Sýnir færslur með efnisorðinu Ultrarunning. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Ultrarunning. Sýna allar færslur

15.7.19

Laugavegurinn 2019 - 2. sæti á 4:44:39 klst

Skrítin tilfinning að vera mættur aftur á ráslínu í Laugaveginum. Mér fannst smá pressa vera á mér þar sem Tobbi var búinn að hlaupa frá Þórsmörk eitt stykki öfugan Laugaveg áður en hlaupið sjálft byrjaði. Ég búinn að vera valinn í landsliðið og með þannig pressu á að maður þarf að skila sæmilega góðu hlaupi bara útaf því. Þá var Hlynur einnig í svakalegu formi og einnig aðrir öflugir eins og Birgir Már og Snorri Björns sem mér datt í hug að gætu verið öflugir ásamt Gunnari Atla. Planið var samt alltaf að hlaupa mitt eigið hlaup og ekki láta Tobba eða einhverja útlendinga ráða hraðanum. Ég vissi ekki alveg hvernig ég væri stemmdur enda var stóra markmiðið HM í Portúgal fyrir 5 vikum og æfingar í millitíðinni ekki verið góðar. Setti samt upp smá plan en meira sem viðmið þegar ég fór í gegnum drykkjastöðvar en ekki eitthvað sem ég var að fylgjast með á milli stöðva. Planið var 1:00 klst upp í Hrafntinnusker - 0:55 (1:55) klst í Álftavatn - 1:17 (3:12) klst í Emstrur og svo 1:25 (4:37) í Þórsmörk. Þetta var meira drauma markmið en eitthvað fast og því var ég mjög rólegur að ná þessum tíma.

Landmannalaugar - Hrafntinnusker
Allir líklegir voru mættir í startið og fljótlega var hlaupið ræst og allir æddu af stað. Ég var orðinn fremstur eftir 20 m og var var því fyrstur upp hraunkantinn og þá var Tobbi strax kominn upp að mér. Við rúlluðum að Brennisteinsöldu og þar kom USA maðurinn framúr og fljótlega Suður Kóreu gaurinn líka, eftir smá stund var svo Hlynur kominn upp að mér. Rúlluðum brekkurnar vel en líklega aðeins og ákafir því ég var ca. 5 slögum of hár í brekknum en náði mér aðeins á flötu köflunum. Tobbi og USA gaurinn mynduðu fljótt sæmilegt forskot og ekki datt mér í hug að elta þá. Var frekar að vona að Tobbi myndi eitthvað dala eftir því sem leið á hlaupið og hafði svo sem trú á að ná USA gaurnum seinna á söndunum. Náðum Suður Kóreu gaurnum eftir ca. 8 km og skyldum hann strax eftir. Mjög lítill snjór og gekk vel að komast upp í Hrafntinnusker. Mjög fínt að vera með Hlyni á þessum tímapunkti og bara gott spjall okkar á milli. Fórum saman í gegnum Hrafntinnusker á 59:53 klst og ég 155 í púls (aðeins of hátt). Ekkert stopp og hlaupið beint framhjá drykkjarstöðinni. Tók eitt GU gel eftir 45 mín og drekk ca. 500 ml. af vatni.
 
Hrafntinnusker - Álftavatn
Þarna sáum við alltaf í USA og Tobba en vorum ekkert að pressa, náði púlsinum strax í miklu betra lag og fannst mjög þægilegt að hlaupa þennan legg. Lítill snjór í kringum Hrafntinnusker en aftur á móti flest gil tóm en það telur lítið miðað við að losna við mesta snjóinn. Áfram þægilegt spjall hjá okkur Hlyn og við greinilega mjög svipað strekir eins og ég átti von á fyrir hlaup. Eitt fallegasta útsýni landsins áður en vð fórum niður Jökultungurnar. Fórum sæmilega varlega niður Jökultungurnar og byrjuðum að rúlla vel eftir það að Álftavatni. Þegar Hlynur var fyrir framan mig fannst mér hann pressa aðeins meira en ég vildi en samt allt innan eðlilegra marka. Vorum sömuleiðis samferða í gegnum Álftavatn á tímanum 1:57:22 klst (57:52 klst) og þarna var púlsinn kominn í miklu betra stand eða meðalpúls uppá 147. Leið þarna mjög vel og var smá dónalegur við eina konu sem var að rífa miðann af númerinu mínu og var eitthvað lengi að því (bið hana hér með afsökunar). Tók tvö gel á þessum legg, eitt eftir 1:15 klst og annað eftir 1:45 klst og kláraði næstum því GU drykkinn sem ég var líka með í 500 ml flösku í Camelbak vestinu mínu. Fyllti vatn á einn búsa og Powerade í annan brúsa og rauk af stað með Hlyni. 

Álftavatn - Emstur
Við Hlynur héldum áfram saman útaf drykkjarstöðinni en svo yfir fyrsta hálsinn eftir Álftavatn fann ég að Hlynur var aðeins að dragast aftur úr, brunaði svo yfir Bratthálskvísl og þá var stutt í Hlyn þannig að ég hélt að hann væri ennþá með allt í góðu og ég ákvað samt að halda mínu striki án þess að pressa útaf honum eða heldur að bíða eftir honum. Þegar við komum svo niður í Hvanngil sá ég að það var farið að styttast mikið í USA gaurinn og sömuleiðis komið smá bil á milli míns á Hlyns (kannski 40 m). Þarna datt ég í svakalega gott stand og fór að hlaupa mjög vel án þess að streða, púlsinn í góðum málum og ég að hlaupa mjög vel. Náði svo USA strax eftir Bláfjallakvísl og skyldi hann strax eftir. Þarna og eftir þetta var ég ekkert að spá í hvað væri að gerast fyrir aftan mig og lifði í voninni að ég færi að sjá í Tobba sem ég hélt að myndi kannski gefa eitthvað eftir kominn með þetta marga km í sig. Rúllaði sandana mjög vel og svo áfram frá veginum og í gegnum Útigönguhöfða skarðið. Eftir það fór ég aðeins að vera þreyttur og finna fyrir þreytu í löppunum og komu smá áhyggjur að ég væri að fara fá krampa eins og ég lenti í úti í Portúgal. Hélt samt áfram og gekk vel, reyndi að hugsa bara um næsta km og vera jákvæður. Var alveg farið að lengja eftir að sjá Emstrur en sömuleiðis farinn að þekkja leiðina vel, en var engu að síður mjög gott að sjá Emstru skálann. Fékk mjög óvænt smá tak í hægra hné niður að skálanum en ekkert mjög alvarlegt á þessu pkt. Kom þar í gegn á tímanum 3:15:16 klst (1:17:54) sem var um 3 mín á eftir markmiði mínu og var ég bara mjög sáttur við tímann, púlsinn í mjög góðum málum í 148 slögum. Tók GU gel á 30 mín fresti og tók 3 gel á þessum legg og kláraði næstum báðar flöskurnar mínar. Fyllti aftur vatn og Powerade á flöskurnar, fékk mér smá Mars bita og hljóp strax út. Hitti Kjartan sem sagði að það væri ekkert mjög langt í Tobba.

Emstrur - Þórsmörk
Fór út og gat áfram hlaupið sæmilega en fann að þreytan var farin að segja til sín. Hljóp niður að Fremri Emstruá og þá fann ég aftur fyrir hnénu yfir ánna og svo niður í gilið þar fyrir neðan. Orðinn þreyttur þarna og hálf orkulaus og tók fljótlega gel og drakk vel af Powerade, datt aðeins í betri gír en fann samt að ég var ekki að fara slá nein met á þessum legg. Var mikið að hugsa um hvernig mér leið þegar ég vann Laugaveginn 2013 og hljóp með Guðna og í minningunni var ég svaka hress á þessum stað þó svo að það sé klárlega ekki alveg rétt minning. En þarna var hausaleikfimi, sá aldrei Tobba og heldur ekki neinn fyrir aftan mig, reyndi bara að einbeita mér að hlaupa þegar ég gat og halda áfram að drekka. Einn km í einu nálgaðist maður hægt og rólega endamarkið. Kláraði báða brúsana fljótlega og var orðinn vatnslaus eftir Bjór- og Slyppugil og ennþá alltof langt í Ljósá, sömuleiðis hnéð farið að valda mér vandræðum. Mjög ánægður að koma að Ljósá og fá tvö kókglös og fylla 500 ml af vatni, tók svo gel einhverstaðar á þessum tímapunkti en man ekki alveg hvar. Gott að komast að Kápunni og þá var ég búinn að missa alla von um að ná Tobba. Rosalega vont að hlaupa niður Kápuna með hnéð ekki í góðu standi. En bara gnísta tönnum og halda áfram. Virkilega gott að komast á Þröngá og fá smá kælingu á hnéð og sjá Friðleif hvetja mann áfram. Sömuleiðs orðið mjög stutt eftir þarna, fékk smá Powerade og einn mars bita og fór svo áfram upp moldarslóðann og gekk alveg sæmilega en auðvitað orðinn mjög þreyttur. Þegar ég var svo loksins kominn upp ásinn og ætlaði að fara rúlla í mark fékk ég rosalega magakrampa sem ég hef ekki lent í áður. Þá bara 2 km í mark og leið hræðilega að hlapua niður brekkuna að drepast í maganum og hnéð að öskra á mig. Var betra að komast á jafnsléttu og þá var ég virkilega farinn að hlakka til að sjá fjölskylduna sem ég vissi af í markinu. Tilfinningin að heyra svo í endamarkinu og áhorfendum er alveg ólýsanleg. Rúllaði bara í nokkuð góðu standi í mark og náði að bæta mig þrátt fyrir frekar erfiða síðustu 16 km. Endaði hlaupið á 4:44:39 sem er bæting um ca. 2 mín. Fór síðasta legginn á 1:29:23 klst sem er ca. 3 mín lélegra en 2013 og 2014. Púlsinn var 142 sem er of lár og vísbending um að það vantaði eitthvað aðeins uppá formið eða að ég hafi farið aðeins of hratt í byrjun. Líklega blanda af hvoru tveggja. 

Endaði í öðru sæti á eftir Tobba vélmenni sem kláraði á 4:32 klst. Magnað eintak af manneskju. En uppskeran var allavega 2. sæti og fyrsta sæti í nýja aldursflokknum mínum 40 - 49 ára. Einnig unnuð við Hlynur, Búi Steinn og Þorleifur liðakeppnina. Mjög sáttur við daginn en hnéð var strax eftir keppni mjög slæmt og sömuleiðis maginn sem datt í lag eftir nokkra stund.

Búnaður:
Skór: Nike Terra Kiger 4
Bolur: Inov-8
Stuttbuxur: 2XU
Sokkar: CEP
Vesti: Camelbak Nano með 2x 500ml brúsum
Næring: GU gel, 1 fyrir hlaup og svo fyrsta eftir 45 mín og svo á 30 mín fresti. Endað á að taka 9 gel og var yfirleitt með einn íþróttadrykk (GU/Powerade) á móti einum vatnsbrúsa. 
Úr: Suunto Spartan Run

Þakka H-verslun fyrir Camelbak vestið og Sport 24 Reykjavík fyrir GU næringu. Sömuleiðis fær fjölskyldan óendanlegar þakkir fyrir að koma að styðja mig á marklínu og sömuleiðis að hjálpa með og þola allar æfingarnar.

31.5.15

IAU World Trail Championship 2015

Hlaupaleiðin í kringum Annecy vatnið
Hérna kemur nokkuð ítarleg samantekt af ferðinni okkar út í IAU World Trail Championship sem er heimsmeistaramót í utanvegahlaupi, haldið í Annecy í Frakklandi. Þetta var bæði liða og einstaklingskeppni og þurfti 3 aðila til að keppa í liðakeppninni. Ég, Guðni Páll Pálsson og Þorbergur Ingi Jónsson kepptum fyrir Íslands hönd. Hlaupaleiðin er 85km löng í fjöllunum í kringum Annecy vatnið og er heildar hækkun 5300m.
Hæðarprófíll fyrir hlaupaleiðina, 85 km og 5300 í hækkun og lækkun
Við flugum til Genf í gegnum London miðvikudaginn 27. maí, svo var um 45 mín keyrsla yfir til Annecy sem er nálægt Svissnesku og Ítölsku landamærunum. Strax þegar við komum á hótelið, sem var með útsýni yfir stærstan hluta brautarinn, sáum við hvurslags fjöll þetta voru sem við vorum að fara hlaupa í. Ótrúlega fallegt umhverfi en sömuleiðis allt annar skali en við erum vanir frá Íslandi, allt miklu stærra og brattara en litla fallega Ísland. Tókum léttan skokk túr aðeins til að kanna nánasta umhverfi hótelsins en svo var það kvöldmatur og fljótlega í háttinn þar sem við ætluðum að reyna að snúa sólhringnum eins mikið okkur í hag eins og við gátum.
Örvar, Guðni, Sævar og Tobbi með Mt. Baron og Roc Lancrenaz í baksýn.
Fimmtudagurinn byrjaði með sól í heiði og um 20°C hita. Eftir morgunmat var Tobbi svo kallaður í blóðprufu, en um 80 hlaupara voru prófaðir í það heila. Fór svo fljótlega að skoða brautina, var á dagskrá að ná að keyra allan hringinn og ná þeim stöðum þar sem vegir krossuðu brautina. Gekk vel til að byrja með en tók lengri tíma en við áætluðum, þurftum því að snúa heim þegar við vorum komnir á 53 km og náðum því ekki að skoða seinustu 30 km í brautinni. Náðum aðeins að hlaupa smá kafla af brautinni en það hjálpaði að sjá hversu tæknilegir stígarnir voru og mikill bratti. Fórum uppá hótel og svo keyrt á setningarathöfn keppninnar. Skrúðganga og setningarathöfnin fólst mest í bið og að standa í skrúðgönguröð fyrir utan sjálfa setningarathöfnina. Enduðum svo með að yfirgefa franskar ræður og stangastökk sýningu og fá okkur eitthvað að borða til að komast sem fyrst í háttinn. Smá labb um kvöldið í gamla bænum í Annecy og pizza á Little Italy var mjög skemmtileg.
Föstudagurinn hófst svo á tæknifundi þar sem kom í ljós nokkrar breytingar á reglum. Gátum sleppt því að vera með síma eins og fyrir fram stóð í reglunum en þurftum að vera með flautu og taka einnig með vindheldan jakka. Seinni parturinn fór því að útvega þessa hluti og klára að raða í töskurnar sem Sævar myndi vera með á drykkjarstöðvunum. Aftur fórum við svo í mat til Annecy til að vera aðeins fyrr á ferðinni en hótelið. Lasagna í gamla bænum var carbo hleðsla dagsins og var kominn nokkur spenna í mannskapinn enda aðeins örfáir tímar í hlaup. Fórum svo í háttinn um kl. 20 og náðum svo að sofa til kl. 23 þegar við heyrðum í þrumuveðri og rigningu (eins og spáin gerði ráð fyrir). Eitthvað dormað til kl. 00:30 en þarna var hausinn kominn á flug og við Guðni fórum því í morgunmat. Kom með minn eigin hafragraut, fékk mér svo te og smá brauð. Klæddum okkur og fórum í startið um kl. 02:30. Það var búið að vera nokkuð stress á manni daga á undan en strax þegar maður kom í startið varð þetta meira spenna og stressið fjaraði út og tilhlökkun tók við. Mjög gaman að hitta á nokkrar hetjur úr USA liðinu á meðan við vorum að bíða eftir að komast á kamrana.
Tobbi, Örvar og Guðni við startið

Annecy - Semnoz 
Ég og Guðni komum okkur fyrir nokkuð aftarlega í hópnum. Startið var mjög flott, hlaupið var í gegnum haf af blysum í myrkrinu. Rúlluðum vel fyrstu 3 km sem voru meðfram vatninu og út úr bænum, tókum strax framúr mörgum og gaman að sjá að allar gerðir af fólki var að taka þátt. Nokkrar eftirlegu kindur voru ennþá í miðbænum og var góður stuðningur í þeim. Pössuðum okkur í brekkunum í byrjun og furðuðum okkur á ákvefðinni í nokkrum keppendum sem voru móðir og másandi í fyrstu brekkunum. Var skemmtilegt að komast svo út á skógarstíginn sem lá í um 15 km brekku upp á Semnoz í 1650m hæð. Voru rúllandi brekkur til að byrja með og nokkuð um að stöðubreytingar eftir halla. Tókum því rólega upp brekkur og misstum þá nokkra á undan okkur, svo fór smá vinna í að taka framúr á sléttu köflunum þar sem við vorum hraði en fólkið í kringum okkur. Nokkuð um tæknilega erfiða kafla en einnig mikið um þægilega og auðvelda. Svipað og í Laugarveginum 2013 voru við félagarnir í skemmtilegum hlaupatúr og mikið um spjall um líðan og upplifun okkar. Gaman að komast uppfyrir trjálínu og sjá að sólin var að koma upp. Ég og Guðni komum svo samferða inná fyrstu drykkjarstöðina. Fylltum á vatn og gel, tók 3 gel á þessum kafla og kláraði báða brúsana mína (2x500ml). Var með vatn í einum og powerade í hinum, fyllti þá báða. Fórum útaf fyrstu stöðinni á 2:09 og í 105 sæti, búnir með 18km af 85km. Vorum strax talstvert á eftir áætlun en höfðum skotið gróft á að vera á fyrstu stöð á 1:50-2:00. Vorum samt alveg slakir yfir þessu enda að passa að fara ekki of geyst af stað enda nóg eftir af hlaupinu. Þetta var klárlega auðveldasti kaflinn í brautinni þrátt fyrir um 1400m hækkun og 200m lækkun.

Semnoz - Doussard
Eftir drykkjarstöðina tók við mjög þægilegt hlaup niður aflíðandi brekku, það var þó aðeins í 1-2 km og eftir það tók við mjög brattur kræklóttur skógar stígur með rótum, drullu og nóg af grjóti sem endaði í smá sveitarþorp í lokin eftir í um 9 km af niðurhlaupi, tæpir 1000m. Fyllti þar á einn vatnsbrúsa. Þarna var strax farið að hitna og maður fann að maður var að svitna mikið. Smá rúll áður en ein brattasta brekkan tók við upp á Col del la Cochetta. Mjög mikil drulla og stundum var auðveldara að vera fyrir utan stíginn. Líðan var góð og allt eins og það átti að vera. Vorum að byrjaðir að taka gal á 30 mín fresti og passa að drekka nóg. Gaman að hitta nokkra úr danska liðinu og spjalla aðeins við þá. Fann mig mjög vel upp brekkurnar og það gekk vel upp þær án þess að maður væri að streða of mikið. Komumst uppá topp á Cochetta hryggnum kl. 7:20 eftir 3:50 klst og í 95 sæti. Við tók svo mjög tæknilegt hlaup niður af hryggnum. Ennþá gekk vel og vorum við að fara nokkuð rólega niður enda tæknilega erfitt. Gaman að hitta vin minn úr USA liðinu Yassine Diboun og gaf það manni smá auka orku, hann kom þó fljótlega aftur framúr okkur og mikilli siglingu. Eftir seinni vatnsstöðina (36,5km) kom nokkuð rúllandi kafli, þó með nokkrum góðum brekkum. Þarna fór allt í einu að draga af Guðna og hægðum við því aðeins ferðina. Kom svo gott bratt niðurhlaup þar sem við gátum rúllað sæmilega og svo 2km rúll á malbiki þangað til að við duttum inná drykkjarstöð nr. 2 í Doussard. Þarna var ég farinn að finna til svengdar enda með garnagaul. Var smá kaos inná stöðinni því Sævar mátti ekki taka neitt af því sem var í boði á drykkjarstöðinni yfir á borðið okkar. Ég þurfti því að hlaupa tilbaka og fylla á Gatorade, grípa mér snakk og pizzusneið og smá banana til að fylla magann. Þarna var líðan góð, fyllti á vatn og gatorade og tók ný gel. Tók á þessum kafla líklega um 5 gel. Fórum svo samferða útaf stöðinni 5:00 klst og í 97 sæti. Í Doussard var maður hálfnaður, 43,5km af 85km. Leggurinn milli drykkjarstöðvana tveggja var 9 km með um 800m í hækkun og lækkun. Svo kom 6 km kafli með 200m hækkun og 400m lækkun.

Doussard - Menthon-St-Bernard
Við vorum búnir að skipuleggja að fara af þessari stöð með stafi enda gríðarlegt klifur á þessum kafla, um 1500m hækkun uppá Roc Lancrenaz á um 14km kafli. Það var um 1km sléttur kafli að Col de la Forclaz brekkunni. Fór hægt af stað í byrjun til að slíta ekki Guðna af mér en það dugði ekki og hann var greinilega kominn í einhvern erfiðleika. Misstum eitthvað af liði framúr okkur í byrjun brekkunar en svo hægt og rólega missti ég sjónir af Guðna og ákvað eftir smá tíma að hlaupa bara mitt eigið hlaup. Ég gæti sömuleiðis lent í vandræðum og þá myndi hann bara ná mér aftur. Klifrið upp Col de la Forclaz (um 700m hækkun) gekk vel og eftir það tók svo við um 1,5km niðurhlaup.
Að hlaupa niður frá Col de la Forclaz  - Mynd: Claude Eyraud
 Þarna var maður kominn út úr skóginum og sólin var að steikja mann. Reyndi að kæla mig með vatni á drykkjarstöðinni og fyllti á alla brúsa og drakk vel. Þarna var vel heitt í næsta klifri og engin tré til að skýla manni. Á þessum kafla fór ég framúr 4-5 manns og fannst ég öflugur í brekkunum, mjög þægilegt að klifra með stafina. Frábært að koma uppá Roc Lancrenaz og klára mjög bratt klifur þar upp umkringdur fjallageitum. Aðstæður sem ég gleymi aldrei og frábær upplifun.
Eftir þetta tók svo við mjög svo erfiður kafli, um 6,5km niðurhlaup þar sem var hlaupið niður grófan slóða með um 1.000m lækkun. Fann fljótt að maginn var fullur af vatni og skoppaði til þegar maður byrjaði að hlaupa niður brekkuna. Þessi brekka ætlaði aldrei að hætta og náði því miður ekki að rúlla þetta eins vel og ég vildi. Hitinn fór fljótlega að hafa áhrif eftir því sem maður lækkaði sig í hæð og maginn farin að vera til vandræða. Þurfti að pína mig í að taka gel. Var orðinn alveg vatnslaus á kafla en kom að læk þar sem ég gat kælt mig og fyllt vatnið. Stuttu seinna kom svo vatnsstöðin. Næsti kafli hélt ég sömuleiðis að yrði auðveldari. Vorum sannfærðir að þetta væri rúllandi hæðir sem maður gæti hlaupið. Brekkurnar voru brattar upp og var mikið um sikk sakk, upp og niður. Var frekar erfitt andlega að hlaupa niður í St-Bernard vitandi að maður þyrfti að fara strax upp aftur úr þorpinu. En gríðarlega ánægður að komast á drykkjarstöðina og heyra í Sævari kalla og hvetja mann áfram. Fékk mér Coke sem bjargaði algjörlega deginum og helstu mistökin mín voru að fara ekki af stað með coke og meira vatn. Maginn orðinn frekar erfiður þarna og hitinn var alveg að fara með mig. Kældi mig vel fyrir utan drykkjarstöðina, fyllti á allt og rúllaði af stað. Þarna var maður búinn með 70 km af 85 km og tíminn var 8:37 og ég var í 99 sæti.

Menthon-St-Bernard - Annecy
Fyrsta brekkar upp að kastalanum gekk vel og sömuleiðis rúllið að fjallinu, hitinn hafði áhrif en ég var ennþá að virka. Hitti þarna einn gamlingja frá Suður Afríku, einn Portúgala og hvort að það var ekki líka einn Belgi. Ég nýi vinur minn Graeme McCallum spjölluðum nokkuð saman, sem fólst mest í því að bölva þessari brjáluðu braut og brekkunni sem við vorum að reyna að drösla okkur upp ásamt auðvitað að dásama landslagið. Hægt og rólega kláraði ég vatnið og á sama tíma kom ég engu ofan í mig. Þegar ég hélt að ég væri að koma upp frétti ég frá starfsmanni að við værum um 2 km frá aflíðandi kafla fyrir síðasta klifrið og því aðeins um hálfnaðir upp brekkuna. Náði að koma ofan í mig 2 gúmmi köllum sem eru tæplega eitt gel og hélt áfram. Mikið orkuleysi í gangi og ég búinn með vatnið. Missti svo þessa vini mína framúr mér og sá á eftir þeim upp síðasta klifrið sem var snar bratt. Frábært að komast uppá Mont Baron með rugl útsýni yfir vatnið og Annecy. Hélt ég væri að fara hlaupa strax niður en við tók um 1,5 km langur tæknilega mjög erfiður kafli “alveg” uppá topp á fjallinu. Spurðu um vatn uppá topp en hefði þurft að taka á mig 15 mín tíma refsingu ef ég hefði fengið vatn, vildi það ekki og hélt þvi áfram. Niðurleiðin var tæknilega mjög erfið og var maður einhvern veginn að staulast þarna niður en gekk ágætlega þar sem lappirnar virkuðu alveg. Tók framúr einni stelpu og um svipað leiti dó úrið mitt, nýlega búinn að hlaupa framhjá skilti þar sem stóð 5 km í mark. Ég fer eitthvað að reyna að fikta með að kveikja aftur á því en gefst fljótlega upp. Held áfram en allt í einu fjarar stígurinn út sem ég var á....fokkk. Það sem flaug ekki í gegnum hausinn á mér þarna. Gat ekki hugsað mér að klifra aftur upp þessa brekku og tek því mjög svo vitlausa ákvörðun í panic kasti að halda áfram niður og finn stíginn þannig. Þetta endaði þannig að ég var hlaupandi fram og tilbaka í hlíðum fjallsins að reyna að ákvað hvort ég ætti að fara til hægri eða vinstri, vatnslaus og farinn að hræðast það að eitthvað kæmi fyrir mig sökum þreytu, hita og þorsta. Kom svo að lokum að stíg þar sem ég þurfti að velja vinstri eða hægri...tók vinstri beygju og stígurinn fór að klifra upp fjallið, var ekki alveg viss með það en ákvað að halda mig við þennan stíg. Get ekki lýst því þegar ég sá gulan lokunarborða sem lokaði inngöngu inná þennan stíg. Smeigði mér því aftur inná brautina og hélt þessari skemmtilegu niðurferð áfram. Reiknast til að ég hafi misst um 10-15 mín á þessum kalfa og um 6-10 sæti. Kom svo loksins niður þessa 800m snarbröttu brekku og gat því rúllað síðustu km örugglega í mark, algjörlega að drepast úr þorsta. Mjög gaman að rúlla síðustu km og gaman að hitta strákana og frétt að Tobbi hafi klárað hlaupið með engri smá framistöðu. Kom svo loksins í mark á tímanum 11:04:58 og í 104 sæti í heildina. Hljóp beint að vatninu og sturtaði í mig vökva. Frábært að vera loksins kominn í mark.

Eftir hlaupið vorum við svo að koma í okkur vökva og einhverjum mat ásamt því að taka kælingu í vatninu. Mjög gaman að vera við markið og spjalla við fólkið og slappa af.  Þurfti svo að labba slatta langt í bílinn til að ná í símann minn og hringja heim í Önnu. Biðum svo spenntir eftir Guðna og var frábært að sjá hann skila sér í mark þrátt fyrir mjög erfitt hlaup þar sem hann lenti í miklum vandræðum með krampa. Var mikið að hugsa um gengi strákana á meðan hlaupinu stóð og það skipti mig mjög miklu máli að við kæmum allir í mark. Það var ein helsta ástæðan að ég var alveg að missa það þegar ég var týndur í skóginum, hafði áhyggjur af því að ég myndi DNF-a og Ísland myndi ekki komast á blað í liða keppninni.

Það sem ég lærði af þessu er að maður getur fært mörkin á því hvað maður telur að líkami manns getur gert. Maður var kominn í mikið orkuleysi, mikla þreytu og maginn á hliðinni en samt hélt maður áfram. Það kom aldrei inn í myndina að hætta keppni og ótrúlegt hvað ég tók við mér þegar ég var týndur í skóginum. Maður skipti leiðinni upp í litla hluta og setti fókusinn í að klára eitt verkefni af öðru og smám saman komst maður í gegnum þetta. Hitinn hafði að ég tel mikil áhrif á mig í keppninni. Við vorum aðalega búnir að æfa í -5°C til 5°C og vökva inntaka er allt öðru vísi við þær aðstæður en við 25°C hita og sól. Maginn var því ekki vanur öllum þessum vökva og fór því að ég tel á hliðina.

