11.2.08

Skíði í Hafjell

Þá er maður kominn heim eftir frábært viku frí á skíðum. Eins og sagði frá hér á undan vorum við á skíðum í Hafjell í Øyer, sem er ca. 15 km norður af Lillehammer. Þetta svæði var notað á Ólympíuleikunum 1994 í Lillehammer.

Skíðasvæðið í Hafjell
Skemmtilegt svæði með fjölbreytilegum brekkum. Mikið af óruddum brautum og því skemmtilegt að skíða í þeim þegar snjóar eins og var þessa vikuna. Ekki er hægt að kvarta yfir veðrinu sem var bara fínt, nægur snjór í brekkunum og snjóaði nokkuð oft þannig að færið var mjög gott, sem er höfuð atriðið.

Hyttan góða í Roabakken
Komum á laugardeginum um 5 leitið og þá var allt liðið frá Íslandi mætt í hyttuna (þessi vinstra megin á myndinni). Hyttan var alveg frábært og fór alveg ótrúlega vel um alla þá 15 sem gistu. Það helsta sem var hægt að kvarta yfir var að hún var í of brattri hlíð til að geta verið með börnin á snjóþotum eða skíðum. Restina af vikunni var svo skipst á að skíða, passa börn, snjóþotuferðir, eldamennsku og spila Trivial Pursuit.

Heimilislífið gekk mjög vel og var ansi fjölskrúðugt þegar öll börnin voru á fullu. Kári og Valdimar voru flottir saman þó svo að það hafi hellst uppá vináttuna einu sinni eða tvisvar. Svo var Guðrún flott með báðum frændum sínum, hvort sem hún var að leika við þá eða gera eitthvað annað.

Kári á skíðum í Hafjellet
Guðrún og Hera voru ótrúlega flottar á skíðunum sínum og duglegar að standa sjálfar á skíðum. Kári fékk svo að prufa skíðin hennar Heru og gekk mínum manni bara ótrúlega vel. Stóð í lappirnar og hafði gaman að renna niður barnabrekkuna. Kári fékk svo að fara nokkrar ferðir í alvöru brekkuna á bakinu á pabba sínum sem honum fannst mjög gaman.

Ekki var öll vikan tóm sæla því Anna ásamt tveimur öðrum lögðust í einhverja flensu pest. Þau misstu því út næstum þrjá daga, þó svo að þau öll hafi farið eitthvað út á skíði þessa daga. Kári var svo komin með gubbuna (eins og Guðrún frænka) þegar við vorum komin til baka og hefur átt mjög bágt síðan þá. Anna er ennþá veik og rétt í þessu bárust þær fréttir að ekki nóg með að hún sé búin að vera með hita, kvef og hósta þá bættist þessi umrædda gubbubest við allt saman, hressandi.

En samt gott að vera komin til baka úr skemmtilegri skíðaferð.

1.2.08

Skíðaferð til Lillehammer

Þá er loksins komið að skíðaferðinni til Lillehammer. Búinn að bræða ofan í skíðin og ættu þau að vera í nokkuð góðu standi, bíll búinn að fara í fokdýra smurningu og þá er bara að henda fötunum í töskuna og þá er allt tilbúið.

Á morgun verður ferðinni heitið í vikuferð til Hafjell sem er aðal skíðasvæðið "í" Lillehammer (15 km fyrir utan Lillehammer). Þar munum við hitta 11 manna hóp frá Íslandi og munum við gista í þessari hyttu sem er auðvitað í miðri hlíðinni. Held að aðstæður gætu ekki litið betur út, varðandi snjó og aðstæður í fjallinu. En svo er alltaf spurning hvað við verðum heppin með veður.

Svona til að gera skíðafólk öfundsjúkt þá er hægt að finna allar upplýsingar um Hafjellet hér:
http://www.hafjell.no/en/

Hafjell, her kommer vi...víííí

31.1.08

Uppfærsla

Búinn að laga blogg listann, voru ansi margir dottnir út þarna, annars mæli ég með að fólk noti RSS. Persónulega nota ég Google Reader og mæli með því. Þetta gjör breytir öllu varðandi að lesa blogg, enda fer ég yfirleitt ekki inná blogg sem ekki eru með þetta.

