24.6.13

Miðnæturhlaup Suzuki

Miðnæturhlaupið er stemmnings hlaup og hafði mig alltaf langað að taka þátt í því. Fór í fyrsta skipti í fyrra í 10 km hlaupið en núna langaði mig að fara hálft maraþon þrátt fyrir krefjandi braut. Var með strákinn á Akranesmótinu alla helgina og því ekki tími fyrir hlaup þá og var maður því vel hlaupa hvíldur eftir helgina.
Var mættur klukku tíma fyrir hlaup niður í Laugardal og sótti númerið í rólegheitum og fór svo fljótlega að hita upp. Tók hefðbundna upphitun til að vekja líkamann aðeins og búa hann undir það sem koma skal. Smá vindur og hiti ca. 10°C.
Það voru einhverjir 300 útlendingar skráðir í öllum vegalengdum og því datt manni í hug að það yrðu nú einhverjir öflugir útlendingar. Sá strax 1 eða 2 sem litu út fyrir að vera öflugir. Ég og Róbert Gunnars vorum líklegastir af íslendingunum sem voru mættir á ráslínu. Skotið reið af og allir hlupu af stað.
Fór af stað á eftir einum útlendingi en lét hann fara fljótlega, sá að hann var í annarri deild en ég. Ég leiddi hóp af 3-5 fyrsta 1-2 km og svo fóru menn að dragast aftur úr. Ég og Róbert og 1-2 í viðbók, vorum í hóp upp að fyrstu vatnstöð við stífluna en þá datt held ég einn aftur úr. Þegar við vorum komnir upp í Víðidal kemur svo einn hress Kanada maður framúr og spyr okkur hvort við þekkjum leiðina, sögðum að svo væri og hann flaut svo aðeins framfyrir okkur. Ég elti hann upp Víðidalinn og áfram framhjá Árbæ en þessar rúllandi hæðir tóku vel í lærin. Fyrst við hesthúsabyggðina, svo við Selás og svo loks við Hádegismóa (Mogga húsið). Þar var Kanada maðurinn kominn með einhverja 50m á mig og ég missti svo Róbert framúr í brekkunni upp að Mogga húsinu. Eftir það kom smá niðurkafli í átt að golfvellinum og þá fór ég strax aftur fram úr Róberti en náði ekki Kanada manninum. Aftur brekka frá golfvellinum upp í Grafarholt en eftir það var svo brött brekka niður í Grafarvog þar sem maður passaði sig að fara ekki of geyst. Þarna og svo í Grafarvoginum dróst aðeins á milli okkar þriggja sem hélst svo alveg til loka.
Gaman að koma að stokknum í Elliðaárdal og bætast í hóp 10km hlaupara. Þeir voru hæfilegum hraða þannig að maður náði að hlaupa hraðar en þeir og svo vann maður sig áfram hægt og rólega. Missti samt sjónir af Kanada manninum. Þegar ég kom hjá Glæsibæ sá ég að klukkan var 1:17:xx og reyndi ég þá að gefa vel í til að sjá hvort ég kæmist undir 1:20. Þrátt fyrir góðan endasprett þá dugði það ekki og endaði ég á 1:20:20 sem er bæting um heilar 6 sek.
Endaði í 3. sæti og var fyrstur íslendinga. Sáttur við daginn og skemmtilegt hlaup í krefjandi braut. Fékk svo gjafabréf í Reykjavíkur maraþon í verðlaun.

Engin ummæli: