30.9.13

Kvöldskokk og eltingaleikur hjá löggunni.

Út eftir kvöldmat og ca. 15 km á dagskrá. Var mjög ferskur og rúllaði létt. Flott veður úti, nokkuð hlýtt og logn, seinustu geislar sólarinnar að hverfa bakvið sjóndeildarhringinn. Hljóp meðfram golfvellinum og niður í Kópavogsdal. Svo þegar ég er að hlaupa upp Digranesveginn heyri ég rosaleg læti í einum bíl sem keyrir upp brekkuna. Hugsa að ökumaðurinn sé nú eitthvað utan við sig að keyra bílinn svona. Hann beygir inn Hlíðarhjallann og kemur svo aftur framhjá mér ofar í brekkunni. Þegar ég kem inn Bröttubrekku mæti ég honum aftur, hann tekur U-beygju og þá veifa ég til hans að stoppa. Hann stoppar talar við mig. Ég benti honum á að dekkið væri sprungið, hann var með útvarpið í botni og vildi ekki lækka það, sagðist ekkert heyra í mér og bauð mér að koma upp í bílinn. Ég afþakkaði pent og hringdi svo í lögregluna þegar hann reykspólaði í burtu á þremur hjólum. Stuttu seinna kom hann á öðru hundraði niður Álfhólsveginn á öfugum vegarhelmingi á móti mér með 4 lögreglubíla á eftir sér. Mér leið eins og ég væri staddur í nýja GTA leiknum, alveg gjörsamlega fáránlegt. Ég hélt svo áfram að hlaupa og fór í gegnum Engihjallann og þaðan inn í Breiðholtið og heim. Einn eftirminnilegasti hlaupatúr sem ég hef farið í, það er alveg á hreinu.
17 km á 1:21 klst.

Hérna er fréttin:
http://visir.is/ok-a-thremur-hjolum-undan-logreglunni/article/2013130939880

Engin ummæli: