Sýnir færslur með efnisorðinu Daglegt. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Daglegt. Sýna allar færslur

15.12.08

Gat á hausinn


Þá hefur enn eitt gatið bæst í hóp margra og fínna gata á hausnum mínum. Var að hjálpa í Gulaþingi um helgina. Var að setja saman IKEA skápa (enda mikill IKEA specialist) og þegar ég er svo að fara setja hurð á einn skápinn þá næ ég að reka hurðina í ljósakrónu sem brotnar og dettur beint á hausinn á mér með tilheyrandi afleiðingum. Allt í blóði og ég með gat á hausnum og nokkrar skrámur í andlitinu.
Svo var það skemmtileg bið á biðstofu Slysadeildar Landspítalans áður en sjálfur söngvari hljómsveitarinnar Dikta tók sig til og saumi eitt spor í hausinn og notaði tonnatak á rest. Svo voru deyfilyf afþökkuð til að gera þetta meira hardcore, enda er maður enginn aumingi, bara smá klaufi.

1.12.08

1. í aðventu

Helgin var alveg hin fínasta. Hrefna Rán kom í pössun á föstudaginn og var mikið stuð hjá frændsystkinunum. Hrefna bað sérstaklega um að fá að fara í pössun til Kára og því var þetta mikill heiður. Hjartað á frúnni var ekki stærra en það að hún var sótt að pabba sínum um kl. 1:30 um nóttina, honum til mikillar ánægju :)

Laugardagurinn hófst svo eins og venjulega með íþróttaskólanum. Í þetta skiptið kom Elmar Daði með og tók Kári það á sig að leiðbeina vini sínum í gegnum þrautirnar með miklum sóma. Alveg ótrúlegt hvað Kári hefur gaman af þessu. Öskraði alveg uppfyrir sig þegar han sé glitta í Smárann, "iotta-olinn" eins skýrmæltur og hann er.

Seinna um daginn var svo farið í fjölskylduferð og horft á þegar það var kveikt á jólatréinu í Hamraborginni og auðvitað horft á frú GJ syngja með Samkór Kópavogs, vona að ég hafi fengið nokkra plúsa í kladdann þar. Þá komu einnig jólasveinar og sungu nokkur vel æfð lög, Kári og börnin alveg dolfallinn yfir þessum skrítnu köllum. Eftir á var svo farið inn í Molann þar sem smá atriði úr Dýrin í Hálsaskógi var sýnt fyrir börnin og fullorðna fólkið sem fannst gott að komast úr -9°C unum.

Ég ásamt The misses fórum svo út að borða á Fiskimarkaðinn (Fish Market) í tilefni af afmæli Önnu fyrr í vikunni. Það var kominn tími til því um 3 ár eru síðan við fórum seinast tvo út að borða, já rómantíkin að drepa okkur.
En það var svo hann Gulli sem matreiddi ofaní okkur heila 9 rétti og vorum við á staðnum frá ca. 8-12. Hélt að við myndum þurfa hjólastól til að komast þarna út því matur var svo góður og svo mikið að borða og smakka. Krabba klær, Smokkfiskur, Rif, Andarsalat, Susi, Nætursaltaður Þorskur, Túnfisksteik, Hreindýr og Gæs ásamt vægast sagt frábærum eftirrétti var matseðill kvöldsins.
Held ég geti auðveldlega sagt að þetta sé það besta sem ég hef smakkað þegar maður fer út að borða og mæli ég því eindregið með Fiskmarkaðinum.

Gærdagurinn fór svo í jólaundirbúning. Jólaskrautið grafið upp úr kössum (sem erfitt var að finna) og hengt upp. Get samt nú ekki sagt að það sé komin einhver mikill jólastemmning í mannskapinn.

Set svo nokkrar myndir hérna inn frá helginni.

25.11.08

Afmælisbarn dagsins

Hún elsku Anna mín er 26 ára í dag og vildi ég að sjálfsögðu óska henni til hamingju með afmælið.


Það var haldinn afmælisveisla í tilefni dagsins í gær í H23 þar sem plássið ræður ríkjum. Frúin bauð uppá dýrindis tælenska fiski súpu með uppáhalds nanbrauðinu mínu. Algjört lostæti sem gott veður að fá aftur í kvöld.

24.11.08

Hár

Hárið var klippt í gær eða snoðað í burtu. Verð alveg hryllilegur þegar ég er komin með smá lubba því í fyrsta lagi er hárið mjög erfitt meðhöndlunar og svo í örðu lagi nenni ég engan veginn að hirða það nógu vel. Því er þetta besta lausnin fyrir alla. Svo heldur Anna að ég sé að verða sköllóttur þannig að það er um að gerast að venjast þessu ;)

Annars er einn galli við þetta sem ég fattaði ekki fyrr en ég var kominn út í morgun. Nú þarf maður að fara vera með húfu undir hjálminum á leið til vinnu, því einangrunin á hausnum er ekki eins góð með 6 mm hár.

Þá var Kári alveg æstur í að ég myndi klippa hárið hans líka, þegar hann vaknaði og svo klippinguna hjá pabba sínum. Spurning hvað langaafi hans myndi segja um það.

Sá merkilegi atburður átti sér stað um helgina að ég fór í Kringluna í fyrsta skipti í rúm tvö ár (fyrir utan eitt stutt bankastopp 2007). Svo var farið í fjölskylduferð í Smáralindina og kíkja á jólaföt á drenginn. Þessi mynd var tekin af bestu vinunum Kára og Mikka mús við það tækifæri.

Það má svona benda þeim sem kíkja hér við að ég er búinn að setja inn fleiri myndir inná myndaalbúmið. Koma svo fleiri albúm / mánuðir í vikunni.
Hérna eru myndasíðan:
http://picasaweb.google.com/orvars

26.10.08

Kára fréttir

Þá ansi fínni og rólegri helgi að ljúka. Anna var/er að vinna um helgina þannig að við feðgarnir erum búnir að dunda okkur saman sem var kærkomið eftir köben ferðina.

Nú verður vikunni/helginni lýst í myndum.

Kári í nýja rúmminu sínu sem hann fékk í vikunni. Það var alveg hoppað og skoppað af ánægu með að fá nýtt stórt rúm. Tók alla bangsana sína og raðaði þeim ekkert smá flott upp í rúmminu og var alveg að missa sig honum hlakkaði svo til að fara sofa. Það endaði svo þannig að minn maður svaf í svona ca. 20% af rúmminu þvert á það, eins og myndin sýnir. Annars hefur þetta gengið mjög vel að skipta úr rimla rúmmi yfir í venjulegt. Kári hefur ekkert kvartað og aldrei tekið röltið fram eftir að hann fer að sofa. Vona að ég sé ekki að jinx að þetta núna...

Það var farið í íþróttaskóla BREIÐABLIKS á laugardaginn þar sem Kári skemmti sér mjög vel. Heimilsfaðirinn ekkert smá ángæður að drengurinn er byrjaður í Breiðabliki aðeins rétt rúmlega tveggja ára :).

Í gærdag var svo tekin sú merka ákvörðun að senda drenginn í klippingu og var það bara gamla góða heimilisvélin notuð. Kári sat sallarólegur og horfði á sjónvarið á meðan fögru lokkarnir voru klipptir af. Þannig að nú þarf maður ekki að berjast við drenginn að greiða honum á morgnanna í smá tíma. Ég vorkenni honum bara þegar skipt í miðju tískan kemur aftur...

