29.6.13

Langt í Heiðmörk + Vikan

Fór að heiman í fínu veðri, skýjað og hlýtt úti. Fór meðfram golfvellinum niður að Vífilsstaðavatni, kringum það og svo inn Vífilstaðahlíðina, inn Búrfellsgjá og svo meðfram Löngubrekku (held það heiti það) inná fræðsluhringinn og þaðan meðfram vatninu heim. Einhver þreyta og orkuleysi eftir ca. 15 km. Hélt samt áfram og kláraði þetta semi ferskur.
Var búinn að vera vinna í að moka beð í 3 klst fyrir hlaupið sem hefði kannski þessi áhrif, vona það en hafi ekki verið eitthvað hlaupa tengt.
 30 km á 2:22 klst.

Fín vika að baki. Hljóp samtals 112km á 8:50 klst. Ein keppni, eitt langt og eitt lítið fjall, annars nokkuð rólegt allt saman. Var orðinn þreyttur eftir vikuna og þarf maður að passa álagið núna þegar að það eru tvær vikur í Laugarveginn. Næstu tvær vikur minnkar maður svo hlaupin og hugar að hvíld til að mæta ferskur til leiks í Laugaveginn.

28.6.13

Rólegt morgunskokk

Hljóp í vinnuna í fínt veðri. Fór sunnan megin við vatnið og þaðan meðfram Bugðu og Rauðavatni inn í Árbæ og vinnuna. Nokkuð ferskur, fékk mér einn banana áður en ég lagði af stað.

27.6.13

Samgönguhlaup + Úlfarsfellið

Morgunhlaup í vinnuna. Smá rigning og meðvindur. Fékk mér morgunmat áður en ég fór af stað og því lítið mál að rúlla af stað.
7,3km á 35 mín.

Hljóp úr vinnunni og stefnan tekin á Úlfarsfellið, svo í matarboð í Mosó. Fór niður í Grafarvog, upp meðfram golfvellinum upp í Grafarholt, þar í kring og yfir á Úlfarsfellið. Fann einhverja niðurleið og lenti í vandræðum í mikilli drullu og rótum. Endaði með að fljúga á hausinn og svo að reka hausinn í brotna grein. Komast þó nokkuð heill niður á Vesturlandsveg og tók létt skokk það sem eftir var. Fínt veður smá vindur og smá rigning, ekkert til að væla yfir. Ennþá smá þreyta í löppum eftir mánudaginn en allt að koma.
11,5 km á 1:01 klst.

26.6.13

Heiðmerkurhringurinn

Út eftir kvöldmat og stefnan tekin á Heiðmörk. Ennþá með talsvert af harðsperrum í kálfum og utanverðum lærum eftir hálfa maraþonið á mánudaginn. Ágætisveður þrátt fyrir slæma spá fyrir daginn. Fékk reyndar tvær dembur á mig en það var bara hressandi. Slapp við mesta vindinn. Komast á ágætis ról en hélt þessu frekar rólegu.
17 km á 1:20:47.

25.6.13

200 Kóp recovery

Létt rúll um 200 Kóp. Fékk þennan fína hlaupasting eftir 1km sem var alveg að drepa mig á tímabili. Þegar ég loksins losnaði við hlaupasting þá tók almenn þreyta og stífleiki við eftir hlaup gærdagsins. Gott að komast aðeins út og reyna að hrista af sér mestu harðsperurnar.
9,6km á 46:22 mín.

24.6.13

Miðnæturhlaup Suzuki

Miðnæturhlaupið er stemmnings hlaup og hafði mig alltaf langað að taka þátt í því. Fór í fyrsta skipti í fyrra í 10 km hlaupið en núna langaði mig að fara hálft maraþon þrátt fyrir krefjandi braut. Var með strákinn á Akranesmótinu alla helgina og því ekki tími fyrir hlaup þá og var maður því vel hlaupa hvíldur eftir helgina.
Var mættur klukku tíma fyrir hlaup niður í Laugardal og sótti númerið í rólegheitum og fór svo fljótlega að hita upp. Tók hefðbundna upphitun til að vekja líkamann aðeins og búa hann undir það sem koma skal. Smá vindur og hiti ca. 10°C.
Það voru einhverjir 300 útlendingar skráðir í öllum vegalengdum og því datt manni í hug að það yrðu nú einhverjir öflugir útlendingar. Sá strax 1 eða 2 sem litu út fyrir að vera öflugir. Ég og Róbert Gunnars vorum líklegastir af íslendingunum sem voru mættir á ráslínu. Skotið reið af og allir hlupu af stað.
Fór af stað á eftir einum útlendingi en lét hann fara fljótlega, sá að hann var í annarri deild en ég. Ég leiddi hóp af 3-5 fyrsta 1-2 km og svo fóru menn að dragast aftur úr. Ég og Róbert og 1-2 í viðbók, vorum í hóp upp að fyrstu vatnstöð við stífluna en þá datt held ég einn aftur úr. Þegar við vorum komnir upp í Víðidal kemur svo einn hress Kanada maður framúr og spyr okkur hvort við þekkjum leiðina, sögðum að svo væri og hann flaut svo aðeins framfyrir okkur. Ég elti hann upp Víðidalinn og áfram framhjá Árbæ en þessar rúllandi hæðir tóku vel í lærin. Fyrst við hesthúsabyggðina, svo við Selás og svo loks við Hádegismóa (Mogga húsið). Þar var Kanada maðurinn kominn með einhverja 50m á mig og ég missti svo Róbert framúr í brekkunni upp að Mogga húsinu. Eftir það kom smá niðurkafli í átt að golfvellinum og þá fór ég strax aftur fram úr Róberti en náði ekki Kanada manninum. Aftur brekka frá golfvellinum upp í Grafarholt en eftir það var svo brött brekka niður í Grafarvog þar sem maður passaði sig að fara ekki of geyst. Þarna og svo í Grafarvoginum dróst aðeins á milli okkar þriggja sem hélst svo alveg til loka.
Gaman að koma að stokknum í Elliðaárdal og bætast í hóp 10km hlaupara. Þeir voru hæfilegum hraða þannig að maður náði að hlaupa hraðar en þeir og svo vann maður sig áfram hægt og rólega. Missti samt sjónir af Kanada manninum. Þegar ég kom hjá Glæsibæ sá ég að klukkan var 1:17:xx og reyndi ég þá að gefa vel í til að sjá hvort ég kæmist undir 1:20. Þrátt fyrir góðan endasprett þá dugði það ekki og endaði ég á 1:20:20 sem er bæting um heilar 6 sek.
Endaði í 3. sæti og var fyrstur íslendinga. Sáttur við daginn og skemmtilegt hlaup í krefjandi braut. Fékk svo gjafabréf í Reykjavíkur maraþon í verðlaun.

23.6.13

17-23. júní

Róleg vika að baki, meira af nauðsyn en einhverju öðru en eftir stífa seinustu viku var í góðu að missa út nokkra daga. Afmæli og frúin að vinna + Norðurálsmótið hjá stráknum og því nóg að gera. Tók Mikka maraþon með Kára á 17. júní og skemmti hann sér mjög vel. Eftir það voru það 3x morgunhlaup + eitt kvöl í Heiðmörkinni. Komast ekki föstudag né laugardag sökum anna en ákvað svo einfaldlega að hvíla á sunnudaginn. Þannig var þetta fín tímasetning til að fara svo í hálft í Miðnæturhlaupinu á mánudeginum.
Vikan var því:
51 km og 4:16 klst

Nú fer að styttast í Laugaveginn (3 vikur) og því er næsta vika ein sú síðasta sem hægt er að taka sæmilegt magn. Eftir það fer þetta að minnka.

20.6.13

Morgunskokk

Morgunskokk í Heiðmörk, enn og aftur var ég ekkert að nenna þessu. Þessi morgunhlaup eru frekar erfið en skána eftir því sem líður á. Ekki gott að hlaupa á útúr spændum hestaslóðum svona í morgunsárið en þegar ég komst á vegina þá verð þetta betra. En veðrið klikkar ekki á afmælisdaginn, sól og logn.
10,3 km á 50 mín

19.6.13

Morgunhlaup

Skemmtilegt morgun hlaup. Smá þreyta og var varla að nenna út, vissi samt að það kæmist ekki önnur æfing inn í dag og því drullaðist maður úr rúminu og þá var þetta lítið mál eftir það.
Hljóp meðfram vatninu í sól og blíðu svo meðfram Helluvatni og þaðan inná veginn og tilbaka með smá krók til að klára 10 km. Tók 48 mín.

