31.10.06

Rosenborg meistari 2006

Fórum á Rosenborg-Viking á sunnudaginn og sáum Rosenborg vinna 4-1. Þeir tóku svo á móti meistaratitlinum við mikinn fögnuð heimamanna og okkar :)

Við fórum fyrst í pizzuboð til Jóhanns og Kittýar og svo héltum við öll á leikinn. Lerkandal Stadium er mjög flottur völlur og var alveg troð fullur á sunnudaginn í snjókomunni. Kári var mjög góður allan tíman, svaf í fyrri hálfleik og svo horfði hann áhugasamur á seinni hálfleik.

Hérna er Stefan Iverssen að skora fyrsta mark leiksins.
Viking voru aðeins betri í fyrri hálfleik en Rosenborg voru svo betri í seinni hálfleik og kláruðu leikinn með þremur mörkum í seinni hálfleik. Sungið og trallað og þetta var mjög gaman.
Mun flottari völlur en Craven Cottage sem við fórum á í fyrra.

Hérna er svo ein mynd af Rosenborg taka á móti meistaratitlinum.

29.10.06

Sunnudagur

Jæja það var tekið gott átak í að setja myndir á netið um helgina. Nú eru nýjustu myndirnar frá gærdeginum, uss hvað maður er duglegur.

Það er nefnilega þannig að þegar maður er duglegur að blogga og setja myndir á netið þá er ég jafn lélgur að læra.

Þá er von á Kareni (vinkona Önnu) og Víði Frey (syni hennar) á morgun (mánudag). Það verður mjög gaman að fá þau í heimsókn og sjá Víði Frey sem hefur örugglega stækkað heil mikið síðan við sáum hann seinast.

Erum að græja okkur upp til að fara á Rosenborg-Viking. Aðeins meira prógram þegar maður er með lítinn pjakk.

28.10.06

Tripptrapp

Aðeins fallegra vetrar/haust veður í dag eins og sést á þessari mynd.

Fórum svo í dag á flakk og fundum mjög stórt svæði af verslunarmiðstöðum þar sem gott verður að fara fyrir jólin.
Þá var keyptur Tripptrapp stóll handa Kára í fyrirfram skírnargjöf frá ömmu og afa í Hlíðarhjallanum. Eins og sést á þessari mynd var drengurinn mjög ánægður með að fá nýja stólinn. Hann náði meira að segja að sitja rólegur allan kvöldmatinn í stólnum.

Loksins komnar fleiri myndir á netið. Hérna er t.d. heimsóknin hjá m&p.
Fleiri nýjar myndir hér. Fer vonandi að komast nálægt deginum í dag með þessar myndir.

27.10.06

Snjókorn falla

Þá er fyrsti snjórinn kominn hérna í Þrándheimi. Snjóaði svona 10 cm í nótt og var allt skjanna hvítt í morgun þegar ég tók þessa mynd.
Það var nú ekkert sérstaklega auðvelt að hjóla í skólan þó svo að það felist nú aðallega í því að láta sig renna. En ekki var mikið frost þannig að fljótlega byrjaði að rigna, þó svo að veður guðirnir eiga eitthvað erfitt með að ákveða sig hvort það eigi að snjóa eða rigna.

Við létum það ekki á okkur fá og fórum í göngutúr í rigningunni og slabbinu þegar ég var loksins búin með öll verkefnin sem ég átti að skila í vikunni. Hérna er Anna og Kári fyrir ofan íbúðina okkar eftir göngutúrinn. (Íbúðin okkar er hægra megin á myndinni).

23.10.06

Áfram Rosenborg

Þó svo að fótbolta helgin hafi verið léleg í Englandi þá var hún ansi góð hérna í Noregi.
Það var nefnilega þannig að Rosenborg vann Brann 1-3 í gær og eru því komnir með 9 fingur á titilinn. Það eru tveir leikir eftir og Rosenborg er með 6 stiga mun á Brann og mun betri markatölu.
Þannig ef allt fer eftir áætlun þá tekur Rosenborg á móti titlinum sunnudaginn 29. okt.

En það má geta þess að við fjölskyldan ætlum að skella okkur á leikinn, já öll fjölskyldan, Kári og allt.
Við erum nokkrir íslendingar sem ætlum saman. Það verður örugglega ótrúleg stemmning á vellinum og ekki væri það leiðinlegt ef það tækist að landa titlinum.

Það má geta þess að eftir sumarfríið í norska boltanum hefur Rosenborg halað inn 36 af 38 stigum. Held líka að þá hafi nýr þjálfari tekið við en það er Knut Tørum, takk fyrir það.