Ég og Kári fórum í heimsókn til Guðrúnar frænku í morgun upp í snjóríkið við Elliðarvatn. Það var mikið fjör hjá þeim frændsystkinum á Stiga sleðanum hennar Guðrúnar og skiptust við bræðurnir að vera toglyftan.
Fjörið tók svo snöggan endi þegar Kári rallýökumaður tók góða vinkilbeygju úr leið og andaði með því að frændsystkinin skutust af sleðanum beint ofan í snjóskafl eftir að hafa klesst á stóran stein. Sem betur fer fór allt vel þó svo að börnum og feðrum hafi verið smá brugðið. En ætli þessu svaðilför dæmist ekki á mig og svo vil ég nú kenna 2 ára barninu mínu smá um :)

Er svo búinn að klóra mig í gegnum það að merkja og skrifa við allar myndirnar frá Köben. Þær eru hérna:
http://picasaweb.google.com/orvars/2008KBen02#

23.10.08

Note to Myself

Ekki reyna að beygja þegar þú ert að hjóla niður bratta brekku í snjó og slabbi, það er vont að detta á hjólinu.

Eins gott og gaman það yfirleitt er að hjóla í og úr vinnunni þá flokkast þessi morgun ásamt mánudeginum með þeim leiðinlegri. Slydda og snjór er ekki vinur hjólreiðamannsins.

10.9.08

Maður er bara svo busy...

Nú verður maður að fara að gíra sig upp í þessum blogg bransa áður en maður verður laminn af blogg þyrstum lýðnum. Anna er líka búinn að fá nokkrar lífshótanir fyrir myndaleysi á barnalandinu.

Það er nú bara þannig að maður hefur verið eitthvað mikið upptekin frá því að maður kom heim. Hvort sem það er í heimsóknum, vinnu, ferðalögum, hlaupum eða að koma sér fyrir, þá hefur ekki verið neitt alltof mikinn tími eftir. Svo er Anna byrjuð aftur í handbolta og er það nú efni í póst út af fyrir sig (fötum út í það seinna).

Það spilar einnig inní málið að nú erum við ekki lengur með borðtölvu sem alltaf er kveikt er á og alltaf nettengd. Nú erum við bara með fartölvuna og er netið nokkuð mikið að detta út í henni. Þetta skýrir myndaleysið á barnalandi þar sem það kerfi sem barnaland bíður uppá er vægast sagt glatað þá hefur Anna reynt eitthvað að setja myndir inn og svo dettur allt út þegar netið dettur út í 5 sek, eins hressandi og það er þá nennir fólk ekki að standa í þannig mausi.

En nú þegar fer að hausta þá hefur maður alltaf einhvernveginn meiri tíma á kvöldin og þá vonandi hefur maður einhvern tíma til að blogg og henda myndum inná veraldarvefinn.

Á maður ekki að segja þetta gott í bili

1.8.08

Stór fjárfesting

Það voru gerð stórinnkaup fyrir heimilið í gær. Húsbóndinn skrapp í Elko og keypti eitt stykki ísskáp eða réttara sagt kæli- og frystiskáp. Þar sem maður var farinn að þurfa að vera með heyrnarhlífar vegna láta í ísskápnum þá var alveg kominn tími á að kveðja gamla góða Candy ískápinn sem ég fékk ókeypis frá vinkonu mömmu fyrir ca. 8 árum. Erfitt fyrir mig sem Liverpool maður að kveðja Candy ísskápinn en allt tekur einhvertíman enda og í staðinn verður bara Calsberg bjór í ísskápnum.

Fyrir valinu far útlitsgallaður Electrolux ískápur af gerðinni ERB34321X svo allir séu með þetta alveg á hreinu. Þar sem við erum yfirleitt með fullt af myndum á ísskápnum þá er það í góðu lagi að hafa rispu á framhliðinni þar sem henni verður hvort sem er kaffært í myndum.

Smá tækniupplýsingar:
175 cm stálskápur með anti-fingrafarahúð. Kæliskápurinn er 223 lítra, innréttaður með 4 rimlahillum og 2 stórum og djúpum grænmetiskúffum. Frystirinn er 92 lítra með 3 skúffum.

Þar hafi þið það.

31.7.08

Litla frænka

Það kom þá loksins að því að maður nennir að blogga smá.

Margrét og Jón Haukur eignuðust í gær aðra stelpu og er mikil hamingja í fjölskyldunni með það. Þannig að núna er Guðrún orðin stóra systir, Kári stóri frændi og mamma og pabbi komin með þrjú barnabörn.
En til hamingju með stelpuna ykkar og okkur hlakkar til að koma í heimsókn.

Anna er búinn að vera í fríi og er því alltaf með Kára í fullri skemmtidagskrá. Guðrún frænka er búin að vera dugleg að koma í heimsókn og ná þau frændsystkinin alveg frábærlega vel saman. Alltaf mikið fjör þegar þau hittast og ekki var það minna í gær þegar Guðrún var í pössun á meðan foreldrarnir og litla systir voru uppá fæðingardeild. Enda Kári mikil félagsvera og skemmtir sér best í leik með öðrum börnum.

En leikskólastrákurinn Kári kemst ekki inná leikskóla fyrr en í byrjun september þannig að það verður gríðarlegur hressleiki að brúa bilið milli þess og þegar Anna fer að vinna (sem er 5. ágúst). Þannig að ef einhver vill fá drenginn lánaðann í ágúst ætti að vera lítið mál að redda því ;)

Annars er bara búið að vera mjög mikið að gera síðan við komum heim. Mikið út úr bænum og svo einnig að koma sér fyrir í Hlíðarhjallanum. Komin alveg með nóg af því að skrúfa IKEA húsgögn saman en þetta er samt allt að koma.

Læt þetta duga í bili og sjáum svo til hvað maður nennir að vera duglegur á þessum vettvangi.

10.7.08

22.6.08

Seinsta bloggið frá Noregi

Það er búið að vera nóg að gera undanfarna daga. Skilaði verkefninu 16. júní og eftir það fór maður strax í að undurbúa heimför. Við erum búin að vera vera þrífa allt hátt og lágt undanfarna daga með því að pakka því sem á að fara heim. Það varð því einhvernveginn lítil "ég er búinn með mitt nám" tilfinning útaf flutningum og tilhlökkun í að koma heim.

Ég og Stebbi keyrðum svo til Olsó með gjörsamlega stútfullan sendiferðabíl á fimmtudaginn 19. júní. Bílinn var reyndar það fullur að við þurfum líka bílinn hans Stebba til að koma dótinu fyrir og hafðist það með naumindum. Mikið stuð að keyra til Osló og til baka ca. 1000 km. Ég hélt að ég væri að missa vitið þegar ég var fastur fyrir aftan einhvern flutningabíl í ca. 100 km án þess að komast framúr honum. Norskir vegir með öll sín tré eru ekki að gera gott mót þegar kemur að því að reyna að sjá eitthvað lengra en ca. 50 framfyrir sig. En allt gekk þó þetta vel og allt dótið er komið í gám hjá Samskip (takk Gummi). En ég hef alveg átt fjörugri afmælisdaga en þetta (þeas að keyra heim frá Osló). Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég minntur á það að ég eigi afmæli og Anna átti heiðurinn af því. Vildi líka þakka öllum sem sendu mér póst og kveðju á fésbókinni.

Anna og Kári fyrir utan Herman Kragsveg 30 á leið út á flugvöll.

Anna og Kári flugu svo til Ísland í morgun og eru þau því mætt á klakann, um að gera að panta tíma hjá Önnu ef fólk vill hitta litla manninn og fylgdar dömuna.

Eftir að hafa keyrt liðið út á völl var svo farið heim að gera allt endanlega klárt. Ég er búinn að þrífa íbúðina, pakka í bílinn og gera hjólið klárt (sem fer á toppinn á bílnum). Á reyndar eftri að koma sjónvarpinu fyrir í annars stúttfullum bíl en geri það seinna í kvöld þar sem ég sit þessa stundina og horfi á Spán vs. Ítalíu.

Á morgun er svo keyrt til Bergen og sú ferð tekur ca. 10-11 klst, það verður hressandi. Á þriðjudaginn tek ég svo Norrænu frá Bergen og kem til Íslands um kl. 12 á fimmtudaginn 26. júní. Þá er bara eftir að bruna í bæinn.

