Sýnir færslur með efnisorðinu Powerade. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Powerade. Sýna allar færslur

11.2.16

Powerade #5 - 4. sæti

Mynd af undir 40 mín hópnum. Frá vinstri. Hilmar, Sindri, xx, Biggi, Benoit, Örvar, Þórólfur og Ívar
(mynd. Powerade Vetrarhlaup)
Vikan búin að ganga vel og sömuleiðis æfingar undanfarið. Tók interval á mánudag og rólegt bæði á þriðjudag og miðvikudag. Ætlaði því að mæta sæmilega sprækur til leiks í Powerade. Ekki búinn að vera nægilega ánægður með framistöðuna í síðustu 2-3 Powerade hlaupum og langaði að gera betur núna. Var reyndar eitthvað stífur í ökklanum á miðvikudaginn og fann aðeins áfram fyrir því. Líklega létt tognun í frostinu.
Var sæmilega sprækur í upphitun og rúllaði vel og fannst ökklinn strax betri eftir 1-2 km. Frost og stilla úti og aðstæður sæmilegar. Frostinn snjór og klaki á stígum en aðeins laus sumstaðar.

Kári, Þórólfur, Valur fóru fyrstir af stað og Benoit þar rétt fyrir aftan. Ég kom svo en enginn virtist hafa elt mig og ég því einn frá byrjun. Passaði mig á því að fara ekkert of hratt af stað og var því ekkert að reyna að hanga í fremsta hóp, var alltaf með sjónir á Benoit en varð aldrei var við neinn fyrir aftan mig. Tók því rólega upp Brekkuna upp í Bakka og reyndi svo að gefa aðeins í eftir það. Loksins fannst mér ég vera að rúlla vel og ekki sprunginn eftir 3-5 km. Benoit var svona 2 ljósastaurum á undan mér og eftir því sem við komum neðar í Elliðarárdalinn því meiri nálgaðist ég hann. Átti von á því að Sindri yrði nálægt mér en heyrði aldrei í honum en hann var um 1 mín fyrir aftan mig. Þegar við vorum búnir með stokkinn og um 2,5 km eftir var ég ennþá nærri Benoit. Hélt svo áfram að reyna að minnka bilið eitthvað en gekk hægt. Fórum í gegnum undirgöngin og með um 1 km eftir var þetta komið niður í einhverja 20-30m, tók þá þetta í nokkrum áhlaupum og náði að minnka bilið. Gaf mér styrk að hafa loksins einhvern til að keppa við síðustu km í hlaupinu. Þegar um 300-400m voru eftir tók ég svo góðan sprett og náði að fara framúr og skilja Benoit eftir. Hljóp svo þétt í mark án þess að Benoit reyndi að elta. Kom í mark á 37:27 sem er meira en mínútu hraðar en í síðasta mánuði. 4 sætið og ég mjög sáttur við hlaupið. Benoit hafði svo verið að drepast úr hlaupasting sem var að valda honum óþægindum.
Tókum svo nokkrir saman niðurskokk.

Samanburður á milli jan og feb

14.1.16

Powerade #4 - 7. sæti

Powerade hlaup #4 í vetur og það þriðja sem ég mæti í. Var ekki nægilega sáttur með hvernig gekk í desember en er búinn að æfa vel síðan þá. Vildi ekki vera að hvíla mig neitt of mikið fyrir þetta hlaup og tók því góða æfingu í gær og endaði svo óvænt á skíðum í 2 klst í gærkvöldi. Kannski ekki besti undirbúningur í heimi en fínt að nota þetta sem góða æfingu í staðinn.

Alveg rosalega kalt úti en nánast logn, þegar ég var að keyra niðureftir stóð -12°C á bílnum og ég gæti alveg trúað að það var nærri lagi. Tók upphitun sem gerði lítið að hita mann upp, aðstæður sæmilegar miðað við janúar hlaup, stígar með smá snjó á en sæmilegt grip.
Kári Steinn, Guðni, Valur og Þórólfur fóru af stað í fyrsta hóp en í þeim næsta voru Benoit, Sindri og ég. Eftir 2km lét ég Benoit fara enda hann búinn að vera að vinna mig undanfarið ég og Sindri hlupum saman upp í Fellin en hann var talsvert ferskari og fór á undan mér, síðan fjarlægðust þeir tvær hægt og rólega en sá lengst af í Sindra. Fannst kuldinn hafa talsverð áhrif og svo fann ég fyrir þreytu í löppunum frekar fljótlega, eftir Indjánagils brekkuna fór ég aðeins að finna fyrir í kálfanum og hægði þá aðeins á mér. Vegurinn hjá Rafstöðinni var hræðilegur og ekkert grip þar, Rafstöðvarbrekkan var þó sæmileg. Þreyttur í lærunum eftir hana og rúllaði í mark sæmilega þétt, enginn til að ná og enginn að fara ná mér og var því nokkuð rólegur.

Hefði viljað komast hraðar en kannski ekki við öðru að búast þegar maður hvílir ekki markvisst fyrir keppni, en góð æfing og ekkert að stressa mig á tímanum. Nú er bara halda áfram að hafa smá stöðuleika í æfingum og þá kemur þetta allt saman á endanum.