18.6.13

Morgunhlaup + Heiðmerkurhringur

Morgunhlaup. Upptekin þessa vikuna og því verður lítið um alvöru hlaup. Fór út kl. 6 og skokkaði hringinn í kringum vatnið. Þreyttur í hælum í byrjun en svo datt maður í gang. Samt meira strögl svona á morgnanna en þegar maður er almennilega vaknaður og kominn af stað.
10km á 48:36 mín.

Fór út eftir afmælisveisluna mína að prufa nýja dótið mitt. Fékk nýja skó (Brooks PureGrit), nýja compression sokka frá Nike og nýja bol.
Fór í alveg grenjandi rigningu af stað en eftir ca. 4-5km hætti að rigna og kom þetta flotta veður. Sæmilega sprækur en finn fyrir smá þreytu eftir erfiða seinustu viku. Var að skríða heim um kl. 23:30 en gott að ná nokkrum km í bankann því það komast lítil hlaup inn í næstu helgi.
Skórnir voru fínir, rosalega léttir (um 250 gr.) og með góðu gripi. Fann samt alveg mun á þeim og á nýju Lunarglide skónum sem eru mjög mjúkir.
16,64km á 1:20 klst
Ekki þeir flottustu í bænum en vonandi góðir á Laugaveginum

17.6.13

Mikka maraþon

Kári að hlaupa Mikka maraþon. Flott umgjörð utan um þetta hlaup og gaman að sjá hvað allir krakkarnir voru spenntir. Gekk vel hjá Kára, vorum lengi í gengum hliðið í byrjun og smá sikk sakk fyrsta km en svo fór þetta að rúlla. Hljóp vel og svo var labbað inná milli og fannst svakalega gaman að hella vatni yfir sig á vatnsstöðvunum. Gaman að hlaupa með honum. Hann lenti í 23. sæti í sínum aldursflokki (6-8 ára). En hann hafði gaman af þessu og það er fyrir öllu.
4,2 km á 30:18

16.6.13

Sunnudagur í sveitinni

Var merkilega sprækur í skrokknum eftir 38 km í gær og það var á planinu að reyna við 20+ km svona til að ná loksins almennilegri viku.
Fór úr bústaðnum upp á SU3 línuslóðann og svo niður Lambadal meðfram SU1 og þaðan meðfram hlíðinni með BR1 slóðanum. Þegar hann endaði fann ég sæmilega slóð upp fyrir Eystra Miðfell en var svo týndur út í móa þangað til ég komast yfir á Svínadalsveg, þaðan rúllaði ég svo alla leið yfir að Vatnaskógi og óð ánna og skokkaði svo upp í bústað. Fínt veður, lítill vindur og skýjað en hlýtt. Var með smá vatn með mér og drakk eitthvað úr lækjum á leiðinni.
Tók svo ca. 1 km með Kára í lokin. Var ca. 22,8km á 1:50.

Vikan 10.-16. júní
Hljóp alla daga vikunnar og því er magnið meira en venjulega. Hljóp 129,5km á ca. 12 klst og tók +3.300m / -3.300m í vertikal. Mjög sáttur við vikuna.

14.6.13

Esja #7

Gríska goðið að teygja
Esjuferð nr. 7 í vor/sumar. Ég sótt Guðna og við vorum mættir ca. 6:15 við rætur Esjunnar. Mjög gott veður, sól og logn en smá þokubakki efst.
Fórum fyrri ferðina hægra megin og vorum við 29:10 upp að steini, fór strax niður aftur (vinstra megin) og vorum 14:03 niður. Tókum hringinn í Esjuhlaupinu og svo var farið aftur upp og nú vinstra megin. Vorum þá 31:57 en hlupum ekki mikið. Þá var svo rennt aftur niður (hægra megin) og vorum við 17:09). Í heildina var þetta 14:5 km á 1:46 klst. Fínn morgunæfing fyrir vinnu. Mættum svo glor hungraðir í föstudags morgunmatinn í vinnunni.

13.6.13

Heiðmerkurhringurinn

Út eftir vinnu og ákvað að fara stór hringinn í Heiðmörk. Var ekki alveg viss hvernig ég ætlaði að tækla þetta en fór fljótt á sæmilegt tempó og ákvað að halda því var ca. 140-150 í púls. Gott að komast út á stuttbuxum og bol og það hreyfði varla vind, milt og gott veður.
Hélt þetta sæmilega út og tók svo aðeins rólegra seinustu tvo km. 17 km á 1:14 mín.