Þetta er hálf skrítin tilfinning að vera að fara frá Noregi eftir tveggja ára dvöl. Ég veit það alveg að ég mun koma til að sakna Þrándheims en á sama tíma er tilhlökkunin að koma heim mikil. Búinn að vera hér úti í 11 mánuði án þess að koma heim og það verður án efa skrítið að koma heim og sjá alltar breytingarnar.

En læt þetta duga og kveð ég því í bili.

Bless bless Þrándheimur.

9.6.08

Okur

Dr. Gunni er án efa einn mesti snillingur samtímans. Hef um nokkurt skeið verið að fylgjast með Okur síðunni hans og manni ofbýður alveg við að lesa þetta. Held það geri öllum gott að renna yfir þetta og sjá hvað sumar verslanir eru að nauðga neytendum. Ég ætla að minnsta kosti að leggja mig fram við að skoða verð í verslunum hér eftir.
Okur síða Dr. Gunna

Hérna er eitt gott dæmi:

#781 Í Vörðunni kostar eitt hjól undir Silver cross balmoral barnavagn 18.900 kr, en það minna 15.900. Vááááá þvílíkt okur... Ég þarf að setjast. Nagladekk undir 4x4 pickupinn minn kosta 14.700 kr. stykkið. Hvað er að? Fyrirgefið en vá!

Dr. Gunni fékk neytendeverðlaunin fyrir þessa síðu fyrr í ár.

4.6.08

Hamingja

Ég er alveg búinn að átta mig á hvaðan lífshamingja Íslendinga kemur frá.

Eftir því sem kaldara og ógeðslegra veður úti því betra er að vera undir sæng að sofa. Eftir því sem betra er að sofa því glaðari og betur upp lagður er maður = hamingjusamur. Ef manni er of heitt á nóttinnu þá getur maður ekki sofið eða allavega á maður erfiðara með þá yðju. Þar af leiðindum er maður úrillur og ekki vel upp lagður = óhamingjusamur.

Datt þetta bara í hug á leiðinni á klósettið áðan.

Þess ber að geta að Kári svaf illa í nótt og því svaf fjölskyldan illa. Það er samt strax komið gat í kenninguna mína því ég er bara í fínu skapi í dag. Kannski er það útaf veðrinu, hvað veit ég.

28.5.08

Endalaust partí

Maður gerir ekkert annað að vera í partíum þessa dagana.
Á fimmtudaginn var Júróvisjon partí hjá okkur (svona þar sem við héldum að við kæmumst ekki áfram).
Á laugardaginn var partí hjá Önnu norksu, þar sem íslendingar fjölmenntu í bæði grill og júróvisjon gláp.
Svo endar þetta á afmæli hjá Jóa á föstudaginn þar sem kallinn er að detta í 30 árin.
Þetta gera þrjú partí á 8 dögum, sem er bara nokkuð gott miðað við ástandið seinustu tvö ár.

Ef fólk er með Facebook getur það sé fullt af myndum úr Júrópartínu på lørdag.

Annars er það að frétta að ég eyði mestum hluta dags niðri í skóla að skrifa. Gengur ágætlega og vonast ég til að klára þetta með stæl og skila inn 16. júní.

Svo mæli ég með að fólk fari hingað og sæki nýja Sigur Rósar lagið sem er svona anskoti gott. Það heitir Gobbledigook og vona ég að þetta sé eitthvað sem koma skal fyrir nýja plötu sem kemur út 23. júní.

Hérna er svo myndbandið þar sem er fullt af sprellum og júllum, svona ef þú ert mjög viðkvæmur. Annars er það í betri gæðum og heimasíðunni sem ég benti á hér fyrir ofan.



Þar hafi þið það

22.5.08

22. maí

Svona í tilefni af seinustu færslu að það sé bloggleti í gangi á þessum bænum þá...

Í dag er 22. maí og það þýðir ýmislegt:
  • Ívar Gestsson afmæli í dag, til hamingju með það.
  • Eurovision er í kvöld og verður haldið "partý" í Moholti.
  • Það er mánuður þangað til Anna og Kári koma heim á klakann.

Meira varð það ekki í bili.

15.5.08

Eftirapar

Sverrir Stormsker að blogga, hvað getur klikkað? Akkúrat ekkert. Hérna er síðan hans þar sem hann er að skjóta á Jón Ólafs.
Legg til að orðið eftirapar verði sett í orðabók.

Hér er svo ein mynd sem var tekin 2007 og ég lék mér aðeins með í Photoshop, þessi mynd ef hún hefur heppnast ætti að líkjast litlu líkani af Þrándheimi.

Annars er ég bara að skrifa...på norsk

13.5.08

Komin og farin

Frændsystkinin Hrefna og Kári að skoða Voll gård í Þrándheimi

Kiddi, Laufey og Hrefna Rán komin og farin. Frábært að fá þau í heimsókn og veðrið skartaði sínu allra flottasta á meðan dvöl þeirra stóð yfir. Margt var brallað með þeim á meðan þau voru hérna. Helstu túrista staðir Þrándheims voru skoðaðir, farið í miklar göngur um bæinn og ekki síst legið fyrir fram húsið í sólbaði á meðan að börnin voru að leika sér. Það var reyndar einhver kvef drulla í mér allan tímann og er maður loksins að losna við þann horbjóð, ekki að maður hafi látið það aftra sér eitthvað, maður er soddann nagli.

Frábært að sjá frændsystkinin leika sér saman, leiðast og faðmast.

Kiddi að tjilla með einn kaldann á meðan kellurnar voru á búðarflakki, ef þetta væri alltaf svona.

Anna duglega búin að setja inn myndir á barnaland og mæli ég með að fólk vippi sér þangað ef það vill skoða.

Nú er lærdómurinn tekin við og verður maður í einhverju norsku móki þangað til að maður skilar þessu blessaða verkefni 16. júní. Alveg skelfilegt hvað maður er eitthvað takmarkaður þegar kemur að því að skrifa ritgerð á norsku. En ég var í sjálfu sér búinn að vara leiðbeinandann minn við því að búast ekki við einhverju stórvirki í norskum bókmenntum.

6.5.08

Besøk fra Island

Ekki mikið að frétta héðan úr Þrándheimi þessa dagana. Ég er á fullu að vinna í meistaraverkefninu mínu. Sit heima alla daga og skrifa og vinn í "forritinu" sem ég er að búa til. Maður er ekkert sá allra fljótasti að skrifa norskuna en þetta gengur alveg. Leiðbeinandinn minn var allavega ánægður með forritið þegar ég talaði við hann seinast en auðvitað þarf maður alltaf að gera einhverjar breytingar og bæta við, held að maður geti verið að dúlla sér í þessu endalaust.

Anna er búinn að vera mikið í vinnunni undanfarið, búin að vinna seinustu tvær helgar og einnig á frídaginn 1. maí. Hún var að vinna um þar seinustu helgi og svo einnig um helgina til að vinna sér inn tvo auka frídaga þegar Kiddi, Laufey og Hrefna Rán koma í heimsókn.

Sem sagt ég og Kári að dúlla okkur saman um helgar og svo er Anna dugleg að vera með hann þegar hann er búinn á leikskólanum svo maður geti lært aðeins lengur.

En að máli málanna. Kiddi, Laufey og Hrefna Rán eru að koma í heimsókn til okkar og ætla að vera frá þriðjudegi til sunnudags. Anna er í þessum töluðu orðum að ná í þau út á flugvöll og ég var að enda við að gera allt fínt í HK-30. Það er stundum gott að vera í lítilli íbúð, þá er maður ansi fljótur að þrífa hana.

Þannig að það eru skemmtilegir dagar framundan hjá okkur og býst ég ekki við að láta mikið í mér heyra á þessum vettvangi þangað til þau fljúga heim.