Var líka að skella inn fleiri myndum frá janúari, uppfæra október og svo setja inn myndir frá nóvember. Þá er bara desember eftir...

Linkur á myndirnar eru hérna til hliðar.

30.1.08

ú á fótbolta

Mikið eru menn hressir hér. Ég er að reyna að vinna í því að láta þetta ekki hafa áhrif á mig, hef lítið sem ekkert horft á fótbolta á þessu ári og held það muni bara minnka með þessu framhaldi.

Hvað segirðu Árni er gott að skifta um lið?

28.1.08

Veikindi, gönguskíði og ljósmyndir

Helgina var róleg og góð, alltaf gott að taka svona helgar inná milli. Kári er búinn að vera veikur og er það ennþá þannig að ekki var gert mikið. Ekki oft sem maður fer fyrir kl. 11 að sofa á föstudagskvöldi en það varð raunin um helgina. Spilaði kannski eitthvað inní að næturnar áður var Kári búinn að vera hóstandi mikið og því alltaf vaknandi við hóstið í sjálfum sér, þannig að foreldrarnir voru ekkert sérlega vel sofnir.

Annars var farið í fyrstu gönguskíðaferð vetrarins í gærkvöldi. Ég og Stebbi fórum upp í Bymarka sem er svæði fyrir ofan Þrándheim og ansi vilsælt til langrenn (gönguskíði) iðkunar. Mikið uppí móti fyrst og var það gott til að koma púlsinum vel af stað, tókum smá hring eftir það og svo skíðað aftur niður. Gönguskíðaferill minn er ekkert alltaf langur og ekki hjálpa skíðin mér mikið þannig að ferðin niður var ansi skrautleg. Átti í nokkrum vandræðum með að beygja þannig að á niðurleiðinni tók ég mér nokkuð oft stuttar pásur í snjósköflum. En gaman var þetta, það verður gert meira af þessu í vetur.

Var líka að reyna að koma ljósmyndasafninu saman. Ég er svo geðveikur að allt verður að vera merkt í bak og fyrir áður en ég set þetta á netið. Tags, keywords og hvað sem þetta heitir er því allt komið á sinn stað.
Hér eru því myndir frá janúar, ekki búið að taka mikið en þetta er allavega eitthvað smá.
Janúar 2008

Bara að smella á myndina og þá ætti þetta að koma upp.

jæja back to school...

25.1.08

Kvikmyndir á árinu 2007

Ætla að setja inn lista með myndum sem ég sá á árinu 2007 (og aðeins inní 2008). Finnst ekki rétt að taka bara myndir sem komu út á árinu heldur þær myndir sem ég sá á árinu, alveg sama hversu gamlar þær eru. Þar sem ég fer ca. aldrei í bíó þessa dagana þá horfði ég á flestar þessara mynda (allar nema ein) á dvd eða svipuðu formati.

Einkunna skalinn er frá 0 til 10 og dæmi ég myndirnar alltaf á "The Internet Movie Databese (IMDb)". Mér finnst oft erfitt að gefa myndum einkunir og því er þetta nú ekkert algilt, og einnig breyti ég einkunn sem mynd fær eftir vanlega íhugun um gæði myndarinnar. Mér finnst einnig mjög erfitt að gefa mynd 10 og 0. En það væri hægt að segja að skalinn væri nokkurn vegin svona hjá mér:
7-10: Góðar myndir sem ég mæli með.
6: Svona mitt á milli.
4-5: Allt í lagi ef þú hefur ekki mikið með tímann að gera.
0-3: Algjört drasl, slepptu þessu, forðastu þessar myndir eins og heitann eldinn.

Hérna er svo linkur á listann minn á imdb.

