31.3.08

Vor í lofti?

Eftir nokkuð kuldakast um páskana þá er farið að hlýna hér í Þrándheimi. Veðrið í dag er heiðskírt og ca. 8-10°C og ekki laust við að það sé kominn smá vor fílingur í mann, þó það eigi nú alveg örugglega eftir að koma eitthvað kuldakast í viðbót. Vorið í fyrra var ekki gott og er maður að vona eftir betra vori þetta árið. Hérna eru myndir sem teknar voru 14.04.2007 og svo viku seinna var allt á kafi aftur í snjó eins og má sjá hér.

Nú eru allir göngustígar gjörsamlega þaktir möl/sandi en vonandi fara bæjarstafsmenn Þrándheims að sópa það upp þannig að maður geti farið að bruna á öðru hundraðinu í skólann.

Um helgina komast familían á rosa útsölu í einni sportvöru verslun. Stórinnkaup voru gerð á skíðahjálmum, 3 stykki, og aðeins þurfti að leggja út 300 nkr. fyrir herlegheitin. Upphaflegt verð hefði verið nær 2600 nkr þannig að við vorum að "græða" þvílíkt. Nú þarf maður að komast allavega einu sinni í viðbót á skíði til að prufa græjurnar.

Laugardagurinn var notaður í að aðstoða Jóa, Kittý og co að flytja í Steinan. Alltaf gaman að halda á þvottavél uppá fjórðu hæð en þetta gekk fljótt af. Svo var okkur boðið í kaffi til Stebba, Hildar og co í tilefni af nýjum nágrönnum.

Svo fór maður í ekta Moholt partý/afmæli hjá Heiðu um kvöldið. Maður var spurður hægri vinstri hvernig gekk að flytja og eftir þessa síendurteknu spurningar var maður farinn að halda að fólk hefði enga trú á að ég gæti lyft nokkrum sköpuðum hlut. Sjálfálitið hlaut svo frekari hnekk þegar fólk byrjaði að gagnrýna playlistann sem ég gerði fyrir kvöldið, en hann var settur saman á ca. 1 mín og því hlaut að detta inn eitthvað væmið lag.

En þrátt fyrir endalausar árásir á mig og mína karlmennsku þá var gaman að komast út og spjalla við fólkið. Þar sem þetta var "multi cultural" partý þá þurftu maður stundum að tala á ensku en það var mjög furðulegt til að byrja með því alltaf voru að poppa upp norsk orð í huganum og var því þankagangurinn ca. svona: Íslenska - Norksa - Enska.

Upphaflega var planið að fara í bæinn en þar sem allir staðir lokuðu klukkutíma fyrr en venjulega, sökum breytinga vegna sumartíma, þá var ákveðið að sleppa því. Þannig að nú erum við hér í Noregi tveimur klukkutímum á undan Íslandi, bara svo þið vitið það.

Engin ummæli: