28.2.07

Heimsókn #2

Þá er heimsókn númer tvö á árinu að detta í land. Jón Haukur, Margrét og Guðrún eru lent í Osló og vonandi að hlaupa yfir í flugvélina til Þrándheims.
Þau ætla að vera hér í viku og skoða gamla bæinn sinn, því þau bjuggu hér eitthvað í kringum 1998-2000 (man það ekki nákvæmlega). Það verður svo gaman að hitta Guðrúnu frænku sem stækkar og stækkar, verður frólegt að sjá þau frændsystkinin leika sér saman.

Við erum svo búin að leigja Hyttu uppí Oppdal og er planið að fara í alvöru skíðaferð þangað, ekki slæmt að geta skíðað frá skíðasvæðinu í Hyttuna.

26.2.07

Þorrablót

Íslendinga félagið Kjartan hélt Þorrablót fyrir Íslendingana hérna í Þrándheimi á laugardaginn. Okkur Önnu (og Kára) var boðið í kokteilboð á undan til Stebba og Hildar (sjá hægra megin á mynd). Fínt að fá sér nokkrar bjóra og snittur áður en maður mætti í þorramatinn. Anna fór svo heim en ég á Þorrablótið. Mjög gaman að komast út og hitta aðra íslendinga hérna í Noregi, þó svo maður hafi nú mest haldið sig við "gamla" kjarnann. Afrekaði það að smakka hákarl í fyrsta skipti, veit ekki afhverju ég hef verið að draga lappirnar í þeim málum því hann var eiginlega bragðlaus en menn voru reyndar að tala um að hann væri eitthvað bragðdaufur. Annars mjög skemmtilegt og vel heppnað kvöld.
Góða við þetta er að ég slapp mjög vel með sunnudaginn (ekki hægt að segja það um alla, hóst Jói, hóst...).

Nú er ég svo kominn í Tiltaksuka í skólanum sem er tveggja vikna "frí". Er reyndar eitthvað af fyrirlestrum og námskeiðum en samt mjög þægilegt að fá svona "frí". Jón Haukur, Margrét og Guðrún koma svo á miðvikudaginn og þá verður fjör...meira um það seinna.

Góða nótt

24.2.07

Sameiginlegt

Hvað eiga ég, Ronaldinho og Ronalda sameiginlegt fyrir utan að vera góðir í fótbolta?

23.2.07

Heimsókn

Vikan sem leið er búin að vera mjög skemmtileg. Kambó gegnið komu í heimsókn á laugardaginn eftir að hafa misst af vélinni í Osló á föstudagskvöldinu. Þá var farið strax á skíði og einnig á sunnudeginum. Anna kom einnig með þá og var Rut heima að passa Kára. Mjög gaman að koma loksins á skíði og er ég bara mjög ánægður með Vassfjellet sem skíðasvæði, langar og góðar brekkur og nóg af stökkbrettum.
Það var búið að vera mjög mikið frost undanfarnar vikur hérna í Þrándheimi en hitastigið virðist hafa rokið upp um leið og Kambó gengið steig upp í flugvélina til Þrándheims. Og að sjálfsögðu lækkaði það aftur þegar ég var að keyra til baka frá flugvellinum eftir að hafa skutlað Arnari útá völl. Það var svo einnig farið á skíði á miðvikudagskvöldið með Herði og þá var frostið komið aftur og var eitthvað um -14° upp í fjalli og alveg skítkalt.
Það var stíf dagskrá allan tíman sem tengdó voru hér og var náð að gera alveg fullt sem verður ekki útlistað nánar. Veislumáltíð á hverjum degi og mjög gaman að hafa þau í heimsókn.

Takk fyrir komuna, þið eruð alltaf velkomin

16.2.07

Heimsóknir

Það er von á fullt af heimsóknum til okkar hingað til Þrándheims þessa önnina. Fyrst í röðinni eru tengdó sem eiga að koma "í dag". Jón Haukur, Margrét og Guðrún koma svo 28 feb. og mamma og pabbi koma 30 mars.