En listinn í öllu sínu veldi:
Superbad (2007) 9
300 (2006) 9
Casino Royale (2006) 9
The Departed (2006) 9
Freedom Writers (2007) 9
Little Miss Sunshine (2006) 9
Live Free or Die Hard (2007) 9
Apocalypto (2006) 8
Blades of Glory (2007) 8
Blood Diamond (2006) 8
The Bourne Ultimatum (2007) 8
Eastern Promises (2007) 8
Fracture (2007) 8
Hot Fuzz (2007) 8
The Illusionist (2006) 8
The Incredibles (2004) 8
Knocked Up (2007) 8
The Last King of Scotland (2006) 8
Mýrin (2006) 8
Mr. Brooks (2007) 8
The Pursuit of Happyness (2006) 8
Reign Over Me (2007) 8
Smokin' Aces (2006) 8
Sometimes in April (2005) (TV) 8
United 93 (2006) 8
Zodiac (2007/I) 8
Clerks II (2006) 7
Disturbia (2007) 7
Evan Almighty (2007) 7
Jarhead (2005) 7
The Kingdom (2007) 7
Laberinto del fauno, El (2006) 7
The Last Kiss (2006) 7
Mr. & Mrs. Smith (2005) 7
Music and Lyrics (2007) 7
The Prestige (2006) 7
Shark Tale (2004) 7
Shooter (2007) 7
Stranger Than Fiction (2006) 7
Underworld: Evolution (2006) 7
"Brandvägg" (2006) (mini) 6
Black Snake Moan (2006) 6
Cars (2006) 6
Children of Men (2006) 6
Flags of Our Fathers (2006) 6
Flyboys (2006) 6
Fritt vilt (2006) 6
Hannibal Rising (2007) 6
Hitch (2005/I) 6
The Holiday (2006) 6
I Now Pronounce You Chuck & Larry (2007) 6
Johnny Dangerously (1984) 6
King Arthur (2004) 6
Night at the Museum (2006) 6
Perfect Stranger (2007) 6
Pirates of the Caribbean: At World's End (2007) 6
Rocky Balboa (2006) 6
Surf's Up (2007) 6
Tarzan (1999) 6
Alpha Dog (2006) 5
Crank (2006) 5
Deja Vu (2006) 5
The Devil Wears Prada (2006) 5
Employee of the Month (2006) 5
The Good Shepherd (2006) 5
Hollywoodland (2006) 5
Lady in the Water (2006) 5
The Lookout (2007) 5
Next (2007) 5
Spider-Man 3 (2007) 5
Wild Hogs (2007) 5
1408 (2007) 4
88: 88 Minutes (2007) 4
American Pie Presents: Beta House (2007) (V) 4
The Brothers Grimm (2005) 4
Idiocracy (2006) 4
John Tucker Must Die (2006) 4
The Nanny Diaries (2007) 4
The Number 23 (2007) 4
Sunshine (2007) 4
Blind Dating (2006) 3
Catch and Release (2006/II) 3
Ghost Rider (2007) 3
Good Luck Chuck (2007) 3
I Know Who Killed Me (2007) 3
Babel (2006) 2
Breaking and Entering (2006) 2
Broken Flowers (2005) 2
Silent Hill (2006) 1

Bestu myndirnar voru svo:
Grínmynd: Superbad (2007)
Spennumynd: Live Free or Die Hard (2007)
Drama: Freedom Writers (2007)

Svo eru margar myndir sem ég hlakka mikið til að sjá eins og:
There Will Be Blood, No Country for Old Men, Juno, American Gangster, The Kite Runner og Michael Clayton. Vonandi á ég eftir að sjá fleiri góðar myndir og færri slæmar myndir 2008.

23.1.08

Myndir frá EM

Loksins vann Ísland...ekkert sérlega gaman að horfa uppá þetta í gær, vorum farin að tala um pólitík á tímabili.
EM í handbolta í Þrándheimi

En myndir frá EM hér í Þrándheimi eru komnar í myndaalbúmið:
EM í handbolta

21.1.08

Ég og Eiki

Verð bara að fá að setja þessa mynd inn...

Ég og rokktröllið Eiríkur Hauksson á Monte Cristo eftir leik Íslands og Slóvakíu.

8 maðurinn

Allt á fullu í kringum EM um helgina.

Fjölskyldan saman á landsleik Íslands og Slóvakíu.
Búinn að fara á alla þrjá leiki Íslands. Leikurinn á fimmtudaginn voru mikil vonbrigði þó svo að stemmningin hafi verið ótrúlega góð á leiknum. Alveg frábært að sjá allan stuðninginn sem Íslenska landsliðið fær hérna í Þrándheimi. Eins og leikmenn liðsins hafa sagt er þetta eins og að vera á heimavelli. Ekki leiðinlegt að fá að taka þátt í þessu.
Kári hress á EM í handbolta, lætur sitt ekki eftir liggja og klappar með.
Á laugardaginn var svo alvöru flugeldasýning, 16-5 í hálfleik. Kári kom með í þetta skiptið og skemmti hann sér bara nokkuð vel. Fannst reyndar skemmtilegast að sitja öfugt í sætinu og horfa á brjálaða stuðningsmenn hoppandi og öskrandi sitt lið áfram. Nenni nú ekki að fara út í einhverjar lýsingar á þessum leikjum því flestir vita nú hvernig okkar mönnum hefur gengið.

En eftir leik var farið heim og horft á Svíþjóð - Frakkland og bætt á sig nokkrum øl. Fórum svo niður í bæ á Monte Cristo og var þar mjög góð stemmning. Eiríkur Hauksson var að sjálfsögðu á staðanum og maður stóðst ekki mótið og fékk mynd af sér með kallinum (á eftir að fá hana senda frá Jóa). Hann tók bara vel í þetta og virtist nú ekkert vera of pirraður á fullum íslendingum. Þó svo að bærinn hafi verið fullur af fullum nýjum íslendingum þá héldum við Íslendingarnir sem búum hérna eiginlega hópinn og úr varð ansi gott djamm. Enduðum svo kvöldið á einhverju diskóteki sem var ekki alveg minn tebolli, eftir að hafa farið á klósettið týndi í ég öllum en tókst svo loksins að finna allt liðið í einhverju útskoti sem var svona bar innaf diskótekinu.
Ég og Finnur á Monte Cristo, aldrei getur maður verið eðlilegur á mynd...
Heilsan á sunnudaginn var svo eitthvað að stríða mér en maður náði að koma sér í gírinn fyrir leik Íslands og Frakka. Misstum Frakka alltof langt á undan okkur og stemmningin á pöllunum leið aðeins fyrir það. Síðsti leikurinn í mínum bókum.

Jói fær svo stóran blús í bókina fyrir að drullast niður á Monte Cristo og spila með engum öðrum en Eiríki Haukssyni. Við misstum reyndar öll af þessu en sá myndbrot sem Jói sést "rokka" með Eika.

Annars frábærri helgi lokið og Ísland komið í milli riðlana, sem verður spilaður hérna í Þrándheimi. Held samt að við höfum ekki efni á að kaupa okkar á restina af leikjunum, þetta er alveg fáránlega dýrt. Þannig að maður verður bara vera heima og horfa á þetta í sjónvarpinu.

17.1.08

Ísland og Örvar í Trondheim Spektrum í kvöld

Stórleikur Íslands og Svíþjóðar í kvöld í Trondheim Spektrum og að sjálfsögðu verður maður staddur á svæðinu til að styðja sína menn. Við erum meira að segja búin að fá pössun þannig að Kári þarf ekki að vaka langt fram yfir sinn háttatíma og hlusta á sveittar handboltabullur taka æðisköst. Einn leikskólakennarinn bauðst í gær að koma og passa þegar ég sagði henni frá því að við ætluðum á leikinn með unga manninn og því yðri hann nú örugglega þreyttur á föstudaginn. Ekkert smá gott að fá svona hjálp þar sem allar ömmurnar og afarnir eru nú heima á Íslandi.

En í þetta skiptið fer meður ekki illa sofinn með hnút í maganum niður í Trondheim Spektrum heldur með tilhlökkun. Trondheim Spektrum er nefnilega prófstaður þeirra í NTNU og er maður vanir að fara þangað til að taka sín próf. En ekki í þetta skiptið, maður er nú búin með þann pakka.

Það verður samt að viðurkennast að ég er nú ekkert mesta handbolta bulla í heiminum, en aftur á móti mjög spenntur fyrir þessu móti. Ekki alltaf sem handbolta landsliðið kemur að heimsækja mann til Þrándheims. Annars er Anna miklu meiri handbolta bulla heldur en ég, æsir sig alltaf miklu meira yfir handboltanum, á meðan ég er þessi rólegi. Verður fróðlegt að fylgjast með frúnni í kvöld, rjóða í kinnum og óskrandi eins og hún eigi lífið að leysa.
Þannig að allir að horfa á sjónvarpið í kvöld og sjá mig við hliðina á einni kolbrjálaðri bullu ;)

16.1.08

Vikan sem líður...

Það er búin að vera mikil stemmning á heimilinu þessa vikuna. Bæði ég og Anna erum búin að liggja með flensu en Kári er þó nokkuð hraustur. Anna ætlar samt að harka af sér og fara í vinnuna í kvöld.

Ég fór á minn fyrsta fund útaf meistaraverkefninu í gær og lýst mér bara nokkuð vel á þetta. Verkefnið gengur aðalega út á að vinna að gerð "forrits" í excel sem á að hjálpa við að reikna krafta á forsteyptar gólfplötur. Þannig að nú er bara að byrja að lesa aðeins um efnið og svo verður maður að reyna að byrja einhverstaðar. Það er skrítin tilhugsun að vera búin með öll fögin og þar af leiðindum prófin líka, sitja bara heila önn og vinna í sama verkefninu.
Leiðbeinandinn vildi að við myndum gera vinnuáætlun, sem ég held að hjálpi við að halda manni á tánum. Þó svo að það sé nú nokkuð erfitt að áætla svona strax hvar öll vinnan felst.

En það er eins gott að hrista af sér þessi veikindi því EM er að byrja á morgun og eigum við fjölskyldan miða á alla leiki í riðlinum. Stórleikur á móti Svíum á morgun og þá verður maður að vera orðinn góður. Anna búin að kaupa andlistliti en aftur á móti eigum við ekki neina Íslands búninga. Miðarnir voru svo dýrir að ekki er fjárheimild í þau útgjöld.

Jæja svo fer maður að fara bráðum út í slydduna að sækja Kára á leikskólann, hressandi veður búið að vera þennan janúar.

14.1.08

Andfótbolti

Bara til að ljúka þessu af.

Liverpool geta ekki neitt í fótbolta og munu ekki vinna ensku deildina í ár. Man utd eru með lang besta liðið og munu taka þetta í ár. Þó svo að Arsenal séu að spila góðan bolta þá ná þeir ekki að halda þetta út. Chelsea koma svo sterkir inn og munu enda í öðru sæti. Liverpool nær svo með naumindum að ná í fjórða sætið og Benitez verður rekin í vor ásamt því að nýjir eigendur sem hafa kannski vott af áhuga koma inn.

Ég ætla allavega ekki að gera mér vonir um að Liverpool vinni enska meistaratitilinn fyrr en liðið hefur max. 3 stig á efsta liðið um áramót. Hvenær það verður veit ég ekki.

Bið alla stuðningsmenn Man utd og Arsenal fyrirgefningar á því hafa haldið því fram að Liverpool gæti eitthvað í fótbolta.

Ég þakka guði fyrir að ég horfi ekki á leik helgarinnar því þá hefði þessi pistill verið ennþá svartsýnni. Ég þakka einnig guði að ég sé ekki að eyða einhverjum 70 þúsundum á ári í þetta rugl.

Ég spái því svo að Liverpool nái að vinna Luton 1-0 og vinni FA cup, þrátt fyrir að geta ekki neitt í fótbolta, því svona er boltinn.

11.1.08

Meistaraverkefni og ný tölva

Fékk fyrr í vikunni loksins að vita hvaða meistaraverkefni ég fékk úthlutað. "Dimensjonering av avstivende golvskive" heitir víst verkefnið og ég er bara nokkuð ánægður með það. Ég sett þetta verkefni í annað sæti en "Dimensjonering av avstivende veggskive" í fyrsta sætið. Ef ég fengi sjálfur að ráða hvernig náminu væri háttað væri ég frekar til í að taka fleiri fög í staðinn fyrir meistaraverkefni en maður fær víst ekki ráða öllu.
Veit í sjálfu sér ekki mjög mikið um þetta verkefni en þetta felst í því að búa til reikniörk/forrit til að reikna burðarþol forsteyptsgólfs og ýmsar pælingar með krafta og annað sem virka á gólfið. Á manna máli myndi þetta þýða hvað gólfið þolir marga feita kalla. Vona að þetta hjálpi fólki aðeins að skilja hvað maður er að fara gera næsta hálfa árið. Kemst kannski með betri útskýringu á þessu þegar maður er komin aðeins lengra með verkefnið.

