Flugum út til Boston á laugardeginum og tókum því nokkuð
rólega um kvöldið. Á sunnudeginum var farið á Expo-ið, númerið og annað
nauðsynlegt var sótt og svo var rölt um svæðið og hlaupadót skoðað. Gleymdi mér
aðeins í að smakka orkudrykki og annað matarkyns en hætti því fljótt því ekki
vildi ég koma maganum í uppnám daginn fyrir hlaup. Eftir Expo-ið fórum við í
skoðunarferð um bæinn og maður reyndi eftir bestu getu að taka því rólega. Fór
svo uppá hótel og tók því rólega fram að kvöldmat.
Fórum þá út að borða í North
end og enduðum á Mothers Anna‘s og fékk mér þar eins einfaldan pasta rétt og ég
gat valið. Snemma í háttinn til að vera tilbúin fyrir morgundaginn.
Vaknaði um kl. 5 og beið hálfpartinn eftir því að leggja að
stað niður að Tremont Street þar sem við Íslendingarnar ætluðum að hittast áður
en við myndum leggja af stað til Hopkinton. Boston er ekki eins og venjulegt
maraþon þar sem er hlaupinn 42,2 km hringur heldur er það frá pkt. A til pkt B
eða rétta sagt frá smábænum Hopkinton og svo er hlaupið til Boston.
Ég, Siggi, Ásgeir og Stefán vorum svo mættir kl. 6 fyrir utan bíóið og förum
svo fljótlega upp í bus-ana sem keyrðu okkur til Hopkinton. Voru komnir þar um
kl. 7 og tókum því rólega í skugganum og undirbjuggum okkur svo fyrir átökin. Fékk
mér tvær hnetusmjörs samlokur í rútunni og drakk smá af vatni og orkudrykk. Sólin
skein og hitinn var kominn upp fyrir 20°C þarna um morguninn og átti bara eftir
að aukast. Fékk mér svo banana og nartaði í eina tóma beyglu á íþróttasvæðinu.
Ég og Siggi fórum svo að skila dótinu okkar og tókum létta upphitun. Þá loksins
áttaði maður sig á því hversu mikill hitinn var og hvernig það væri að hlaupa í
þessum hita. Fórum svo og röltum í átt að start-svæðinu og komum okkur í okkar bás.
Svo var beðið með eftirvæntingu þangað til að flautan gall og mann hafið fór af
stað.
Alveg sama þó að allir skipuleggjendur í hlaupinu og aðrir
fjölmiðlar voru að hamra á því að enginn ætti að reyna að hlaupa á sínum besta
tíma (PR) útaf miklum hita sem var spáð á mánudeginum, þá var nú erfitt að gefa
markmiðið alveg upp á bátinn. Var búinn að æfa mikið á 4:00 maraþon hraða og í
lokin fór ég í 3:55 hraða. Þetta myndi skila manni í mark á ca. 2:45-2:49 klst.
Markmiðið var því að komast undir 2:50
og lágmark fannst manni að ná sínum besta tíma eða undir 2:55:13 sem ég átti úr
Vormaraþoninu í fyrra (þó svo að sú braut hafi líklegast verið aðeins of
stutt). Það var því ákveðið að reyna að keyra út á ca. 4:00 pace-i og sjá hvað
maður myndi endast í hitanum. Maður var ekki beint vanur að hlaupa í hátt í
30°C hita.
1km – 15km
Startið var þröngt og vorum við Siggi nokkuð framarlega því í fyrstu bylgju
vorum við í bás 2 af 9 og svo elítan fremst. Vorum því innan við mínútu að
komast yfir byrjunarlínuna og þá hófst fjörið. Brautin byrjar á frekar brattri
brekku niðurámóti og smá erfitt að komast í takt í svona mannþröng. Fyrstu 15
km eru að mestu niðurhallandi og var maður því að passa sig að fara ekki of
hratt á þessum kafla. Þessir 15 km gengu fínt og ég og Siggi vorum að hlaupa
þetta saman á ca. Sub. 4:00 pace-i og gekk fínt að halda hraða þrátt fyrir
hitann. Þarna var mjög þétta á milli manna og mikið um sikk sakk til að komast
fram hjá mönnum, sérstaklega þegar komu litlar brekkur. Það hægði yfirleitt á
manni hjá vatnsstöðunum sem voru á 1 mílu fresti. Þá þurfti maður að passa sig
að komast sér í sæmilega stöðu til að ná í sér Gatorade og svo vatn seinna á
vatnsstöðinni.
Maður kom sér fljótlega upp í rútínu að ná sér fyrst í Gatorade, reyndi að
drekka slatta af því og svo eitt vatnsglas yfir sig til að kæla og svo annað
til að fá sér smá að drekka. Gekk stundum ekki og þá gat maður náð stöðinni sem
var á hinni hlið vegarins.
Tímarnir:
5km á 19:44 (3:57)
10km á 29:38 (5km á 19:54 / 3:59)
15 km á 59:51 (5km á 20:13 / 4:03).
