Sýnir færslur með efnisorðinu Jökulsárhlaupið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Jökulsárhlaupið. Sýna allar færslur

10.8.13

Keppnissaga: Jökulsárhlaupið 2013

Lagt var af stað um kl. 10 á föstudagsmorgni og stefnan tekin á Ásbyrgi til að taka þátt í Jökulsárhlaupinu í fyrsta skipti. Hef lengi langað að taka þátt en þetta hlaup hefur sjaldan passað inn í dagskránna og því hefur það dregist að taka þátt. Stutt stop á Akureyri til að skreppa í sund og svo vorum við komin í Ásbyrgi um kl. 18. Tjaldað í rigningu og svo var elduð þessi fína pasta kássa að hætti bróður míns. Svo var spjallað og morgundagurinn undirbúinn.
Vaknaði um kl. 7:30 og hafragrauturinn tæklaður. Fórum svo og skráðum okkur inn og fengum gögnin afhend. Vorum svo aftur mætt á svæðið rétt yfir 9 til að fara í rúturnar upp að Dettifossi. Eftir smá bið fór rútan og við tók um 1 klst akstur upp að Dettifossi. Fínt veður var í byrjun hlaups, bæði ágætlega hlýtt og svo sól á milli skýjanna. Eftir stutta upphitun kom maður sér svo fyrir í startinu.

Fór af stað í fremsta hópi. Kári Steinn tók vitanlega forustuna á fyrstu metrunum, Friðleifur var svo næstur og svo komu ég og Biggi Sævars. Ég tók framúr Bigga áður en við fórum uppá bílaplanið og á malbikaða kaflann. Það fór strax að draga á milli fremstu manna. Þegar við beygjum útaf veginum var Kári Steinn fyrstur, strax kominn vel frá Friðleifi, sem var í öðru, og ég ca. 100m á eftir honum í 3 sæti, eitthvað aðeins styttra var svo í Bigga fyrir aftan mig í 4 sæti.
Þá tók við frekar grófur kafli. Stígurinn frekar óljós á þessum kafla og mjög grýttur, maður þurfti að horfa vel í kringum sig til að fara ekki út af leið. Áfram hélt að draga á milli manna en maður hafi sjónir á Friðleifi svona 200m framar. Hægði viljandi á mér því ég vissi að ég væri ekki að fara hlaupa þetta á hraða undir 4 min/km. Fljótlega kom svo úrhellis rigning sem var nú eiginlega ekkert nema hressandi. Smá mótvindur var á þessum kafla. Áfram hélt svo svipað landlag alveg þangað til að maður fór að detta niður í Hólmatungur. 

Fór í gegnum Hólmatungur á 45:11 sem var alveg á plani. Eftir það breyttist landslagið aðeins og leiðin var meira á stígum og í fyrstu á blautum moldar stígum þar sem maður þurfti að fara varlega. Á þessum kafla þurfum maður að þvera eina á (Stallá) og ég stökk út í hana og lenti frekar illa á steini. Fann strax að hæll/yl myndu bólgna eitthvað upp við þetta en pirraði mig samt ekki mikið á meðan hlaupinu stóð. Það kom brött brekka fljótlega eftir Stallá og þá sá ég Friðleif í síðasta sinn í hlaupinu. Hann var að klára brekkuna þegar ég var við rót hennar. Þegar ég er svo kominn upp kíki ég niður og sé Bigga Sævars vera að byrja á brekkunni. Eftir þetta sá ég svo engann annan keppanda. Þá kom svo auðveldasti og mest hlaupanlegi kafli leiðarinnar. Kom svo í gegnum Vesturdal/Hljóðakletta 1:20:32 eða 35:21 frá Hólmatungum. Þarna var ég aftur eiginlega alveg á áætlun. Ég var búinn að horfa á 45:00 í Hólmatungum og 1:20:00/35:00 í Vesturdal.