12.6.13

Hengill

Horft frá Sleggjubeinsskarði tilbaka yfir Hellisheiðarvirkjun
Langaði að prófa að hlaupa á Hengilinn sem undirbúning fyrir Laugaveginn. Þetta hlaup var tekið í staðinn fyrir Esju hlaup vikunnar. Veður spáin fyrir daginn var mjög góð en ekki gekk hún alveg eftir, ákvað samt að fara af stað þrátt fyrir að þoku læða lægi yfir Henglinum.
Fór frá Sleggjubeinsdal sem er rétt hjá Hellisheiðarvirkjun og upp Sleggjubeinsskarð og þar fór ég upp Húsmúla og meðfram ásnum yfir Innstadal og þaðan upp á Vörðu-Skegga. Svo sem leið lá niður í Innstadal og yfir Sleggjubeinsskarð aftur og þaðan sömu leið tilbaka.
Frábær hlaupaleið og kjörinn undirbúningur fyrir Laugaveginn. Aðstæður voru ekki uppá sitt besta, greinilegt að snjór er ný farinn af stóru svæði og því mikil drulla á köflum.
Snjóskaflinn ógurlegi sem ég þyrfti að þvera
 Þá var einn snjóskafl í mikilli hlíð sem ég þurfti að þvera og ekki þurfti mikið útaf að bera svo maður rynni af stað og myndi enda einhverjum 200m neðar. Þá var mikil þoka og erfitt að rata á milli stika. Þetta hafðist þó allt saman en maður var mjög feginn í lokin þegar maður kom niður úr þokunni niður í Innstadal. Var rétt innan við 1 klst upp og svo ca. 40 mín niður. 13km á 1:39 klst.
Uppá Vörðu-Skeggja, útsýni ekki neitt

11.6.13

200 Kóp

Skrapp út fyrir mat hjá mömmu og pabba og tók ca. 200 Kóp hringinn. Flaug áfram út Kópavoginn en þegar maður var kominn yfir í Fossveginn á Kársnesinu þá byrjaði mikill mótvindur. Barðist á móti vindinum inn Fossvoginn og upp í Engihjalla og þaðan í Hlíðarhjallann.
Frekar þreyttur eftir að hafa verið að vinna allann daginn  út í hrauni og eitthvað orkulaus í lokin. Ágætt að ná inn æfingu sem ég bjóst ekki við að ná.
11 km á 51 mín.

10.6.13

4x400 - 4x1000 - 4x400

Hljóp smá upphitunar hring í Sandahlíðinni og svo inn í Guðmundarlund. Tók þar 4x400 + 4x1000 + 4x400. Tók sprettina á mismunandi undirlagi. 400m hringina tók ég á sléttu svæði en var bæði á malbiki, grófum stíg og grasi og í lengri sprettunum þá fór ég eftir 400m hringinn og svo upp í hlíðina og var þar á skógarstígum. Fór bæði upp og niður en maður hljóp ekkert sérstaklega hratt því undirlagið var vel sleipt í skóginum.
Nokkuð rok úti en talsvert skjól í Guðmundarlundi og svo rigndi hressilega á mann en það var hlýtt úti og ekkert hægt að kvarta.
Fín æfing og nokkuð sprækur þrátt fyrir 50km seinustu tvo daga. Endaði í 13km á 59:15.

9.6.13

Sunnudagur

Fór af stað eftir mat og hljóp niður í Víðidal, Elliðaárdal, Fossvogur, yfir Kópavogshálsinn, upp meðfram Lindunum og heim. Nokkuð ferskur eftir 30km í gær en samt þreyttur í hælnum. Fínt veður, smá gola, skýjað en ekki rigning. Fór í fyrsta skipti í nýju Nike Lundarglide +4 skóna mína sem voru að koma frá DK eftir að hafa orðið þar strand í nokkra mánuði. Virka sem mjög vandaði skór og léttari en +3 skórnir sem ég keypti úti í Boston í fyrra og er búinn að hlaupa 1.000 km á.