Áfram Rosenborg, svo er það bara meistaradeildin á næsta ári :)

22.10.06

Klipping

Það var kominn tími á klippingu, vélin var tekin upp og hárið fór af.

Ákvað að gera smá gjörning úr þessu og mynda þetta og skella þessu saman í eina mynd í photoshop, svona er maður listrænn. Hanakamburinn fékk bara að vera í 5 mín.

Nú skilur maður að Jón Haukur hafi keypt sér rakvél og byrjað að snoða sig þegar hann bjó út í Þrándheimi. Anna fór og tékkaði hvað klipping kostaði og það kostaði 350 kr norskar, og þá bara fyrir klippingu. Spurning um að snoða hana líka?

Þá voru settar nýjar myndir inn, er samt ekki kominn með ferðina hjá m&p inn en þetta fer allt að gerast. Hérna er flickr.

21.10.06

Heimför

Það er komið á hreint hvenær við komum "heim" í jólafrí. Vorum að kaupa okkur miða í flug heim til Íslands í gærkvöldi.
Anna og Kári fara aðeins á undan mér eða 7. des og ég kem svo 13 des. Er búinn í prófum 12. des þannig að ég verð aðeins lengur en þau.
Þá förum við svo aftur til Noregs 9. janúar.

Þá er það komið á hreint, við erum byrjuð að taka á móti pöntunum í matarboð. Fyrstir koma fyrstir fá :)

18.10.06

Heimsóknin

Þá eru m&p komin og farin. Helgin var mjög góð og við náðum að túristast alveg helling með gamla settinu.

Þau komu sem sagt á föstudaginn og var nú lítið gert þann dag en á laugardeginum var farið í langa gönguferð niður í bæ. Þar löbbuðum við meðfram Nidelva, um gamla bæinn og fengum okkur svo að borða í Solsiden sem er gamall slippur, mjög flott svæði.
Eftir það héldum við áfram um miðbæinn og skoðuðum einnig Nidarosdomen. Ágætis afrek þetta og Kári svaf allan tíman. Um kvöldið var svo eldað lambalæri sem m&p komu með frá Íslandi.

Sunnudagurinn var nú ekki síðri í gönguferðum. Fyrst förum við gangandi Kristiansten festning og skoðuðum okkur um þetta gamla virki og náðum góðu útsýni yfir miðbæinn. Fínt að fara eitthvað sem maður hefði ekki komið áður.
Seinna um daginn var svo farið í aðra gönguferð upp að Estanstadhyttu og skoða skógin og vötnin þar í kring. Ekki var þá allur kraftur úr liðinu heldur fórum við einnig í Tyholts turninn sem er 120m hár sjónvarpsturn með veitingarstað í ca. 75m. Ætluðum að fá okkur kaffi um 5 leitið en þá var Norðmaðurinn mættur í kvöldmat þannig að við slepptum því.

Góð helgi sem var alltof fljót að líða. Fínt að fá smá frí frá skólalífinu og þetta var eins og að skreppa aðeins til útlanda, eða svona næstum því. Frábært að fá svona heimsókn.

Myndir fara svo bráðlega að koma á netið, lofa samt engu, nóg að gera í skólanum þessa dagana.

11.10.06

Mynd dagsins

Ég fékk þessa frábæru mynd senda í pósti í dag. Þarna erum við frændurnir Gummi, Örvar og Kiddi, myndarlegir ekki satt. Þakka Eyþóri kærleg fyrir þessa sendingu.

Helgin var góð hérna í Þrándheimi, á laugardaginn fórum við í helgargöngutúrinn niður í bæ og löbbuðum þar um og skoðuðum bæinn og á sunnudeginum var labbað um svæðið hérna í kring. Næsta helgi verður mjög skemmtilegt því þá er von á mömmu og pabba í heimsókn. Við ætlum að finna eitthvað skemmtilegt að gera með þeim en þau koma nú aðalega til að sjá meistarann eins og pabbi kallar Kára.

Nóg í bili.
He det bra.

8.10.06

The Whitest Boy Alive

Þá er kominn tími til að kynna ykkur fyrir góðri tónlist frá Noregi. Erlend Øye er forsprakki þessarar sveitar en fólk gæti þekkt hann frá hljómsveitinni Kings of Convenince.
Skiptir allavega ekki máli, hann kemur frá Bergen og er ótrúlega góður tónlistarmaður.

The Whitest Boy Alive gáfu út sína fyrst plötu á árin og heitir hún Dreams og hefur fengið góða dóma víða og hér er einn frá Rjómanum.
Þeir munu spila á Iceland Airwaves og mæli ég því með að allir sem ætla að kíkja þangað tékki á þessari hljómsveit.

Hérna eru nokkur lög með The Whites Boy Alive
The Whitest Boy Alive - Burning.mp3 (Mæli sérstaklega með þessu lagi)
The Whitest Boy Alive - Inflation.mp3
The Whitest Boy Alive - Don't Give Up.mp3

Endilega látið mig vita ef þetta er eitthvað fyrir ykkur...jæja farinn að læra.

7.10.06

Afmælisblogg dagsins

Kiddi (Önnu bróðir) er 27 ára í dag, til hamingju með það ungi. Ég get sko sagt þér það að 27 er góður aldur, nú förum við bráðum að toppa í fótboltaferlinum, þannig að þetta eru eðal ár.

Hérnu eru hann og Kári, sem er aðeins eins dags á þessari mynd. Þá gleymdi ég að nefna það í gær að Kári átti 2 mánaða afmæli.

Annars vorum við að koma úr tveggja tíma göngutúr niðri í miðbæ, alltaf jafn fallegt þar og mikið af mannlífi.

Til hamingju með afmælið Kiddi,
kveðja frá Örvari, Önnu og Kára.

6.10.06

Haustið

Það virðist sem haustið sé "loksins" að koma hérna í Þrándheimi. Nú er orðið kaldara á morgnana og laufin aðeins byrjuð að falla af trjánum. Þetta er nú samt ekkert í líkingu við íslenska hausið, ekki mikið um rok og rigning hérna, þó svo að það rigni nú alveg.
Það góða við þetta er að núna er þolanlegra að hjóla heim úr skólanum.

Tók þessa mynd út um eldhúsgluggan í morgun. Frábært að hafa svo flott útsýni út um eldhúsgluggan.

Þá fórum við í dag niður á skattstofuna í Þrándheimi til að fá kennitölu. Vorum búin að láta senda fluttningsvottarð að heiman til þeirra og héldum að það væri nóg til að koma ferlinu af stað en það virkar því miður ekki þannig. Þannig að núna tekur það 3-4 vikur að fá kennitölurnar og á meðan getum við ekki stofnað bankareikning né fengið lækni fyrir Kára.
En þannig er það nú bara.

Þá setti ég fullt af myndum inná myndasíðuna. Á eftir að skrifa við myndirnar en það er nú ekki hægt að gera allt í einu.

Extreme Makeover

Þá hefur síðan loksins fengið upplyftingu. Síðan er núna rauð í tilefni þess að við erum í Noregi.
Það var kominn tími á að uppfæra alla linka og ákvað ég þá í leiðinni að setja upp nýtt "look" á síðuna. Tók mig smá tíma að finna eitthvað sem mér fannst bæta síðuna og er ég nokkuð ánægður með þetta. Á reyndar eftir að gera smá lagfæringar en ekkert voðalega.

Nú er kominn linkur á Kára og einnig helstu bloggin sem ég skoða og einnig búin að uppfæra stubba linkana.

Er að setja inn comment kerfið og teljara og þá ætti þetta að vera að mestu komið. Hvað finnst ykkur um þetta?

5.10.06

Guðrún 1 árs

Til hamingju með afmælið í gær litla frænka. Guðrún Jónsdóttir er sem sagt orðin eins árs og við missum því miður af fyrsta afmælinu hennar. Hún fær þó pakka sendann til landsins.

Hérna eru frændsystkinin saman í H23 áður en Kári fór til Noregs.
Það er svo langt síðan að maður sá hana seinast og verður gaman að sjá hana um jólin hlaupandi um eins og skæruliði :)

Þá óska ég eftir því að foreldrar hennar sendi myndir af henni til okkar ekki seinna en strax. Einnig væri gaman að fá fleiri myndir af þeim tveimur saman (á sama tíma og þessi mynd var tekin). Senda þær á steingri@stud.ntnu.no :)

Segjum það í bili.

1.10.06

Kári Örvarsson

Eins og ég sagði í póstinum hérna á undan ákváðum ég og Anna nafn á strákinn okkar á mánudaginn.
Eftir smá umhugsun ákváðum við svo einnig að leyfa öðrum að fá að vita nafnið hans og höfum við verið að stríða fólki smá og láta það giska á nafn.

En eins og segir hér í fyrirsögninni heitir drengurinn Kári og erum við ótrúlega ánægð með það nafn, fer honum vel. Hérna kemur svo ein mynd af Kára með öndina sína í baði.

Þá koma fleiri myndir inn um helgina.