Ég segi "í dag" með tengdó því þau áttu að lenda kl. 00:30 en fluginu frá Íslandi seinkaði um einhverja 2 tíma þannig að þau missa að öllum líkindum af fluginu frá Oslo til Þrándheims.
Það er vonandi að það rætist úr þessi og bæði þau og skíðin okkar komist á leiðarenda (í nótt). Leiðinlegt ef þau þurfa að gista í Osló því þetta er stutt heimsókn og sérstaklega fyrir Arnar (bróðir Önnu) sem fer til baka á mánudaginn.

Sakna skíðanna minna nokkuð og sé nokkuð eftir því að hafa ekki komið með þau núna í janúar. En sem sagt aldrei að vita nema að maður komist á skíði um helgina nema hvað að núna er auðvitað kominn hiti. Vonandi helst snjórinn samt.

Nóg að rófli í bili.

15.2.07

Kvikmyndir

Smá uppfærsla á hvað maður er búinn að vera að horfa á í DVD spilaranum, sumt gott annað ekki.

The Illusionist
Mjög góð mynd með þeim Edward Norton og Paul Giamatti. Lítið um það að segja, horfðum á hana með litlar væntingar og kom skemmtilega á óvart. Hún fær 7,7 á imdb og er ég nokkuð sammála því.
The Illusionist fær 8 stjörnur

Silent Hill
Var eitthvað að misskilja með þessa mynd. Hélt að Demi Moore léki í henni en svo var ekki. Alveg hræðilega leiðinleg hrollvekja, svona mynd sem fer í taugarnar á manni og ekki á skemmtilega hátt.
Silent Hill fær 2 stjörnur

The Last Kiss
Mér hefur alltaf fundist Zach Braff mjög skemmtilegur leikari. Hann velur bíómyndirnar vel og Scrubs eru náttúrulega snilld. En þessi mynd er svona rómantík/drama og fjallar um 29 ára mann (og vini hans) sem eru í tilvistarkreppu yfir því að þeir eru að verða 30 ára. Raunverulega sett fram maður getur alveg séð þetta gerast, mjög góð mynd.
The Last Kiss fær 7 stjörnur

Svo fara fullt fullt af myndum að fara koma út þannig að það er alltaf nóg til að horfa á.

12.2.07

Uppþvottalögur

Já það var gleðidagur í dag, fjölskyldan fór nefnilega og keypti sér nýjan uppþvottalög. Ekki nýja uppþvottavél heldur nýjan uppþvottalög, já þið lásuð rétt. Sá gamli var nú alveg ómögulegur og var fjölskyldufaðirinn á heimilinu mjög ósáttur við hann alveg frá upphafi. En nú er kominn nýr uppþvottalögur og betri tímar eru í vændum.
Ef maður reiknar dæmið aðeins og gefur sér að maður eyði 15 mín. á dag í uppvask þá gerir það 91 klst á einu ári. Þetta sýnir hvað mikilvægt er að vera með góðan uppþvottalög...

Kári aðeins erfiðari í nótt tók ca. klst um 10 leitið og svo aftur um 3:30. Þetta stóð tæpt en maður gaf sig ekki, stál taugar.

11.2.07

Mæðradagurinn

Það er mæðdragurinn í dag og ég verð að viðurkenna að þetta fór alveg framhjá mér fyrr en Anna minnti mig á það. Ekki að standa mig fyrir Kára hönd! En Kári bað mig um að setja þessa mynd af þeim mæðgininum í tilefni dagsins og skila því til hennar að hún væri besta mamma í heimi og hann elskaði hana mest í heimi. Reyndi svo einnig að vera góður við Önnu fyrir Kára hönd.

Þá vildi ég nú einnig óska móður minni til hamingju með daginn, til hamingju með daginn elsku mamma mín. Þú færð þessa mynd af syni þínum og barnabarni í tilefni dagsins.

