Er ekki kominn tími á að láta aðeins í sér heyra. Nú er ég búinn að fá út úr öllum prófunum og get ég því með mikilli ánægju tilkynnt það að ég hef tekið mitt síðasta próf í NTNU eða einfaldlega mitt seinasta próf, vona það allavega.
Eins og ég hef áður sagt hef ég aldrei lært eins mikið og þessa önn og voru því mikil vonbrigði að mér gekk illa í einu prófinu. Áhyggjur útaf þessu prófi hvíldu yfir manni um jólin og það var ekkert sérlega skemmtileg tilhugsun að þurfa kannski í fyrsta lagi að sækja um undanþágu til að gera meistaraverkefnið og í öðru lagi að fljúga til Þrándheims í ágúst til að taka þetta próf. Hvað þá með tilheyrandi framtíðarplönum um húsbyggingar. En svo á nýju ári komu góðu fréttirnar og þetta próf datt í hús, það hafa greinilega fleirum gengið illa eins og ég hafði reyndar heyrt.
Á reyndar eftir að fá einkunn úr verkefninu mínu (sem var eitt fag) en ég var búin að ná þessum 75% sem duga til námslána. Þannig að í fyrsta skipti á ævinni fékk ég námslán sem verður svo notað til að borga af öðru láni, lóðinni. Maður er núna kominn í skulda súpuna með öðrum landsmönnum. Þó svo að ég og Anna séum nú mjög stolt af því að hafa farið bæði í gegnum svona langt nám án lána.
Til að halda áfram í vitleysunni sit ég hérna yfir tölvunni og er alvarlega að velta því fyrir mér að eyða fyrstu krónum námslánsins í að kaupa mér fartölvu. Því að fartölvan sem ég er að vinna á er tölvan hennar Önnu sem hún keypti áður en hún byrjaði í hjúkrun og það var fyrir 5 og hálfu ári síðan (shit hvað tíminn flýgur hratt).
Ekki viss um að margir hefðu þolað eitt og hálf ár með 5 og hálfs árs tölvu. Enda er ég stundum við það að kasta tölvunni í vegginni þegar hún getur ekki verið með excel og pdf skjal ásamt kannski tónlist opið í einu. Fátt sem fer jafn mikið í taugarnar á mér og að þurfa að bíða í óratíma útaf tölvum og það vita þeir sem þekkja mig.
En er þetta ekki komið gott í bili.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli