegar ég vann Laugaveginn 2013 og hljóp með Guðna og í minningunni var ég svaka hress á þessum stað þó svo að það sé klárlega ekki alveg rétt minning. En þarna var hausaleikfimi, sá aldrei Tobba og heldur ekki neinn fyrir aftan mig, reyndi bara að einbeita mér að hlaupa þegar ég gat og halda áfram að drekka. Einn km í einu nálgaðist maður hægt og rólega endamarkið. Kláraði báða brúsana fljótlega og var orðinn vatnslaus eftir Bjór- og Slyppugil og ennþá alltof langt í Ljósá, sömuleiðis hnéð farið að valda mér vandræðum. Mjög ánægður að koma að Ljósá og fá tvö kókglös og fylla 500 ml af vatni, tók svo gel einhverstaðar á þessum tímapunkti en man ekki alveg hvar. Gott að komast að Kápunni og þá var ég búinn að missa alla von um að ná Tobba. Rosalega vont að hlaupa niður Kápuna með hnéð ekki í góðu standi. En bara gnísta tönnum og halda áfram. Virkilega gott að komast á Þröngá og fá smá kælingu á hnéð og sjá Friðleif hvetja mann áfram. Sömuleiðs orðið mjög stutt eftir þarna, fékk smá Powerade og einn mars bita og fór svo áfram upp moldarslóðann og gekk alveg sæmilega en auðvitað orðinn mjög þreyttur. Þegar ég var svo loksins kominn upp ásinn og ætlaði að fara rúlla í mark fékk ég rosalega magakrampa sem ég hef ekki lent í áður. Þá bara 2 km í mark og leið hræðilega að hlapua niður brekkuna að drepast í maganum og hnéð að öskra á mig. Var betra að komast á jafnsléttu og þá var ég virkilega farinn að hlakka til að sjá fjölskylduna sem ég vissi af í markinu. Tilfinningin að heyra svo í endamarkinu og áhorfendum er alveg ólýsanleg. Rúllaði bara í nokkuð góðu standi í mark og náði að bæta mig þrátt fyrir frekar erfiða síðustu 16 km. Endaði hlaupið á 4:44:39 sem er bæting um ca. 2 mín. Fór síðasta legginn á 1:29:23 klst sem er ca. 3 mín lélegra en 2013 og 2014. Púlsinn var 142 sem er of lár og vísbending um að það vantaði eitthvað aðeins uppá formið eða að ég hafi farið aðeins of hratt í byrjun. Líklega blanda af hvoru tveggja. 

Endaði í öðru sæti á eftir Tobba vélmenni sem kláraði á 4:32 klst. Magnað eintak af manneskju. En uppskeran var allavega 2. sæti og fyrsta sæti í nýja aldursflokknum mínum 40 - 49 ára. Einnig unnuð við Hlynur, Búi Steinn og Þorleifur liðakeppnina. Mjög sáttur við daginn en hnéð var strax eftir keppni mjög slæmt og sömuleiðis maginn sem datt í lag eftir nokkra stund.

Búnaður:
Skór: Nike Terra Kiger 4
Bolur: Inov-8
Stuttbuxur: 2XU
Sokkar: CEP
Vesti: Camelbak Nano með 2x 500ml brúsum
Næring: GU gel, 1 fyrir hlaup og svo fyrsta eftir 45 mín og svo á 30 mín fresti. Endað á að taka 9 gel og var yfirleitt með einn íþróttadrykk (GU/Powerade) á móti einum vatnsbrúsa. 
Úr: Suunto Spartan Run

Þakka H-verslun fyrir Camelbak vestið og Sport 24 Reykjavík fyrir GU næringu. Sömuleiðis fær fjölskyldan óendanlegar þakkir fyrir að koma að styðja mig á marklínu og sömuleiðis að hjálpa með og þola allar æfingarnar.