![]() |
Ég ansi þreyttur að koma í mark í mínu fyrsta maraþoni (hlaup.is 2010) |
Eftir smá upphitun og gott spjall við nokkra félaga þá var farið af stað kl. 8:40. Ég hafði staðsett mig frekar framarlega í þetta skiptið og flaut með fremst mönnum áleiðis. Sama hversu mikið ég ætlaði mér að taka því rólega í byrjun þá fauk það út í vindinn þegar hlaupið fór af stað. Ástandið var gott og maður áttaði sig kannski ekki nægilega vel á því að það var meiri hlutinn af fólkinu í kringum mann að fara hálft maraþon en ekki heilt. Fór fyrstu tvo km á 3:58 og 4:02 min/km sem er alltof hratt sérstaklega miðað við það að ég ætlaði að hlaupa á ca. 4:40 pace. Næstu ca. 13 km, að km 15, var ég ennþá alltof hraður og með of háan púls. Var að hlaupa á ca. 4:15-4:20 min/km og með meðalpúls í kringum 167-170. Eftir þetta reyndi ég að halda púlsinum fyrir neðan 165 og hægja aðeins á mér. Þetta var auðveldara eftir að leiðir skildu við hálf maraþon hlauparana.
Endaði með að hlaupa fyrstu 10 km á 42:40 mín. og hálft maraþon á 1:31:36 og var orðin smá þreyttur eftir hálft maraþon. Rúllaði næstu km ágætlega en þegar ég var að koma inn Fossvoginn eftir ca. 25 km þá fóru lærin að stífna. Næstu 15 km voru frekar óþægilegir og þá loksins fór ég að hlaupa á ca. 4:40 min/km eins og planið var upphaflega. Þessir km þurfti maður að nota þrjóskuna til að halda áfram og það var alveg frábært að hitta mömmu og pabba eftir ca. 31km, gaf manni kraft til að halda áfram.
Næsti þröskuldur var úti á Gróttu þegar maður hljóp þvert yfir nesið með norðan áttina beint í fangið. Þar var sömuleiðis gaman að hitta Hrefnu frænku sem var sjálfboðaliði á vatnsstöð.
![]() |
Búinn með ca. 38 km og farinn að þreytast |
Ég endaði með að klára á 3:12:06 flögutíma og 3:12:10 í skottíma sem skilaði mér í 19 sæti. Það var ekkert eftir á tankinum þegar ég kom í mark en samt alveg frábært hlaup. Næst þarf maður bara að ná að taka góðan undirbúning þannig að hlaupið geti verið auðveldara. Alveg ótrúleg stemmning að hlaupa þetta hlaup og skemmtilegt að sjá allt mannlífið í kringum hlaupið.
Var svo að skoða ársbestu maraþon tímana og þar er ég líka í 19 sæti.
2 ummæli:
Flott hlaup,til hamingju.
Frábært hjá þér frændi og til hamingju!!!
Skrifa ummæli