En svo var einnig gerð stór fjárfesting í gær. Fjölskyldan fór saman og það var keypt eitt stykki fartölva. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kaupi tölvu og er þetta því stórt skref fyrir svona ungan mann eins og mig ;). Eins og ég sagði í seinustu færslu var gamla fartölvan hennar Önnu að gera mig brjálaðan.
Acer Aspire 5720ZG var fyrir valin og erum við bara helvíti ánægð með hana. Hérna eru upplýsingar um mulningsvélina miklu. Vorum að skoða myndir á nýju tölvunni og settum sömu myndir á skjáinn á gömlu tölvunni (þeas borðtölvunni) og munurinn var eiginlega sorglegur, nú ættir maður vonandi að sjá myndirnar úr myndavélinni í sínu rétta ljósi.

10.1.08

Aldrei aftur...

Er ekki kominn tími á að láta aðeins í sér heyra. Nú er ég búinn að fá út úr öllum prófunum og get ég því með mikilli ánægju tilkynnt það að ég hef tekið mitt síðasta próf í NTNU eða einfaldlega mitt seinasta próf, vona það allavega.

Hérna er bæði mynd af tölvunni góðu (sjá neðar) og einnig lesaðstöðu mína niðri í skóla.
Eins og ég hef áður sagt hef ég aldrei lært eins mikið og þessa önn og voru því mikil vonbrigði að mér gekk illa í einu prófinu. Áhyggjur útaf þessu prófi hvíldu yfir manni um jólin og það var ekkert sérlega skemmtileg tilhugsun að þurfa kannski í fyrsta lagi að sækja um undanþágu til að gera meistaraverkefnið og í öðru lagi að fljúga til Þrándheims í ágúst til að taka þetta próf. Hvað þá með tilheyrandi framtíðarplönum um húsbyggingar. En svo á nýju ári komu góðu fréttirnar og þetta próf datt í hús, það hafa greinilega fleirum gengið illa eins og ég hafði reyndar heyrt.

Á reyndar eftir að fá einkunn úr verkefninu mínu (sem var eitt fag) en ég var búin að ná þessum 75% sem duga til námslána. Þannig að í fyrsta skipti á ævinni fékk ég námslán sem verður svo notað til að borga af öðru láni, lóðinni. Maður er núna kominn í skulda súpuna með öðrum landsmönnum. Þó svo að ég og Anna séum nú mjög stolt af því að hafa farið bæði í gegnum svona langt nám án lána.

Til að halda áfram í vitleysunni sit ég hérna yfir tölvunni og er alvarlega að velta því fyrir mér að eyða fyrstu krónum námslánsins í að kaupa mér fartölvu. Því að fartölvan sem ég er að vinna á er tölvan hennar Önnu sem hún keypti áður en hún byrjaði í hjúkrun og það var fyrir 5 og hálfu ári síðan (shit hvað tíminn flýgur hratt).
Ekki viss um að margir hefðu þolað eitt og hálf ár með 5 og hálfs árs tölvu. Enda er ég stundum við það að kasta tölvunni í vegginni þegar hún getur ekki verið með excel og pdf skjal ásamt kannski tónlist opið í einu. Fátt sem fer jafn mikið í taugarnar á mér og að þurfa að bíða í óratíma útaf tölvum og það vita þeir sem þekkja mig.

En er þetta ekki komið gott í bili.

4.1.08

Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Allir gestir farnir og tekur því hversdagsleikinn brátt við. Frábær jól og áramót að baki og alveg hreint út sagt frábært að vera með svona góða gesti í heimsókn yfir hátíðirnar.

Því má búast við að það lifni aðeins við hérna á blogginu og ætlaði ég nú alltaf að koma með fullt af listum um allt það besta á árinu. Plötur, lög og bíómyndir og aldrei að vita nema að maður komi með smá áramótapistil.

En það gerist nú ekki mikið núna og ætla ég því bara að segja þetta gott í bili. Kveðja frá Þrándheimi.