Hljóp svo í gegnum Hljóðkletta og við tók svo sæmileg brekka upp Rauðhóla en hún var vel hlaupanleg. Eftir það fór svo landslagið aftur að verða erfitt. Fyrst var laus sandur og svo eftir það mjög þröng moldar kindagata. Allt sikksakkið á þessum kafla og bleytan á stígnum fór að gera manni þetta erfiðara fyrir og þá fór maður að finna fyrir þreytu. Erfitt að þurfa hægja á sér í öllum beygjum og vera forðast alla drullupollana. Þarna var einnig smá mótvindur. Gaman að koma í botn Ásbyrgis og sjá yfir svæðið. Þá breyttist landslagið aftur í grófar klappir sem maður þurfti að hoppa og klifra í gegnum. Það er nokkuð erfitt þegar lappirnar eru orðnar þreyttar, getur verið erfitt að breyta úr hlaupaskrefinu yfir í stærri stökk á milli steina. Þarna lenti ég líka nokkrum sinnum að hlaupa næstum því út úr leið en fann hana nú fljótt með að líta smá í kringum mig.
Þarna var orðið stutt eftir og maður reyndi bara að halda áfram á nokkuð þéttri keyrslu. Var búinn að sjá að ég ætti að halda ca. 4:30 pace-i til að komast þennan hluta á undir 1 klst. Þó svo að það sé stundum erfitt fyrir úrin að koma með rétta vegalengd í þessum utanvega hlaupum. Var farinn að finna til smá seiðings í kálfa og aftanílæri þegar um 1 km var í mark en það var ekkert sem tafði mann. Það var svo mjög gaman að koma inná túnið í lokin og sjá að 3. sætið var að detta í höfn og einnig að komast undir 2:20 klst. Endaði svo hlaupið á 2:19:28.
Bræðurnir í lok hlaups, JHS í 12. sæti og ég í 3. sæti


Gaman að komast á pall með Kára Steini ólympíufara sem vann hlaupið á nýju brautarmeti 2:03:54 og Friðleifi sem endaði í öðru sæti á 2:15:02, ekki amalegur félagsskapur það.

Búnaður og drykkir:
Ákvað að hafa þetta bara svipað og í Laugaveginum en sleppti þó drykkjar bakpokanum.
Skór: Brooks PureGrit. Virkuðu ekkert voða vel. Gleymdi að reima þá nógu fast á mig og var orðinn bínu sárfættur strax í byrjun á öllu sikksakkinu og hoppinu. Það voru þeir einnig nokkuð sleipir í drullunni á moldarstígunum.
Sokkar: Compressport doppu sokkar.
Kálfahlífar: CEP. Líklegast óþarfar en maður veit þó aldrei.
Stuttbuxur: Asics. Venjulegaar þröngar hlaupabuxur.
Bolur: Adidas. Léttur hlaupabolur. Fékk í fyrsta skipti smá geirvörtusár sem var nú ekkert sérstaklega gott. Slapp þó við að koma með blóðugar geirvörtur í mark :)
Gel: 3xGU gel + 1 High Five gel fyrir hlaup. Aftur virkuðu GU gelin vel. Tók fyrsta gelið aðeins fyrir Hólmatungur (40 mín), annað rétt fyrir Vatnsdal (1:15) og svo seinasta líklega um (1:45) þannig að ekki vantaði mig orkuna.
Drykkir: Sleppti drykkjar bakpokanum þar sem mér fannst aðeins og heitt að vera með hann. Stoppaði á hverri vatnsstöð og fékk mér annað hvort 1-2 glös af Powerade eða vatni, eftir því hvernig stemningin var og einnig nokkuð tilviljunarkennt hvað maður greip í flýti.
Morgunmatur: Fékk mér hefðbundinn morgunmat sem er hafragrautur með döðlum, möndlum, Chia fræjum, hnetusmjöri og banana.

Frábærlega staðið af þessu hlaupi og skemmtileg stemning í kringum það. Leiðin alveg frábær og vel merkt þar sem slóðin skiptist upp. Leiðin er mjög krefjandi og kom það aðeins á óvart hversu mikið það tekur á allt þetta sikksakk á stígunum og hopp á milli steina.
Mun mæta aftur í þetta þó svo maður nennir kannski ekki að keyra þessa vegalengd á hverju ári.