8.6.13

Langt á Helgafell

Fór að heiman rétt fyrir kl. 15. Stefnan tekin á Helgafellið. Fór framhjá Guðmundarlundi, línuveginn að Vífilstaðahlíðinni, þaðan í átt að Búrfellsgjá, svo beygt til hægri inná hestastlóðann að Kaldárseli og svo upp að Helgafelli. Mikil þoka þar og maður sá ekki mikið. Fór upp fyrsta slóðann sem ég sá. Skyggnið var ca. 20m á leiðinni upp og þegar ég kom þangað þá sá maður ekki neitt. Ætlaði niður stíginn sem ég hefði komið upp seinasta en fann hann ekki og fór einhvern annan niður. Vissi ekkert hvar ég var á þessum tímapunkti og kveikt því á gps og googel maps í símanum mínum og sá að ég var kominn. Hjálpaði líka að sjá línuslóðann og þá vissi ég að ég ætti að hlaupa til vinstri.
Fór svo framhjá Valahnjúkum og fann svo slóð í átt að Búrfellsgjá. Það endaði við eitthvað misgengi og svo var ég úti í móa þangað til að ég kom að Búrfelli. Hljóp þaðan svo inn í Heiðmörk á fram slæmum stíg sem hestamenn virðast vera búnir að eigna sér. Kom þar inná Fræðsluhringinn og þaðan heim.
Fékk mér tvö GU gel frá Tri.is og líkaði þau vel. Var með ca. 600ml af powerade og fyllti á tvo brúsa við Kaldársel. Orkustigið fínt en orðinn þreyttur í hælnum og aumur. Hefði viljað fara aðeins lengra en var runnin út á tíma. Veðrið fín, ágætlega hlýtt ekki mikill vindur en mikil þoka.
30km á 2:39 klst.

7.6.13

Esja #6

Fyrsta morgun Esjan. Ferð nr. 6 á Esjuna í vor. Var ekki búinn að komast út að hlaupa í tvo daga útaf vinnu og matarboðum og svo var plönuð vinnuferð á föstudeginum þannig að ég ákvað að drífa mig út snemma og klára æfingu dagsins. Var mættur um 6:15 niður á Esjumela og lagði af stað þaðan. Sló svo nýtt met upp að steini og var 27:48 mín. Hljóp svo nokkuð rólega niður enda var úði og allt frekar blautt.
Hressandi leið að byrja nýjan dag og góð Esjuferð. ca. 10km á rúmum 60 mín.

4.6.13

Rólegt ógeðisveðurshlaup

Ógeðis veður úti og ég ekki að nenna út. Fór af stað og í mjög miklum mótvindi og rigningu fyrstu km. Fann svo smá skjól í Heiðmörk en var eitthvað illa upplagður og snéri fljótt við. Endaði í 11,2km á 57 mín.

3.6.13

5x 1,6 km

Það var ákveðið að flýja inn í ræktina á brettið til að forðast ógeðis eðrið sem var úti. Mikið rok og grenjandi rigning heitir það nú víst, sumar er að taka vel á móti manni. Fór 4km upphitun úti.
Fór svo á brettið og tók þar 5x1,6m @ 10K hraða með 2 mín í labb pásur. Var á 3:40 eða á 16.4 á hlaupa brettinu og með 1 í halla.
Gekk fínt en var vel þreyttur eftir þetta og maður svitnaði mjög mikið enda vel heitt inni í Actic. Langt síðan maður hljóp á bretti og tekur smá tíma að venjast þessu. Var á nýju Nike Free 3.0 skónum og voru þeir svakalega fínir á brettinu. Léttir og lágir og fékk ekkert í kálfana á að hlaupa í þeim.
Samtals 9,2km inni og svo hlaupið heim í miklum mótvindi og grenjandi rigningu. Þurfti varla að fara í sturtu eftir þessa dembu.
Tími: 1:14 og 16,3 km

2.6.13

Langt recovery hlaup

Fór út eftir kvöldmat og hljóp stór hringinn í Heiðmörkinni. Bætti svo við hringnum í kringum Vatnsendahlíð til að lengja þetta upp í 20 km. Langaði aðeins að reyna bæta við km eftir að hafa misst út tvo daga útaf kvef drullu og Grafningshlaupinu.
Var nokkuð sprækur eftir Grafningshlaupið og það virtist ekki sitja mikið í mér.
20 km á 1:39 klst.

Vikan endaði þá í 95km og 8:11 klst. Vertikal fór ég +1950 / -1780