Eins og sést á myndinni fór ég í klippingu líkt og Kári. Nú erum við feðgarnir með alveg eins klippingu. Man ekki hvort ég var búinn að tala um það hérna en Kári var sem sagt snoðaður fyrir rúmri viku síðan. Var kominn með mis sítt hár og einnig mismunandi á litinn. Ég fylgdi svo í kjölfarið um helgina og lét hárið fjúka enda var það komið á það stig að maður var farinn að þurfa að greiða sér, sem gengur náttúrulega ekki.

Kári vs. Örvar #2

Svefnátakið gekk mjög vel í nótt. Kári vaknaði tvisvar og það tók ekki nema 20 mín að sofna. Rétt yfir 6 vaknaði hann svo aftur og þá var kominn tími á að fá sér að drekka, sem hann gerði og hélt svo áfram að sofa til 8. Ég hélt að maður ætti að vera þreyttur eftir svona svefnátakshelgi en ég er nú bara úthvíldur :)

Maður má samt ekki vera of bjartsýnn. Þriðja umferð fer svo fram í kvöld.

10.2.07

Kári vs. Örvar

Já það var stórbardagi í nótt en Örvar stóð uppi sem sigurvegari kvöldsins/næturinnar. Allt snýst þetta um andlega styrk og eftir ótal píb-test og með þrjóskuna sér í liði þá er allt hægt.
Fyrir þá sem ekki fatt um hvað ég er að tala þá fóru við í svefnátak í gær, byrjaði eiginlega á föstudaginn. Kári var farinn að vakna alltof oft á nóttunni einmitt þegar hann á að fara minnka það. Þannig að nú var helgin tekin frá og málið verður afgreitt.

En stríðið er ekki búið þó að ég hafi unnið einn bardaga, lota tvö er í kvöld...

3.2.07

Ljósmyndir

Ég átti alltaf eftir að benda fólki á myndasíðuna hans Jóns Hauks (eða á ég að segja Jóns Hauks, Margrétar og Guðrúnar?).
Allavega startaði Jón Haukur síðunni eftir að ég var búinn að nöldra mikið í honum um að maður fengi aldrei að sjá myndir frá þeim. En nú er betri tíð og myndir detta inn nokkuð reglulega.

Gott framtak og alltaf gaman að geta fylgst með úr fjarska. Skiptir ekki hvort það sé verið að fylgjast með byggingarframkvæmdum, Guðrúnu frænku eða skoða myndir úr ferðalögum.

Þess má geta að Jón Haukur byrjaði að fá ljósmyndadelluna þegar hann var í grunnskóla (að ég held). Stofnaði skáta ljósmyndaklúbb og var að kenna ljósmyndun í einhverjum grunnskólum, bara svona fyrir þá sem ekki vissu þetta.

Hérna er svo linkur á síðuna:
http://jonhaukur.smugmug.com/

2.2.07

25.000

Hver verður gestur númer 25.000? Vegleg verðlaun í boði...

Það þarf að fara aðeins neðar á síðuna til að sjá teljarann sem er kominn í 24833 þegar þetta er skrifað...spennandi

Afmælisbarn dagsins

Afmælisbarn dagsins er mjög sérstakt í dag. Það er hún yndislega móðir mín, hún Guðrún Jónsdóttir, sem á afmæli í dag. Hún virðist bara yngjast með hverju árinu þó svo að hún sé orðinn tvöföld amma.

Til hamingju með afmælið elsku mamma mín, við hugsum til þín í dag. Verst að komast ekki í heimsókn og fá eitthvað gott að borða :)

1.2.07

Uppfærsla

Ennþá veikur, held ég sé bara að versna...
...djöfulsins.

Annars tek ég til baka með að Anna sé ekki að sinna mér, hún er best í heimi.

Þá er hláka í Þrándheimi í þessa dagana, samt minnkar snjórinn ekkert, bara hálka, er að spá í að fara á skautum í skólann á morgun...