Sýnir færslur með efnisorðinu Heimsókn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Heimsókn. Sýna allar færslur

29.5.08

Heimsókn á morgun

Sól og blíða hér í Þrándheimi þessa dagana, veðrið hér í Noregi tekur aldeilis vel á móti mömmu og pabba. Þau koma í eina af styðstu heimsóknum sem sögur fara af. Þetta detta nefnilega til Þrándheims í tæpa 4 klst á morgun. Ekki er ferðin skipulögð með þeim tilgangi að hitta okkur heldur að sigla strandlengju Noregs með Hurtigruten. En aftur á móti verður rosalega gaman að hitta þau og verður gaman hjá Kára að hitta ömmu og afa.

En talandi um Kára, það er eitthvað mismunandi hvað drengur sefur lengi. Eftir helgina hefur hann verið að sofa lengur en vanalega. Þurfti t.d. að vekja minn mann í gær um kl. 7:45 til að komast í skólann á skikkanlegum tíma. En þá var þessi mynd einmitt tekin.
Í morgun var svo annað upp á teningnum, minn maður kominn framúr kl. 6:40 að hjálpa mömmu sinni að taka sig til fyrir vinnuna. Eitthvað var húsföðurinn þreyttur og nennti því ekki framúr, þegar Anna fór svo í vinnuna kemur minn maður með Ensk/Norska vasaorðabók og vill að ég lesi fyrir hann. Það var minnsta málið og við feðgarnir lágum upp í rúmi og ég las Ensk/Norska orðabók fyrir hann, þó svo að ég hafi sagt barbapabba sögu en það er annað mál.

Já maður gerir ýmislegt til að fá að hanga lengur upp í rúmi.

13.5.08

Komin og farin

Frændsystkinin Hrefna og Kári að skoða Voll gård í Þrándheimi

Kiddi, Laufey og Hrefna Rán komin og farin. Frábært að fá þau í heimsókn og veðrið skartaði sínu allra flottasta á meðan dvöl þeirra stóð yfir. Margt var brallað með þeim á meðan þau voru hérna. Helstu túrista staðir Þrándheims voru skoðaðir, farið í miklar göngur um bæinn og ekki síst legið fyrir fram húsið í sólbaði á meðan að börnin voru að leika sér. Það var reyndar einhver kvef drulla í mér allan tímann og er maður loksins að losna við þann horbjóð, ekki að maður hafi látið það aftra sér eitthvað, maður er soddann nagli.

Frábært að sjá frændsystkinin leika sér saman, leiðast og faðmast.

Kiddi að tjilla með einn kaldann á meðan kellurnar voru á búðarflakki, ef þetta væri alltaf svona.

Anna duglega búin að setja inn myndir á barnaland og mæli ég með að fólk vippi sér þangað ef það vill skoða.

Nú er lærdómurinn tekin við og verður maður í einhverju norsku móki þangað til að maður skilar þessu blessaða verkefni 16. júní. Alveg skelfilegt hvað maður er eitthvað takmarkaður þegar kemur að því að skrifa ritgerð á norsku. En ég var í sjálfu sér búinn að vara leiðbeinandann minn við því að búast ekki við einhverju stórvirki í norskum bókmenntum.

6.5.08

Besøk fra Island

Ekki mikið að frétta héðan úr Þrándheimi þessa dagana. Ég er á fullu að vinna í meistaraverkefninu mínu. Sit heima alla daga og skrifa og vinn í "forritinu" sem ég er að búa til. Maður er ekkert sá allra fljótasti að skrifa norskuna en þetta gengur alveg. Leiðbeinandinn minn var allavega ánægður með forritið þegar ég talaði við hann seinast en auðvitað þarf maður alltaf að gera einhverjar breytingar og bæta við, held að maður geti verið að dúlla sér í þessu endalaust.

Anna er búinn að vera mikið í vinnunni undanfarið, búin að vinna seinustu tvær helgar og einnig á frídaginn 1. maí. Hún var að vinna um þar seinustu helgi og svo einnig um helgina til að vinna sér inn tvo auka frídaga þegar Kiddi, Laufey og Hrefna Rán koma í heimsókn.

Sem sagt ég og Kári að dúlla okkur saman um helgar og svo er Anna dugleg að vera með hann þegar hann er búinn á leikskólanum svo maður geti lært aðeins lengur.

En að máli málanna. Kiddi, Laufey og Hrefna Rán eru að koma í heimsókn til okkar og ætla að vera frá þriðjudegi til sunnudags. Anna er í þessum töluðu orðum að ná í þau út á flugvöll og ég var að enda við að gera allt fínt í HK-30. Það er stundum gott að vera í lítilli íbúð, þá er maður ansi fljótur að þrífa hana.

Þannig að það eru skemmtilegir dagar framundan hjá okkur og býst ég ekki við að láta mikið í mér heyra á þessum vettvangi þangað til þau fljúga heim.

Eitt í viðbót. Eins og sést á myndunum sem fylgja þessari færslu þá voru foreldrarnir komnir með leið á stjórnlausa hárinu á drengnum. Í gærkvöldi var því rakvélin tekin fram og rennt yfir hárið og erum við bara mjög ánægð með útkomuna.

Vonum Kára vegna að skipt í miðju tískan komu ekki aftur svo hann þurfi nú ekki að ganga í gegnum það vandræða tímabil eins og pabbi hans.

19.4.08

Heimsókn nr. 5/6

Held það sé kominn tími á að láta heyra aðeins frá sér.

Mikið stuð að segja muuu í heimsókn á Voll gård (13.04.2008)

Tengdó voru í heimsókn í seinustu viku og fóru heim til Íslands á mánudaginn. Alltaf gaman að fá þau í heimsókn en aftur á móti var í þetta skiptið aðeins erfiðara að finna eitthvað nýtt að gera. Við fundum þó margt áhugavert sem bæði við vorum ekki búin að gera og einnig eitthvað sem átti eftir að sýna þeim.

Farið var í Vísindasafnið hérna í Þrándheimi (sem ég hafði mjög gaman af), öndunum var gefið brauð við Nidelva, Korsvika var skoðuð og svo var farið í ferð á bóndabæinn Voll gården ásamt fullt af öðru skemmtilegu.

Kári hafði mjög gaman af hafa afa sinn og ömmu í heimsókn og notaði þau óspart í að láta stjana við sig.

Anna ásamt Kára lagðist svo í veikindi og var Anna alveg off frá sunnudegi til miðvikudags á meðan Kári fékk augnsýkingu og kvef. Hressandi veikinda vetur að baki og vonandi fer þetta nú að minnka.

En góð heimsókn og næst á dagskrá eru það Kiddi, Laufey og Hrefna Rán sem koma í maí.

Ég, Anna og Kári fyrir utan bygginguna sem ég er með les aðstöðu í (miðjuglugginn vinstra megin á myndinni).

Annars er maður bara búinn að vera vinna í verkefninu og gengur það ágætlega þó svo að stressið varðandi það sé að fara stigmagnast.