Þarna hélt ég að við værum vel undir 4 pace-i en skv. official klukkunni þá var
þetta hraðinn á okkur og þarf maður að passa sig á gps vs. raunlengd. Held að
maður þurfti að vera ca. 3 sekúndum hraðari en gps-ið segir til að vera á
réttum hraða.
15km – 25km
Næstu 10km voru svo nokkuð sléttur kafli. Þegar það fór svo að sléttast úr
brautinni þá misstum við aðeins hraðann og maður þurfti að hafa aðeins meira
fyrir því að halda hraða. Eftir ca. 17km þá fannst mér við farnir að vera full
hægir og gaf aðeins í til að vera nær 4:00 pace-inu þó svo ég hafi verið aðeins
yfir því, fannst það samt í lagi útaf hitanum og vildi ekki ofgera hraðann í
fyrri hlutanum. Gekk samt ágætlega upp í 20km á 1:20:03 (5km á 20:12 / 4:02). Fór
svo í gegnum hálft á 1:24:26 og ennþá allt í góð en lærin farin að þyngjast
aðeins.
Náði að halda hraðanum sæmilega upp í 25 km og fór í gegnum þá á 1:40:20 (5km
20:17 / 4:03). Þarna var maður búinn að rúlla ca. 10 km á nokkuð sléttri braut
en fyrstu 15 km tóku greinilega nokkuð vel úr lærunum og þarna var maður kominn
á ca. lægst pkt. í brautinni. Tímarnir:
20km á 1:20:03 (5km á 20:12 / 4:02)
21,1km á 1:24:26.
25km á 1:40:20 (5km 20:17 / 4:03)
25km-33km
Var mikið búinn að hugsa um að komast upp í 25km með lærin í lagi því þarna
taka við 8-9 km af rúllandi hæðum sem endar með sjálfri Heartbreak Hill. Var
svona sæmilega sáttur við lærin þó svo þau hafi verið farin að þyngjast. Gekk
fínt að hlaupa og var að fara mikið framúr mikið frá ca. 20km til 30km. Fannst
brekkurnar ganga sæmilega en lærin farin að þyngjast og hitinn farinn að hafa
mikil áhrif. Fékk á þessum kafla fyrstu klakana sem voru algjör guðsgjöf. Fór
30 km á 2:01:26 eða 5km á 21:06 / 4:13. Mikið af brekkum á þessum kafla og
fannst ég fljóta með straumnum en var greinilega að missa hraðann.
Það var samt á þessum legg þar sem hitinn orðinn gjörsamlega steikjandi og
maður var hættur að spá mikið í á hvaða hraða maður væri að fara heldur var
maður þarna kominn í hálfgert survival mode og ætlaði bara að reyna að klára
þetta sæmilega.
Áfram hélt maður, lærin orðin nokkuð vel steikt og farið að hægjast á manni.
Var alveg viss þegar ég var kominn upp í 32 km að Heartbreak Hill væri lokið en
svo kom önnur brekka og það slóg nokkuð á mann. Þessar rúllandi brekkur fóru
nokkuð illa með mann og fannst mér niður kaflinn á þeim yfirleitt verri heldur
en sjálf brekkan. Þrátt fyrir að lesa mikið um brautina þá held ég að maður
hafi samt farið of hratt af stað og ég hefði þurft að eiga meira inni til að
tækla þessar brekkur.
Efst uppi á Heartbreak í 33km kom svo Siggi framúr mér og leit mjög vel út, hann kastaði á mig kveðju og
ég sagði honum að lærin voru í steik og reyndi að gera mitt besta. Svo hljóp ég
niður Heartbreak Hill brekkuna og það var virkilega vont. Nokkuð löng brekka
sem för illa með lærin sem voru fyrir orðin vel þreytt. Hitinn var ekkert að
minnka og var maður kominn í nokkuð skrýtið ástand alveg að sálast úr hita og
lærin að drepa mig. Fór í gegnum 35km á 2:22:42 eða 5km á 21:16 / 4:15.
35km á 2:22:42 eða 5km á 21:16 / 4:15
33km - 42,2km
Eftir Heartbreak Hill er restin af brautinni nokkuð niðurhallandi og slétt en
alltaf einstaka hækkun. Hitinn orðinn ógeðslegur og lærin í steik og áfram
skrölti maður þó, það var svo í ca. 38km sem maður var gjörsamlega að sálast og
þá var tekin mjög erfið andleg ákvörðun og það var að labba. Þurfti að labba
smá til að ná áttum og reyna að þola sársaukann í löppunum. Allt troðið af
fólki að styðja og alveg ömurlegt að þurfa að labba, reyndi að fara af stað
eins fljótt og ég gat. Þarna voru margir í sömu sporum og ég en samt margir að
fara framúr. Kláraði svo 40km á 2:45:39 eða 5km á 22:57 / 4:35. Held að þetta
hafi verið versti kaflinn fyrir mig í hlaupinu, að eiga 8-9km eftir og vera að
sálast í löppunum er ekki góð skemmtun, eftir því sem styttist því betra er það
og reyndi maður ýmiskonar hugaræfingar til að koma sér í gegnum þennan kafla.