Endaði á 38:30 og í 7. sæti. Kári Steinn í fyrsta, Guðni í öðru, Þórólfur í þriðja, Valur í fjórða, Benoit í fimmta og Sindri í sjötta. Ívar Trausta kom svo á eftir mér í mark.
Alltaf gaman að taka þátt og hitta hlaupafélaga. Þarf að vera duglegri að keppa oftar í ár.


8.10.15

Powerade vetrarhlaup #1

Fyrsta Powerade hlaup vetrarins var í kvöld. Frábært veður, hiti um 1-3°C og nánast logn. Tók létta upphitun í myrkrinu og mætti svo á startlínuna. Svo virðist sem að nánast allir bestu hlauparar landsins voru mættir í kvöld í að ég myndi halda eitt mest "competitive" hlaup ársins í 10km. Kári Steinn, Sæmi, Guðni, Valur, Bjössi Margeirs, Benoit, Þórólfur, Sigurjón, Reynir og margir fleiri sem eiga tíma undir og í kringum 35 mín.

Fór hratt af stað með fremsta hóp. Kári, Sæmi, Guðni og Valur á undan mér, eftir um 1 km sló ég aðeins af og þegar verið fórum yfir brúna við Breiðholtsbraut þá voru Hugi og Benoit komnir við mig. Hélt þeim fyrir aftan mig upp að Suðurfelli en svo komu þeir framúr mér og náði ekki að halda í við þá. Þeir fóru því hægt og rólega framúr en ég hélt sæmilega dampi. Var nokkuð hár í púls og því lítið að hægt að gera en að halda áfram. Heyrði svo aldrei eða varð var við neinn fyrir aftan mig alla leið niður að stokkinum. Þegar við erum komnir hjá gamla Boot Camp þá sá ég einhverja fyrir aftan mig, sýndist ég sjá Sigurjón og átti sömuleiðis von á að Þórólfur væri ekki langt frá. Reyndi að minnka forskotið á Benoit og Huga upp rafstöðvarbrekkuna en það tóks ekki og bilið hélt alveg þar til í lokin. Kom því í mark á mínum öðrum besta tíma í Poweradehlaupi 36:25.

Er í mínu besta formi og því svekkjandi að ná ekki betri tíma en þetta. En þar sem það er langt síðan að maður tók hraðaæfingar og tæplega 2 vikur frá maraþoni þá er það kannski skiljanlegt. Október verður svo tekinn rólega til að ná góðri hvíld fyrir næsta tímabil. En gaman að taka þátt í Powerade og stefnan tekin á að reyna að mæta í þessi hlaup í vetur.


9.10.14

Powerade 2014-2015 #1

PB í Powerade um að ég held meira en 1 mín. Var í 6. sæti og 4. af Íslendingum. Kjör aðstæður í dalnum í kvöld, mjög lítill vindur, auðir stígar og um 5°C.
Búinn að vera að vinna aðeins í að bæta hraðann í haust og því fínt að mæta og taka smá powerade test.
Mjög gaman að sjá hvað margir voru mættir og gaman að sjá fullt af gamla liðinu var mætt aftur. Reynir, Guðmundur Guðna, Siggi Tomm, Jósep og aðrar hetjur.

Fór af stað með fyrsta hóp, Kári fyrstur, svo tveir norðmenn, Arnar Péturs, ég og Friðleifur. Kári fljótur að stinga af út í myrkrið og norðmennirnir eitthvað að reyna að elta hann. Ég var svo stutt á eftir Arnari fyrsta km áður en hann fór að gefa í. Ég og Friðleifur vorum saman fyrstu 2 km og svo fór hann aðeins og auka eða ég að gefa smá eftir. Hann jók svo bilið hægt og rólega. Var með hann í augnsýn að rafstöðvarbrekkunni.
Leið nokkuð vel allan tímann og fann mig vel, var léttur á mér og náði að rúlla þetta vel. Hægðist aðeins á manni neðst í dalnum og í rafstöðvarbrekkunni en gat svo keyrt aðeins hraðann upp í lokin þó svo að það hafi ekki verið neinn að keppa við. Datt samt í hug að ég væri að ná mínum PB í Powerade. Var lítil keppni enda Friðleifur of langt á undan og svo heyrði maður aldrei í neinum fyrir aftan sig.

Kom í mark á 36:23 mín sem er minn 3 besti 10 km tími að ég held. Mjög sáttur við þetta hlaup og PB í Powerade.

15.4.14

Esja nr. 1 2014

Fyrsta Esja ársins 2014. Var mættur við Esjumela um kl. 6:45. Tók létta upphitun frá Esjumelum að rótum Esjunnar um 1,5 km. Svo var farið beint upp. Veðrið var fínt, smá vindur og blautt úti en engin rigning/snjór. Fínt færi framan af og tveir skaflar nokkuð neðarlega. Fór hægra megin upp og þegar maður þveraði veginn fór að vera mikil ísing þannig að það fór að verða frekar hált á steinunum. Gerði mitt besta að komast upp á skikkanlegum tíma en endaði á 33:14 mín sem er ekkert alltof gott. Fór svo frekar varlega niður sökum hálku en gat gefið aðeins í þegar maður kom neðar, 18:42 niður.
Frábært að vera mættur aftur á Esjuna og finnst það alveg frábær æfing að "hlaupa" þarna upp.
10 km á 1:09 klst.