Miðvikudagur:Lagði af stað frá Kópavoginum fagra um kl. 20:30. Veðrið var fínt til að byrja með en þegar ég var kominn til Víkur þá var farið að dimma og einnig byrjaði að rigna en sem betur fer var það ekki langur kafli. Leiðinlegasti kaflinn var svo á milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavíkur. Þá var þoka, rigning og niðamyrkur, ekki bætti úr skák þessar helvítis rollur sem voru alltaf á veginum, var næstum því búinn að strauja á þær tvisvar sinnum. Tók svo Öxi yfir til Egilsstaða þar sem ég var kominn um kl. 4:30 og þar gisti ég nóttina.
Fimmtudagur:Eftir 3 tíma svefn vaknaði ég og lagði af stað til Seyðisfjarðar. Það var gott veður á Egilsstöðum en mikil þoka á Seyðisfirði. Ég var kominn í röðina til að fara um borð í Norrænu um kl. 9:30. Skipið lagði svo af stað um kl. 12:30 var mjög flott veður þegar skipið sigldi á brott. Var uppi á dekki þegar skipið sigldi frá Íslandi en svo fór maður að skoða skipið. Svo var lagt sig, fengið sér að borða og horft á bíómynd og farið snemma í háttinn.
Föstudagur:
Um kl. 3 var maður vakinn og sagt að maður kæmi til Færeyja eftir klst og það reyndist svo rétt. Fór því snemma framúr og var kominn á stjá í Færeyjum um kl. 5:00 á íslenskum tíma (6:00 í Færeyjum). Skoðaði mig svo um gamla bæinn og var kominn um borð í skipið áður en það lagði af stað um 8:30 á Færeyskum. Þá var ég búinn að missa klefann minn og ég átti ekki að fá svefnpokaplássið fyrr en um 22:00 um kvöldið. Dagur fór því mestur í að hanga og las ég og horfði á þrjár bíómyndir áður en við komum til Hjaltlandseyja um kl. 21:00. Mikið stuð en það sem bjargaði deginum var hlaðborðið sem ég fékk með farmiðanum, algjör klassi.
Fékk svo svefnplássið mitt sem var vægast sagt fyndið. 9 mann klefi og ég var svona án gríns innan við 50 cm frá loftinu. ipodinn kom að góðum notum við að sofna.
Laugadagur:
Nú eru örugglega allir hættir að lesa en ég ætla nú að klára þetta svona fyrir mig til að geyma þettta.
Náði að sofa í um 11 klst í sardínudósinni og var það bara nokkuð gott. Svo var farið í sturtu, lesið, borðað og horft á enn aðra bíómynd áður en við komum til Hanstholm í Danmörku um kl. 17:00 af Dönskum tíma. Þurfti að bíða frekar lengi í bílnum áður en maður komst svo loksins út og þá var ekið beint til Hirtshals um 140 km. Þar var maður svo kominn um kl. 20:30 eftir u.þ.b. 2 tíma akstur. Þá var stoppað og fengið sér einn bjór og frekar daprann hamborgara. Var svo kominn í skipið um kl. 22:30 og skipið lagið af stað um 23:00 til Noregs.
Sunnudagur:Var kominn til Larvik í Noregi um kl. 8:30 og þá var stefnan tekin beint á Oslo. Stoppaði þar og reyndi að finna hleðslutæki fyrir myndavélina en allt var lokað þar. Því hélt ég áfram og næsta stopp var svo í Lillehammer og þar ætlaði ég að fá mér að borða. Fann samt engan stað og hélt því áfram förinni, endaði svo að fá mér norska pulsu á einhverri bensín stöð í Gudbrandsdalen. Var svo loksins kominn til Þrándheims um kl. 19:00 með mikið rassæri eftir keyrslu dagsins. Frábært veður var í Þrándheimi þegar maður mætti á svæðið, sól og ca 25°C. Þá fór maður beint í að fá lykla af íbúðinni, flytja allt draslið upp og fara út í búð. Bjórinn var svo góður þegar maður loksins slappaði af og komst að því að maður kæmist á netið.
Eftir næstum því akkúrat 1500 km þá fór maður svo að sofa í íbúð 41 á Herman Krags vei 30.
Þetta var ferðasagan mikla "Örvar fer til Noregs".