Bara 2,2 km eftir en það var alveg nóg. Þarna var maður
hættur að fylgjast með umhverfinu sínu og tók ég ekkert eftir því þegar ég fór
framhjá Fenway Park. Gekk seinustu vatnsstöðina og líka aðeins ein undirgöng
þar sem ég fékk hvatningu frá einu hlaupara og þá drattaðist ég af stað og tók
ca. seinustu míluna á hlaupum. Seinustu 5km voru í algjörum áhorfenda göngum og
alveg brjálaður stuðningur allan þennan tíma.

Þegar maður beygði svo loks inná Boylston Street þá komst maður loksins á sæmilega
siglingu. Heyrði því miður ekki í Önnu sem stóð og öskraði hvatningu til mín,
maður var líka smá „out of it“ enda með augun föst á endalínunni og maður gat
ekki beðið eftir því að klára. Reyndi samt aðeins að svipast um eftir Önnu en
nokkuð erfitt í öllum þessu mannhafi. En hávaðinn var mikill þarna og var þetta
eins og draumi að hlaupa í mark með allan þennan mannfjölda að hvetja sig
áfram. Rúllaði svo yfir endalínuna á 2:55:42 eða 4:34 pace-i seinustu 2,2km.
Gekk ekki lýst því hvað ég var ánægður að þetta sufferfest var lokið.
40km á 2:45:39 eða 5km á 22:57 / 4:35.
42,2km á 2:55:42 eða 4:34
Ég var í sæmilegu ástandi miðað við marga aðra sem voru í
kringum mig. Það voru frekar lærin sem voru að drepa mig en ekki vökva skortur.
Fékk mína medalíu, vatn og orkudrykki og fór fljótt á „family meeting area“ og
beið þar eftir Önnu.
Var að svipast um eftir Sigga en sá hann hvergi. Frétti
svo seinna um kvöldið að hann hafi fengið hitasting á 41km og finn alveg mikið
til með honum að hafa lent í því svona stutt frá markinu. En hann er heill
heilsu og komst vel frá þessu sem betur fer.
Anna fylgdi mér svo upp á hótel enda treysti hún mér ekki einum í þessu
ástandi. Svo var farið að fá sér bjór og „rölta“ um Boston. Við Íslendingarnir
hittumst svo um kvöldið og áttum gott kvöld saman og deildum okkar sögum um
þessa mögnuðu upplifun. Frábær dagur í alla staði þó svo að þetta hafi verð
alveg ógeðslega erfitt.
Var með tvær megin áhyggjur fyrir hlaupið. Sú fyrri var
hvort að lærin gætu þolað þetta niður hlaup fyrstu 15km og svo rúllandi hæðir á
8-9km kafla akkúrat á þeim tíma sem lærin hafa verið að stífna upp hjá mér.
Seinni ástæðan var hvort að maginn myndi halda allri þessari vökva inntöku sem
var nauðsynleg í þessum hita. Ég drekk vel og mikið og kannski bjargaði það mér
að byrja að labba seinustu drykkjarstöðvarnar og náði þannig vel inn að vökva á
seinustu km. En það voru enn og aftur lærin sem voru að klikka í maraþoninu hjá
mér enda ekki beint braut sem er þekkt fyrir að fara vel með þau. Held ég þufti
að nálgast næsta maraþon sem öðrum hætti og breyta eitthvað æfingaáætluninni
til að fá meiri styrk í lærin.
Endaði 30 sek frá mínum besta tíma en náði þó ekki mínu markmiði. En ef maður tekur inn hitann þá er ekki hægt annað en að vera ánægður með þennan tíma.
Fékk mér eitt gel 15 mín fyrir hlaup og svo þrjú
önnur á leiðinni, seinasta um km 30 held ég. Var með tvö önnur en tók þau ekki,
ætli öll þessi Gatorade drykkja hafi ekki verið nóg til að halda uppi
orkustiginu.
Áhorfendur voru alveg magnaðir alla brautina og gerðu allt
til að hjálpa manni, dreifa appelsínum, klökum og vatni og einnig að spraut
vatni yfir keppendur til að hjálpa við að kæla. Veðrið lék við áhorfendur en
ekki keppendur, stundum er það þannig og það er ekkert sem maður getur gert í
því. Ánægður að hafa valið þetta hlaup og í lokin ánægður að hafa náð að klára
þetta hlaup á sæmilegum tíma þó svo að maður hafi ætlað sér betri tíma. En
frábært hlaup með frábæra áhorfendur, frábær borg með frábæru fólki. Maður var
að fá hamingju óskir alveg fram á miðvikudag því maður gekk um eins og asni og
fólk áttaði sig fljótt á því hvað orsakaði það...