Búnaður:
Skór: Lasportiva Helios - Léttir utanvegaskór með frábæru gripi, virkuðu fullkomnlega.
Sokkar:og stuttbuxur: CW-X  - Sokkarnir hæfalega þykkir til að verja yljarnar og úr léttu efni og héldu vel við kálfa.
Stuttbuxur: CW-X - Buxurnar héldu vel við mjaðmir og læri. Mjög þægilegt og virkar hiklaust. Vorum búnir að æfa mikið í síðbuxum sem hjálpuðu greinilega við erfiðar æfingar.
Bolur: Keppnisbolur frá 66 norður - Léttur og þægilegur bolur.
Vesti: Camelbak Circuit  - Létt hlaupavesti með 2x500ml brúsum. Hefði þurft að vera með 1,5 ml blöðruna á bakinu og 500ml brúsa að framan. Of lítill vöxvi hjá mér og greinilega vanáætlað í þessum hita. Vestið virkaði mjög vel, situr vel á manni og er sömuleiðis létt, gott aðgengi í vasa framan á því til að geyma næringu.
Stafir: Black Diamond stafir frá Fjallakofanum. Z-fold stafir um 500gr. Virkuðu mjög vel.
Gleraugu: Rudy Project gleraugu. Létt hlaupagleraugu með frábærum útskiftanlegum glerjum.
Úr: Suunto Ambit3 Run úr - Frábært hlaupa úr í svona langa túra, hægt að stilla það og fá rosalega mikið af nothæfum upplýsingum. Klikkaði á því að stilla það á aðeins lakara GPS merki sem hefði gefið mér lengra batterýs líf.

Næring:
GU Energy og Clif bar gel. Næringar áætlunin gekk útá að taka gel á 30 mín fresti fyrir utan fyrstu tvö með 45 mín á milli. Tók einnig eitt um 15 mín fyrir hlaup. Var með vatn í einum brúsa og orkudrykk í öðrum. Byrjaði að taka Koffínlaus gel en á 4-5 geli fór ég að taka koffín gelin. Voru með fullt af bragðtegundum til að velja úr og fínt að ná að velja sér aðeins hvaða bragð manni langaði í. Tók svo í lokin 2 Clif bar hlaupkalla en hefði þurft að pína mig í að taka meiri okru á síðasta leggnum, sömuleiðis á seinni hlutanum á legg 3. Búnir að æfa vel með þessum gelum og þau gjörsamlega nauðsynleg í svona löngum æfingum og hlaupum. GU gelin hafa einnig reynst mér ótrúlega vel í Laugaveginum og á æfingum.

Þetta var í alla staði alveg ótrúleg lífsreynsla. Bara það að fara út í keppni fyrir Íslands hönd var óendanlegur heiður og eitthvað sem ég hafð aldrei áður dottið í hug að ég myndi gera. Maður æfði meira en áður og það var mjög svo auðvelt að halda aga í erfiðustu aðstæðum því maður vissi að þetta tækifæri er eitthvað sem kemur ekki oft á ævinni. Stuðningurinn sem ég fékk heimafyrir var alveg frábær. Anna studdi mig alveg ótrúlega vel, hjálpað mikið að vita að maður var með fjölskylduna 100% á bakvið sig í þessu öllu. Mamma og pabbi og tengdó voru svo mjög dugleg að passa strákana svo maður kæmist í allar þessar æfingar og var sá stuðningur einnig óendanlega góður. Vil svo einnig þakka strákunum fyrir frábæra ferð. Sævar stóð sig eins og hetja sem liðsstjóri og alveg ómetanlegt að hafa hann í brautinni að hjálpa til. Sömuleiðis voru Guðni og Tobbi frábærir félagar og heiður að fá að hlaupa með þeim.

Hérna er svo hlaupið í Strava:


Takk fyrir mig
Örvar