Eitt í viðbót. Eins og sést á myndunum sem fylgja þessari færslu þá voru foreldrarnir komnir með leið á stjórnlausa hárinu á drengnum. Í gærkvöldi var því rakvélin tekin fram og rennt yfir hárið og erum við bara mjög ánægð með útkomuna.

Vonum Kára vegna að skipt í miðju tískan komu ekki aftur svo hann þurfi nú ekki að ganga í gegnum það vandræða tímabil eins og pabbi hans.

25.4.08

Gleðilegt sumar

Þá er víst komið sumar heima á Fróni. Í tilefni sumardagsins fyrsta voru grillaðar pylsur og bananar með súkkulaði úti í góða veðrinu. Veðrið er búið að vera frábært hérna í Þrándheimi alla vikuna og gaman að geta sótt Kára á leikskólann og leikið úti í góða veðrinu. Það er erfitt að draga börnin inn í svona góðu veðri og vilja flest öll börnin stoppa á rólóinum hérna fyrir utan og er því mikið líf hérna í Moholti þessa dagana.

En eins og ég sagði þá var ákveðið að nýta góða veðrið og borða "kvöldmatinn" úti. Grillaðar voru gómsætar SS pylsur og ekki var slæmt að fá grillaða banana í eftirrétt. Vonandi heldur vorið áfram að vera svona gott (þó svo að það sé spáð rigningu um helgina).

Til að nýta góða veðrið ennþá meira þá ákvað ég að fara út að hjóla í gærkvöldi. Stefnan var tekin á Bymarka og ætlaði ég að hjóla langleiðina uppá topp á Gråkallen (552 m.y.s.) sem er fjallið hérna á móti okkur í dalnum. Þessi hjóla túr var aðeins lengri en ég hélt en útsýnið var alveg frábært þegar maður var loksins kominn upp (með smá labbi). Gaman að fara út að hjóla og er þetta eitthvað sem ég ætla að reyna gera meira af þegar maður kemur heim.

En ástandið í dag er bara nokkuð gott eftir 1 klst og 56 mín. hjólatúr (með smá stoppi uppi). En djöfulli var kalt að bruna niður þessa ca. 500 metra á hjólinu án hanska. Þegar ég hélt að puttarnir væru að detta af þá tók ég uppá því að klæða mig úr sokkunum og notaði þá sem hanska, já maður getur verið sniðugur.

19.4.08

Heimsókn nr. 5/6

Held það sé kominn tími á að láta heyra aðeins frá sér.

Mikið stuð að segja muuu í heimsókn á Voll gård (13.04.2008)

Tengdó voru í heimsókn í seinustu viku og fóru heim til Íslands á mánudaginn. Alltaf gaman að fá þau í heimsókn en aftur á móti var í þetta skiptið aðeins erfiðara að finna eitthvað nýtt að gera. Við fundum þó margt áhugavert sem bæði við vorum ekki búin að gera og einnig eitthvað sem átti eftir að sýna þeim.

Farið var í Vísindasafnið hérna í Þrándheimi (sem ég hafði mjög gaman af), öndunum var gefið brauð við Nidelva, Korsvika var skoðuð og svo var farið í ferð á bóndabæinn Voll gården ásamt fullt af öðru skemmtilegu.

Kári hafði mjög gaman af hafa afa sinn og ömmu í heimsókn og notaði þau óspart í að láta stjana við sig.

Anna ásamt Kára lagðist svo í veikindi og var Anna alveg off frá sunnudegi til miðvikudags á meðan Kári fékk augnsýkingu og kvef. Hressandi veikinda vetur að baki og vonandi fer þetta nú að minnka.

En góð heimsókn og næst á dagskrá eru það Kiddi, Laufey og Hrefna Rán sem koma í maí.

Ég, Anna og Kári fyrir utan bygginguna sem ég er með les aðstöðu í (miðjuglugginn vinstra megin á myndinni).

Annars er maður bara búinn að vera vinna í verkefninu og gengur það ágætlega þó svo að stressið varðandi það sé að fara stigmagnast.